Á ekki jafn fín föt og í fyrra
Sigríður Steinunn Gottskálksdóttir, hjúkrunarfræðingur og myndlistarkona.
Hafa vaxtahækkanir haft áhrif á þitt heimilisbókhald?
„Nei, vegna þess að ég er ekki með lán. En þær hafa haft áhrif á fólkið í kringum mig. Mér finnst það mjög miður fyrir unga fólkið. Þau sem eru nánust mér eiga erfitt með til dæmis að kaupa sér húsnæði eða eru að ströggla með það. Ég hef sjálf komið mér út úr því að vera með lán.“
Hafa verðbólga og vaxtahækkanir haft áhrif á matarkörfuna þína?
„Ég er sparsöm, en ég sé að allt hefur hækkað. Ég reyni að sníða stakk eftir vexti. Þær vörur sem hafa hvað helst dottið út eru fatainnkaup. Ég var erlendis og keypti föt þar, en þar hefur verðið líka hækkað. Það er kannski mest þannig að ég á ekki eins fín föt og í fyrra. Einn kjóll kostar alveg frekar mikið.“
Hefur þér brugðið við einhverja ákveðna verðhækkun?
„Já, bensín. Það er algjörlega brjálað. Ég keyri mjög lítið, hjóla aðallega og labba, en ég fylli tankinn á bílnum og bensínverð hefur eiginlega tvöfaldast á einhverju tímabili.“
Kannski þurfum við að selja
Sigurður Björn Guðmundsson rafveituvirki og Kristín Guðmundsdóttir öryrki.
Hafa vaxtahækkanir haft áhrif á ykkar heimilisbókhald?
Sigurður: „Já, það eru meiri útgjöld.“
Kristín: „Já, það gerir það. Allt innkaupaverð hækkar fyrir heimilið.“
Hafa verðbólga og vaxtahækkanir haft áhrif á matarkörfuna ykkar?
Kristín: „Já, hún hefur gert það. Maður passar sig betur að kaupa ekki eitthvað rándýrt. Lambalæri er orðið mikið dýrara og allt lambakjöt. Nautakjöt er líka mjög dýrt. Maður kaupir frekar kjúkling og svínakjöt.“
Eruð þið með húsnæðislán?
Sigurður: „Já.“
Hafa afborganir af fasteignaláninu hækkað?
Sigurður: „Já, já, þær hafa hækkað helling. Ég held að lán sem ég borgaði af í fyrra hafi verið eitthvað um 80 þúsund, en við erum að borga 150 þúsund núna.“
Eigið þið erfitt með að ráða við þessa hækkun?
Kristín: „Nei, ég held ekki. Við erum orðin ein heima. Við ráðum ágætlega við þetta, en ég hugsa að unga fólkið ráði ekki eins vel við það.“
Hvaða augum lítið þið framtíðina hvað þetta varðar?
Kristín: „Þetta er mjög slæmt fyrir ungt fólk. Ég veit ekki hvernig það verður fyrir okkur. Kannski verðum við bara að selja og kaupa okkur litla íbúð.“
Þurfum að taka upp evru
Ingibjörg Georgsdóttir barnalæknir.
Hafa vaxtahækkanir haft áhrif á þitt heimilisbókhald?
„Nei, ég er ein af þessum eldri, vel settu einstaklingum sem eru ekki skuldugir. Þannig að nei.“
Hefur þetta áhrif á fólk í kringum þig?
„Þetta hefur áhrif á unga fólkið í sambandi við íbúðarkaup.“
Hafa verðbólga og vaxtahækkanir haft áhrif á matarkörfuna þína?
„Jú, auðvitað. Á móti kemur að ungarnir eru að fljúga úr hreiðrinu, þannig að kostnaðurinn minnkar líka. Ég sé alveg að verðið hefur hækkað, en ég er með lítið heimili núna þannig að það er ekkert stórmál.“
Er eitthvað sem þú ert farin að sleppa?
„Nei, ég er bara á þeim stað í lífinu. Ég var að hætta að vinna og er komin á eftirlaun. Þetta er allt í góðum farvegi hjá mér.“
Hvaða augum lítur þú framtíðina hvað þetta varðar?
