Heimildin heyrði í Ásdísi, en hún rekur sitt eigið ráðgjafarfyrirtæki og kemur inn sem forstöðumaður í ráðgjafarhlutverki. Hún hefur áður leyst af í þessu hlutverki hjá Vegagerðinni.
Ásdís segir að til standi að Vegagerðin auglýsi forstöðumannsstarfið á haustmánuðum. „Ég kem hér inn sem ráðgjafi bara. En mér finnst gaman að taka þátt í þessu verkefni. Þetta er mikilvæg innviðauppbygging og það er minn bakgrunnur, ég var hjá Orkuveitunni og Veitum og þetta er verkefni sem er gaman að fá tækifæri til að vinna í,“ segir hún.
Spurð hvað henni þyki skemmtilegt við að vinna í Borgarlínuverkefninu segir Ásdís: „Mér finnst þetta ríma svolítið við það þegar menn voru að byggja upp hitaveituna, vatnsveituna og fráveituna hérna í gamla daga. Þetta voru stórhuga aðilar með framtíðarsýn, og framsýnir. Það var umdeilt á sínum tíma en ég er á því að þetta sé sambærilegt verkefni, mikilvæg innviðauppbygging, og það gefur starfinu aukið gildi að vera að taka þátt í því sem maður trúir að skipti samfélagið máli.“
Fyrsti áfangi Borgarlínunnar er í svokallaðri forhönnun og verkinu er skipt upp í marga mismunandi verkhluta í Reykjavík og Kópavogi. Ásdís segir að margvísleg vinna sé í gangi þrátt fyrir að lítið hafi e.t.v. heyrst opinberlega af hinum mörgu verkþáttum í Borgarlínuverkefninu frá því að skýrsla með frumdrögum fyrsta áfanga var opinberuð í byrjun febrúar 2021.
Raunar er það svo að unnið er að Borgarlínunni á skrifstofum víða um Evrópu, enda vinnur fjölþjóðlegt hönnunarteymi undir forystu alþjóðlega verkfræðifyrirtækisins Artelia Group að hönnuninni í kjölfar þess að þeirra teymi varð hlutskarpast í samkeppni sem haldin var árið 2021.
„Jú, þetta er öflugt teymi erlendra ráðgjafa. Þetta er flókið verkefni og umfangsmikið og ekki til þekking á svona BRT-kerfi hér á Íslandi, þannig að við erum að læra margt og það er verið að skilgreina margt. Við höfum öfluga ráðgjafa með okkur í þessu verkefni, þeir eru víða staddir erlendis, en það eru líka íslenskir ráðgjafar, sem eru lykilaðilar í að hafa „lókal“-þekkinguna,“ segir Ásdís.
Spurð hvort hún hafi fylgst náið með Borgarlínuverkefninu og umræðunni um verkefnið undanfarin ár segist hún hafa gert það, eins og hún reiknar með að flestir hafi gert. „Mitt sjónarhorn er það að ég er vön að vinna með grundvallarinnviði og mér finnst sterkar almenningssamgöngur hljóta að vera grunnurinn að framtíðinni, þannig er mín tilfinning fyrir þessu verkefni. Þetta er stórt, risastórt verkefni, og eðlilegt að menn hafi skoðanir á því,“ segir Ásdís.
Alltaf tækifæri til umbóta
Hún stofnaði ráðgjafarfyrirtækið Gemba árið 2008 ásamt Margréti Eddu Ragnarsdóttur og hefur reksturinn gengið vel að hennar sögn. „Við erum tveir kvenverkfræðingar úr orkubransanum og höfum verið að kenna og innleiða straumlínustjórnun og vinna með umbætur í fyrirtækjum og minnka sóun í ferlum.
Spurð hvort það séu alltaf tækifæri til umbóta í rekstri fyrirtækja og stofnana segir Ásdís: „Já, alveg endalaus tækifæri til umbóta og oft mjög mikill vilji til þess líka, sem er svolítið gaman. Menn sjá að það eru tækifæri og þetta er skemmtilegur vettvangur að vinna á.“
Athugasemdir