Ég hef unnið hér [í versluninni Fischersundi] síðan í nóvember. Ég er alls ekki búin að fá nóg af lyktinni hérna inni, ég fæ aldrei nóg af henni. En það fer eftir árstíðum hver uppáhaldslyktin mín er hér innanhúss. Í vetur notaði ég ilm númer 23. (reykur, anís, svartur pipar, tóbak og sitkagreni), sem er aðeins þyngri lykt, og svo kom vorið og þá færði ég mig yfir í ilm númer 8. (ferskt loft, súr rabarbari, bergamót og fura).
Ég hafði áhuga á lyktunum hér í versluninni áður en ég byrjaði að vinna hér en núna hef ég fengið innsýn í hvað gerist á bak við tjöldin, allt frá konseptinu á bak við lyktina og hvernig útkoman verður svona falleg. Eftir að ég hóf störf hef ég tekið meira eftir því hvernig fólk ilmar og hvernig ilmvatn það velur sér. Mér finnst gaman að pæla í því. Fólk ilmar almennt vel.
Ég held að ég hafi ekki enn þá lent í neinu stórmerkilegu sem hefur breytt lífsrásinni. Ég hef flutt mjög oft og er því vön breytingum svo mér bregður eiginlega meira ef hlutir breytast ekki. Ég hef bæði flutt á milli bæjarfélaga og landa. Mér finnst best að búa í Vesturbænum þar sem ég bý núna. Það var líka mjög gaman að búa á Húsavík þar sem ég gat labbað beint úr skólanum í fjallið og farið beint á skíði, strax komin í náttúruna.
Athugasemdir (1)