Myndbönd og skjáskot af samskiptum Vítalíu Lazarevu og Arnars Grant hafa undanfarna daga verið birt á samfélagsmiðlum með greiningu Frosta Logasonar. „Það er eitthvað mikið að,“ heyrist Arnar ítrekað segja og Frosti tekur undir: „Það er alveg sama hvað Arnar Grant segir eða hver sem er í þessum Me-Too málum. Þeim er ekki trúað, körlunum.“
Í marga mánuði hafa skilaboðin verið þau að Vítalía sé vanstillt, ótrúverðug og óheiðarleg. Ástæðan er sú að hún greindi á sínum tíma frá sumarbústaðarferð með áhrifamönnum í íslensku viðskiptalífi, sem hún sakaði um kynferðisbrot gagnvart sér. Frásögn hennar hafði áhrif á stöðu þeirra og starfsferil, en rannsókn lögreglu á meintum brotum var nýlega felld niður. Fyrir vikið er hún ítrekað höfð að háði og spotti í íslensku samfélagi. Óteljandi fréttir hafa verið birtar af sjúku sambandi þeirra Arnars Grant. Alls konar sögur bornar út um Vítalíu, konu sem er augljóslega í mjög veikri stöðu og slæmu andlegu ástandi. Á meðan samfélagið sekkur ofan í sápuna eru undirliggjandi skilaboð þau að það sé ekki óhætt að trúa þeim sem segja frá reynslu af ofbeldi, markalausum og meiðandi samskiptum.
Skilaboðin, sem hafa fram til þessa verið ósögð, voru orðuð skýrt í Youtube-þætti Frosta Logasonar, sem sagði samskipti þeirra Vítalíu og Arnars sýna að MeToo-hreyfingin hafi að hluta byggt á „hefnigirni kvenna“, blaðamenn hafi verið notaðir til að ná fram hefndum og hæðst var að orðum forsætisráðherra um að hér væri að eiga sér mjög mikilvæg þróun, þegar hér var skapað umhverfi þar sem brotaþolar upplifðu öryggi til að stíga fram. „Þetta er klikkað. Algjörlega klikkað.“
Í skjáskotum af samskiptum Vítalíu og Arnars spyr hún: „Var brotið á mér?“ og hann svarar: „Ég get staðfest það fyrir dómi.“ „Ég er að spyrja þig hvort það áttu sér stað kynferðisbrot eða ekki. Er það geðveiki í mér eða er það satt?“ Arnar rekur þá hverjir eru sekir að hans mati. „Klárlega er um brot að ræða,“ segir hann.
Eitthvað virðist hafa gerst, sem átti ekki að gerast, því þegar Vítalía steig fram á sínum tíma sendi einn þessara manna frá sér yfirlýsingu þar sem hann staðfesti frásögn hennar, allavega að hluta. Sagðist hann líta málið alvarlegum augum, þótt hann hefði ekki brotið hegningarlög: „Ég harma að hafa ekki stigið út úr aðstæðum sem ung kona hefur skýrt frá og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.“ Þegar málinu var lokið af hálfu lögreglunnar sendi hann frá sér aðra yfirlýsingu, þar sem hann ítrekaði eftirsjá. „Ég mun ætíð sjá eftir því að hafa ekki stigið út úr umræddum aðstæðum.“
„Ég mun ætíð sjá eftir því að hafa ekki stigið út úr umræddum aðstæðum“
Allar þessar frásagnir af Vítalíu grátandi, rífandi kjaft og haga sér svona eða hinsegin, tala beint inn í gamlar mýtur um hvernig konur skuli haga sér til að vera marktækar sem brotaþolar. Í Morgunblaðinu árið 1999 birti fréttamaður lista yfir þætti sem stuðla að sakfellingu í kynferðisbrotamálum; vitnisburður annarra um geðshræringu konunnar eftir atburðinn, hún leggur strax fram kæru, læknisskoðun leiðir í ljós merki eftir ofbeldi, konan er samkvæm sjálfri sér í framburði hjá lögreglu og fyrir dómi og síðast en ekki síst: „Enginn samdráttur verið áður með aðilum.“ Fram til ársins 1940 var þetta viðhorf bundið í lög. Vægari refsing var við því að þvinga konu til samræðis ef óorð var á henni. Hugmyndir um góðar og slæmar konur, sem eigi misgott skilið, eiga sér djúpar rætur í samfélagi manna. Alveg eins og samfélaginu reynist erfitt að trúa því að góðir strákar geti beitt ofbeldi. Ekki strákarnir okkar.
Með því að stilla einni konu eða tveimur upp sem táknmyndum MeToo er lítið gert úr frásögnum allra þeirra sem stigu fram í því samhengi. MeToo-hreyfingin skapaði rými fyrir óheyrilegan fjölda kvenna til að tjá sig um reynslu sem þær höfðu, beint og óbeint, verið krafnar um að þegja yfir. Undanfari MeToo var margra áratuga barátta kvenna sem höfðu hugrekki til að ögra þessum viðhorfum, slíta sig lausar og segja sinn sannleika. Oft með alvarlegum afleiðingum. Með MeToo var ljósi varpað á það hversu rótgróið, rætið og umfangsmikið kynbundið ofbeldi er. Um leið og sögurnar flæddu yfir samfélagið kviknaði von um að nú myndi samfélagið skilja alvarleikann. Að viðhorfin myndu breytast. Og það myndi draga úr ofbeldi, afneitun og meðvirkni.
