„Við komum auga á sár á fiskunum í einni sjókví og þess vegna ákváðum við að slátra snemma með tilliti til velferðar fiskanna,“ segir Björn Hembre, forstjóri Arnarlax, þegar hann tjáir sig um metslátrun Arnarlax á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Forstjórinn lætur þessi orð falla í viðtali við norska sjávarútvegsblaðið Intrafish. Með orðunum vísar hann til þess að vetrarsár hafi fundist á eldislöxum fyrirtækisins á Íslandi og því hafi verið ákveðið að slátra löxunum í kvíum fyrirtækisins til að bjarga verðmætum. Metslátrunin hjá Arnarlaxi er því ekki komin til af góðu, segir Intrafish.
Móðurfélag Arnarlax, Salmar, kynnti uppgjör sitt fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins í lok síðustu viku. Heimildin fjallaði um uppgjörið á föstudaginn. Í uppgjörinu kemur meðal annars fram að Arnarlax á Íslandi hafi skilað mettölum á ársfjórðungnum þegar félagið slátraði og framleiddi 6.600 tonn af eldislaxi til samanburðar við 3.400 tonn á sama ársfjórðungi í fyrra. Tekjur félagsins á ársfjórðungnum rúmlega tvöfölduðust á milli ára, fóru úr 368 milljónum norskra króna og upp í 765 milljónir, 9,9 milljarða íslenskra króna, í ár.
Heimildin, og aðrir fjölmiðlar sem lásu uppgjörið, gátu ekki sagt frá vetrarsárunum og áhrifa þeirra á rekstrarniðurstöðu Arnarlax vegna þess að upplýsingagjöfin í ársreikningnum gaf ekki færi á því.
„Niðurstaðan varð fyrir áhrifum af líffræðilegum áskorunum á ársfjórðungnum“
Ekkert sagt um vetrarsárin
Í árshlutauppgjörinu er nefnilega ekkert sagt um vetrarsárin á fiskunum og að þau hafi verið ástæðan fyrir þessari metslátrun hjá Arnarlaxi á fyrstu þremur mánuðum ársins. Í uppgjörinu er bara talað um að „líffræðilegar áskoranir“ hafi haft áhrif á rekstrarniðurstöðu Arnarlax. „Niðurstaðan varð fyrir áhrifum af líffræðilegum áskorunum á ársfjórðungnum.“
Ekkert í árshlutauppgjörinu benti því til að ástæðan fyrir rúmlega tvöföldun á tekjum og nærri 100 prósent slátrunar- og framleiðsluaukningu milli áranna 2022 og 2023 væru vetrarsár sem komið hefðu upp á eldislöxunum.
Vetrarsár í laxeldi í sjókvíum myndast vegna kulda, vinda og einnig mögulega vegna þrengsla. Sár myndast á hreistri eldislaxanna þegar þeir slást utan í kvíarnar og hruflast. Svo stækka þessi sár eftir því sem veltingurinn er meiri og vetrarkuldinn eykur á tíðni vetrarsáranna hjá fiskunum. Ef laxeldisfyrirtækið grípur ekki inn í snemma í þessu ferli og slátrar upp úr sjókvíunum getur hann lent í því að þurfa að farga miklu magni af fiski þar sem sárugur eldislax er ekki notaður til manneldis.
Vetrarsár, og aðrar afleiðingar af veðurfarinu á Íslandi, hafa verið miklir vágestir í íslensku laxeldi í gegnum tíðina og hafa reglulega verið sagðar fréttir af skakkaföllum í sjókvíaeldinu af þessum orsökum. Veðurfarið hér á landi er helsta ástæðan fyrir því að ekki hefur tekist að koma sjókvíaeldi hér landi almennilega á koppinn fyrr en núna, á síðasta áratug.
Minna slátrað á næsta ársfjórðungi
Í viðtalinu við Björn Hembre kemur fram að vegna þess að að fyrirtækið þurfti að slátra svo miklu magni af eldislaxi á síðasta ársfjórðungi vegna vetrarsára þá muni það slátra minna á þeim yfirstandandi. „Á næsta ársfjórðungi munum við einbeita okkur að því að láta fiskinn stækka mikið til að bæta upp fyrir tapið vegna þess fisks sem var slátrað núna. En þessi aukna slátrun núna mun leiða til mjög lítillar framleiðslu á öðrum ársfjórðungi.“
Auknar tekjur og framleiðsla Arnarlax á fyrsta ársfjórðungi þessa árs mun því ekki leiða til þess að fyrirtækið slátri meira á þessu ári eða eitthvað slíkt. Slátrunin og framleiðsla fyrirtækisins dreifist bara með ójafnari hætti yfir árið.
Vetrarsár - dulnefni fyrir kalsár. Kalsár geta líka hrjáð fólk, skilja
venjulega eftir dauðann blett - ef maður sleppur billega.