„Ég treysti Ásgeiri og fólkinu í Seðlabankanum. Ég held að á tímum þar sem er stríð í Evrópu og verðbólga þá muni það hafa áhrif, en þetta fólk í bankanum mun taka bestu ákvarðanir fyrir okkur. Við erum algjört örsamfélag. Ég er á þeim aldri að ég hef séð verðbólgu. Ég var fullorðin þegar tvö núll fóru af krónunni. Þetta hefur allt gerst hérna. Við þurfum að taka upp evruna, ef ég má segja það. Við þurfum að komast í alþjóðlegt samband þannig að fá atriði stjórni ekki öllu hér á þessu eyríki.“
Finnst þér Íslendingar vera samheldnir í þessari stöðu?
„Við erum eyjarskeggar. Þegar ég bjó í Kanada var mér sagt að eyjafólk væri sérstakt, því það færi sjaldan eftir lögum og reglum. Ég held að það sé margt til í því. Við erum samheldin gagnvart náttúruvá og alvarlegum atvikum, en við erum kannski ekki samheldin í peningamálunum.“
Þetta bítur í rassinn, fast
Eiríkur Rafn Stefánsson tónlistarmaður.
Hafa vaxtahækkanir haft áhrif á þitt heimilisbókhald?
„Ekki núna, en þær munu gera það eftir ár þegar vextirnir hjá mér losna.“
Hefur þú áhyggjur af því?
„Já, mjög miklar.“
Hvað sérðu fyrir þér að muni gerast þá?
„Þá þurfum við að lifa í einhverjum allt öðrum veruleika en í dag. Allavega á mínu heimili. Við munum hafa minna á milli handanna.“
Ertu hræddur við að missa húsnæðið?
„Nei, ég er ekki alveg svo svartsýnn. En þetta verður mjög erfitt ef staðan verður óbreytt.“
Hafa verðbólga og vaxtahækkanir haft áhrif á matarkörfuna þína?
„Já, maður finnur fyrir því að verðlagið hefur hækkað.“
Ertu að sleppa einhverjum vörum?
„Nei, við erum ekki að sleppa neinu. Við erum ekkert endilega að kaupa umfram það sem við þurfum.“
Hefur þér brugðið við einhverja ákveðna verðhækkun?
„Nei, þetta er pínulítið eins og heitt vatn. Ef hitastigið hækkar meðan maður er í vatninu, þá finnur maður ekki fyrir því.“
Hvernig er fólk í þínu umhverfi að bregðast við hækkunum?
„Það er mikill kvíði í kringum mig. Fjölskyldumeðlimir finna fyrir þessu.“
Er fólk hrætt við að geta ekki staðið undir hækkunum?
„Ég hef ekki heyrt það beint frá mínu nánasta fólki en þetta bítur það alveg í rassinn, mjög fast.“
Dæmdur í fátækt á leigumarkaði
Sigurjón Ari Reynisson dúklagningamaður.
Hafa vaxtahækkanir haft áhrif á þitt heimilisbókhald?
„Já, reikningar hækka og leiga.“
Hafa verðbólga og vaxtahækkanir haft áhrif á matarkörfuna þína?
„Ég hef ekki tekið eftir því. Það hefur örugglega áhrif.“
Hefur þér brugðið við einhverjar ákveðnar verðhækkanir?
„Nei, ég get ekki alveg sagt það. Þetta eru aðallega reikningar heimilisins sem mér finnst þetta hafa áhrif á.“
Hafa þessar hækkanir haft áhrif á fólk í kringum þig?
„Fólk er pirrað á þessu. Ég hef tekið eftir því. Það er pirrað út í hærri reikninga og talar um það.“
Nú ert þú á leigumarkaði, hafa vaxtahækkanir áhrif á leiguverð?
„Mér finnst það, já. Það gerir það svo sem alltaf. Leigan hækkar bara og hækkar. Það er eiginlega alveg sama hvað.“
Sérðu fyrir þér að komast inn á húsnæðismarkaðinn bráðum?
„Nei, aldrei. Ég sé það ekki fyrir mér. Bara gleymdu því. Maður kemst ekkert af þessum leigumarkaði. Að vera á leigumarkaði er að vera dæmdur í fátækt. Það er bara mjög einfalt.“
Athugasemdir