Hér erum við samt í dag.
Enn að tala um mannorðsmorð. Og geðveikar konur.
Hin raunverulegu fórnarlömb
Ástvinir ungrar konu standa frammi fyrir þeim veruleika að þurfa að fylgja henni til grafar. Hún var 28 ára gömul, hét Sofia Sarmite Kolesnikova og fannst látin í heimahúsi á Selfossi fyrir mánuði síðan. Eldri systir hennar minntist hennar hlýlega og lýsti því að lífstíll systur sinnar hefði verið svo heilbrigður að þeirri hugsun hefði hvarflað að henni að hún ætlaði að lifa í 200 ár. En nú var hún skyndilega dáin. „Þú varst alltaf svo ljúf og hjartahlý,“ skrifaði systir hennar.
Í fangelsinu á Hólmsheiði situr karlmaður í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa ráðið Sofiu bana.
Annar maður situr í gæsluvarðhaldi, eftir að lögreglu barst tilkynning vegna heimilisofbeldis snemma morguns þann 25. febrúar. Á móti lögreglunni tók maður í annarlegu ástandi, ber að ofan og með blóðbletti á buxunum, sem sagðist hafa slegist við eiginkonuna sína áður en hún hljóp hálfnakin út. Lögreglan hóf leit að konunni sem fannst á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, þar sem hún lýsti endurteknum árásum af hálfu mannsins, sem hefði ráðist á hana andlega, líkamlega og kynferðislega síðastliðin ár. Meðal annars síðastliðna nótt.
Áverkarnir voru lífshættulegir og senda þurfti hana í bráðaaðgerð á Landspítala í Reykjavík. Sérfræðingar töldu slíka áverka aðeins geta komið til við kynferðisárás og alvarlega líkamsárás. Fyrr í vikunni staðfesti Landsréttur áframhaldandi gæsluvarðhald, á grunni vísbendinga um að hann hafi á sérstaklega sársaukafullan, meiðandi og alvarlegan hátt ógnað lífi eiginkonu sinnar, heilsu hennar og velferð, með andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, hótunum og nauðung. Brot eiginmannsins eru talin varða allt að sextán ára fangelsi.
Maðurinn neitar sök, kveðst hafa ýtt konunni frá sér í sjálfsvörn, en geti ekki skýrt áverkana að öðru leyti. Í raun sé hann fórnarlamb málsins.
Þriðji maðurinn var handtekinn og færður í gæsluvarðhald fyrr í mánuðinum, eftir að lögregla var kölluð út vegna heimilisofbeldis. Hann reyndi að fá núverandi sambýliskonu sína til að koma fram sem eiginkona hans og nota símanúmer hennar. Árum saman hafði maðurinn nefnilega haldið áfram að búa í íbúð Félagsbústaða sem var skráð á konuna hans, tekið út lyfseðilsskyld lyf á nafni hennar og þegið bætur í hennar nafni frá Tryggingastofnun.
Þegar hann var handtekinn fullyrti hann að konan hans væri stödd erlendis og hann hefði talað við hana í síma fyrir tveimur vikum. Hún lést árið 2014.
Út yfir gröf og dauða.
Ráðherra lýsir óhug
Í gær og á morgun, annan hvern dag, kemur kona á bráðamóttöku Landspítala með áverka eftir árás maka. Heilbrigðisráðherra birti grein á dögunum, þar sem hann sagði „þessar tölur vekja óhug“.
Á síðasta ári bárust lögreglu 2.374 tilkynningar um heimilisofbeldi, eða 198 á mánuði, 7 á dag. Aldrei hafa jafn mörg heimilisofbeldismál verið tilkynnt og þá. Í 102 málum var lífi og heilsu brotaþola ógnað endurtekið og alvarlega.
Að meðaltali dvelja sextán konur í kvennaathvarfi á dag. Þrátt fyrir alla umræðuna lýstu fleiri konur því í fyrra en síðustu ár að mennirnir þeirra hefðu beitt líkamlegu ofbeldi, morðhótunum og kyrkingartaki.
Árið 2022 voru líka fleiri nauðganir tilkynntar til lögreglu en undanfarin ár. Að jafnaði voru 22 nauðganir tilkynntar á mánuði. Heildarfjöldi tilkynntra kynferðisbrota var 634, sem þýðir að nánast tvisvar sinnum á dag leitar einhver til lögreglu vegna slíkra brota.
Á síðustu vikum hafa verið sagðar fréttir af því að yfirlögregluþjónn var sakaður um kynferðislega áreitni, lögmaður sakaður um að brjóta gegn eiginkonu skjólstæðings og starfsmaður stofnunar ákærður fyrir að misnota þroskaskertan dreng. Maður var ákærður fyrir að nauðga konu á salerni, tveir fyrir að nauðga konu í heimahúsi og enn annar fyrir að tæla barn á Snapchat. Ef eitthvað er „klikkað. Algjörlega klikkað,“ þá er það af hverju allt er ekki lagt í sölurnar til að uppræta viðhorf sem gera mönnum kleift að réttlæta ofbeldi.
