Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hefur verið við störf hér á landi frá 25. apríl, telur að íslenska hagkerfið hafi sýnt mikinn viðnámsþrótt gegn röð ytri áfalla frá árinu 2019.
Hagvaxtarhorfur eru að mati sendinefndarinnar fremur jákvæðar, en nefndin bendir á að þeim fylgi ójafnvægi og áhætta í hagkerfinu er sögð töluverð. Þrálátari verðbólga, spenna í tengslum við næstu kjaraviðræður og þrengri alþjóðleg fjármálaskilyrði eru nefnd meðal áhættuþátta.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í áliti sendinefndarinnar, sem birt var í dag, en um er að ræða úttekt sérfræðinga sjóðsins á stöðu efnahagsmála hérlendis, auk þess sem sendinefndin víkur að hlutverki Seðlabankans og stefnumótun stjórnvalda.
Væntur halli ríkissjóðs sagður „hæfilegur“ en meira aðhald þurfi
Hvað stefnu í efnahagsmálum varðar segir sendinefndin að markmiðið ætti að vera að beina innlendri eftirspurn á sjálfbært stig og minnka verðbólgu að markmiði, draga úr ytra ójafnvægi og lágmarka hættu á að fjármálastöðugleika verði raskað.
Sá 1,7 prósent halli á afkomu ríkissjóðs sem reiknað er með í nýrri fjármálaáætlun er sagður „hæfilegur“ en sendinefndin telur að bæta þurfi afkomu meira á næstu árum til að draga hraðar úr verðbólgu og byggja að nýju upp viðnámsþrótt.
„Ef tekjur verða minni en samkvæmt fjármálaáætlun, eins og spá AGS bendir til, þarf meira aðhald í opinberum fjármálum þótt gæta verði að því að verja viðkvæma hópa gagnvart áhrifum þess,“ segir í áliti sendinefndarinnar, sem mælir með því að reglur um opinber fjármál, sem kippt var úr sambandi í heimsfaraldri kórónuveirunnar, verði látnar taka aftur gildi árið 2025 en ekki 2026 eins og stefnt er að.
„Með því væru send skýr skilaboð um staðfestu stjórnvalda gagnvart ábyrgð í opinberum fjármálum og byggður upp viðnámsþróttur gagnvart áföllum framtíðar. Í því skyni þyrfti líklega aðhald í opinberum fjármálum sem nemur alls 1-2% af VLF á næstu tveimur árum eins og er að hluta til boðað með fjármálaáætlun en hefur ekki enn verið lögfest,“ segir í áliti sendinefndarinnar, sem einnig segir að stjórnvöld ættu að íhuga að draga til baka 3-6 prósenta raunaukningu útgjalda í samanburði við síðustu fjármálaáætlun, fækka flokkum í lægra þrepi virðisaukaskatts og endurskoða aðra skattstyrki.
Vextir gætu þurft að hækka enn frekar
Til Seðlabankans beinir sendinefndin þeim skilaboðum að hann ætti að hafa þröngt taumhald á peningastefnunni þar til skýr ummerki séu til staðar um að verðbólga muni hjaðna á ný og verðbólguvæntingar hafi náð kjölfestu í 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði.
„Til að ná þessu markmiði gætu meginvextir þurft að hækka enn frekar frá því sem nú er og raunvextir gætu þurft að vera yfir hlutlausu stigi eins lengi og nauðsynlegt er til að ná verðbólgu í verðbólgumarkmið, sér í lagi við skilyrði ofþenslu og þrálátari verðbólgu á breiðum grunni. Vegna mikillar óvissu ætti Seðlabankinn engu að síður að vera reiðubúinn til að endurmeta taumhaldið ef áföll raungerast sem gætu breytt verulega verðbólguhorfum,“ segir sendinefndin í áliti sínu.
Betra væri ef starfsmenn ráðuneytis væru ekki í fjármálaeftirlitsnefnd
Sendinefnd AGS er einnig með nokkrar ábendingar sem lúta að stjórnkerfi Seðlabankans. Segir meðal annars í álitinu að sjálfstæði fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabankans til ákvörðunartöku væri aukið og dregið væri úr mögulegum hagsmunaárekstrum, ef starfsmenn fjármála- og efnahagsráðuneytisins sætu ekki í nefndinni. Einnig segir sendinefndin að formfesting framsalsheimilda vegna ákvarðana í fjármálaeftirliti inna Seðlabankans myndi tryggja betri ábyrgðarskil og skilvirkni.
Breytingar urðu einmitt í fjármáleftirliti Seðlabankans á meðan sendinefndin var hér að störfum, en þremur dögum eftir að sendinefndin frá AGS kom til landsins var Björk Sigurgísladóttir skipuð í embætti varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits, en sú staða var auglýst laus til umsóknar í febrúarmánuði. Degi fyrr hafði Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og einn þriggja nefndarmanna sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skipar í fjármálaeftirlitsnefndina, tilkynnt ráðherra að hún hefði dregið umsókn sína um stöðuna til baka.
Sendinefndin frá AGS segir einnig að þörf sé á nýju sjálfstæðu fyrirkomulagi við ákvörðun eftirlitsgjalds til að tryggja að fjárþörf vegna fjármálaeftirlits Seðlabankans sé ætíð mætt. Í álitinu kemur einnig fram að bæta þurfi við stöðugildum hjá bankanum, til að bæta áhættumiðað eftirlit í nokkrum lykiláhættuþáttum, til að mynda rekstraráhættu, áhættu vegna netöryggis og eftirliti með loftslagstengdri fjárhagsáhættu.
Í álitinu segir einnig að bæta þurfi stjórnarhætti lífeyrissjóða og auka eftirlit með þeim, vegna kerfislægs mikilvægis þeirra á fjármálamarkaði.
Kolefnisskattar og framleiðnitengdir kjarasamningar
Í áliti sendinefndarinnar kemur fram að setja þurfi aukinn þunga í stefnumótun til að ná loftslagsmarkmiðum Íslands. Endurskoðun á aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem stendur yfir er sögð tækifæri til að vinna stefnumótun sem hraðar umbreytingunni í átt að lágkolefnahagkerfi og segir í álitinu að slík stefnumótun gæti falið í sér að auka við kolefnisskatta í hagkerfinu.
Sendinefndin fjallar einnig um komandi kjaraviðræður og segir þær veita „tækifæri til að tengja betur saman laun og framleiðnivöxt“. Í álitinu segir að íslenskir kjarasamningar hafi verið árangursríkir varðandi það að stuðla að þátttöku og draga úr fátækt, en síður þegar kemur að því að launahækkanir auki ekki verðbólguþrýsting eða dragi úr samkeppnishæfni landsins.
„Til að ná fram betri tengingu á milli raunlauna og framleiðnivaxtar ætti í kjaraviðræðum síðar á þessu ári að endurskoða framsetningu hagvaxtaraukans sem var innifalinn í samningunum 2019-22, meðal annars með því að tengja hagvaxtaraukann við aukna framleiðni vinnuafls miðað við upphaf samningsins. Einnig ætti að styrkja leiðir til að leysa úr langvarandi deilum meðal annars með því að tryggja að ríkissáttasemjari geti leitt samningsaðila saman og gert tillögur sem miða að því að leysa deilur,“ segir í áliti sendinefndarinnar.
Athugasemdir