Þegar níu konur kærðu íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu árið 2021 fyrir brot á rétti til réttlátrar málsmeðferðar var bent á alvarlega annmarka við rannsókn lögreglu. Mál fyrntist í höndum lögreglu vegna þess hve lengi dróst að kalla sakborning í skýrslutöku. Sakborningar höfðu marga mánuði til að undirbúa sig og samræma frásagnir vegna seinagangs lögreglu. Vitni voru ekki boðuð í skýrslutöku og litið var fram hjá skýrslum vitna sem studdu framburð brotaþola. Eins var litið fram hjá sönnunargögnum á vettvangi, svo sem myndum eða myndbandsupptökum teknum á síma, sem og ummerkjum á borð við brotna glugga. Líkamlegir áverkar þóttu ófullnægjandi. Í einu máli þótti ósannað að brotaþoli hefði veitt mótspyrnu þrátt fyrir líkamlega áverka. Í öðru máli þótti sannað að um ofbeldi hefði verið að ræða en þar sem ofbeldið þótti ekki nægilega alvarlegt var það talið fyrnt og fellt niður. Játningar sakborninga voru ekki teknar til greina. Neitun þeirra fékk meira vægi en framburður brotaþola, sem studdur var með vitnum og sönnunargögnum.
Samkvæmt rannsókn á einkennum og meðferð nauðgunarmála fóru 31 af 189 málum sem tilkynnt voru til lögreglu árin 2008 og 2009 fyrir dóm. Sakfellt var í 23 tilvikum. Aðeins fjórir sakborningar játuðu sök.
Nýlega þyngdi Landsréttur dóm héraðsdóms yfir karlmanni. Maðurinn þrætti fyrir að hafa brotið á sambýliskonu sinni og hélt því fram að hún hefði ráðist á sig með barsmíðum, ýtt sér og runnið til svo hún slasaðist. Fyrir að hrinda henni, slá hana í andlitið og ítrekað með beltissylgju, fékk maðurinn fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm.
Í öðru máli ómerkti Landsréttur dóm í máli karlmanns sem var dæmdur í sextán mánaða fangelsi í héraði. Í ákæru var honum gefið að sök að hafa á sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt ítrekað ógnað lífi, heilsu og velferð sambýliskonunnar. Meðal annars með því að taka hana hálstaki, ógna með hníf, slá hana í hálsinn, öskra á hana og hóta henni og tengdum aðilum lífláti og líkamsmeiðingum. Dómurinn var ómerktur vegna þess að héraðsdómari hafði svarað beiðni um frestun aðalmeðferðar með tölvupósti þar sem sagði: „Þá vek ég athygli á því að ákærði hefur allavega að hluta til játað sök og virðast rannsóknargögn málsins styðja þær játningar. Mér er til efs að málsvörn ákærða geti orðið til þess að hann geti horfið frá þessum játningum á trúverðugan hátt. Þá hefur ákærða ítrekað verið gert að sæta nálgunarbanni gagnvart einum brotaþolanum.“
„Þá vek ég athygli á því að ákærði hefur allavega að hluta til játað sök og virðast rannsóknargögn málsins styðja þær játningar“
Með þessu svari var dómarinn talað hafa kastað kröfu um hlutleysi fyrir róða.
Eftirköst MeToo
Menntaskólinn á Akureyri hefur beðist afsökunar.
Aron Einar er snúinn aftur í landsliðið þar sem hann ber fyrirliðabandið. Ingó Veðurguð fyllir Háskólabíó. Og sjaldan hefur önnur eins samúðarbylgja risið yfir þjóðina eins og þegar lögreglan í Bretlandi ákvað að gefa ekki út ákæru á hendur Gylfa Þór Sigurðssyni, eftir rannsókn á meintum kynferðisbrotum gagnvart ólögráða einstaklingi. Viðskiptablaðið reiknaði út kostnaðinn fyrir hann: „Gylfi orðið af milljarði?“
Fyrir fólk sem hefur orðið fyrir alvarlegu eða lífshættulegu ofbeldi eða á ástvini sem hafa jafnvel látist af völdum þess er líklega erfitt að skilja verðmætamatið.
Mannorðsmorð eru ekki raunveruleg. Flestir eiga þeir afturkvæmt. Það birtist ágætlega í því að rant Frosta um um Vítalíu og samskipti hennar við Arnar Grant ratar beinustu leið í fréttir og almenna umræðu. En eftir að allar MeToo frásagnirnar flæddu upp á yfirborðið, alla vitundarvakninguna og þá þekkingu sem liggur nú fyrir, er eins og það sé enn auðveldara að sökkva sér ofan í frásagnir af „hefnigjörnum“ konum og meintum mannorðsmorðum gegn mönnum, en að horfast í augu við að lífi kvenna og heilsu er raunverulega ógnað með ofbeldi af hálfu karla.
Athugasemdir (2)