„Faraldur,“ hrópar heilbrigðisráðherra. „Smitsjúkdómur,“ öskrar fyrrverandi forsætisráðherra. Annar boðar þjóðarátak, hinn vill hertar refsiaðgerðir. Hvorugur leitar að rót vandans.
Fíkn er ekki einkamál þess sem er fastur í viðjum hennar, ekki veiklyndi, viljabrestur eða siðferðisskortur. Fíkn er ekki afleiðing rangra ákvarðana og hún er ekki val. Fíkn er ekki heldur heilasjúkdómur, eins og gengið er út frá á stærstu meðferðarstofnun landsins. Fíkn er flótti frá þjáningu.
Þetta er niðurstaða Gabor Maté eftir að hafa unnið með langt leiddum fíklum um árabil. Hann er læknir og fræðimaður sem varð þekktur fyrir að ná áður óþekktum árangri í meðferð við alvarlegum fíknivanda. Allt hans starf grundvallast á því að fíkn sé ekki sjúkdómur í sjálfu sér heldur viðbragð við sjúklegu ástandi eða sársauka. Því sé ekki nóg að meðhöndla fíknina, heldur þurfi að uppræta rót vandans og hjálpa fólkinu að heilast. „Fyrsta spurningin er því ekki: Af hverju fíkn? heldur: Af hverju sársauki?“ útskýrði hann í viðtali við Morgunblaðið.
Sárin megi fyrst og fremst rekja til áfalla í æsku.
„Þú ert ekki vond manneskja þó að þú sért með þennan sjúkdóm. Þú ert áfallaröskuð manneskja sem ber djúp sár og líður hræðilega illa. Ég hef lifað í þessum heimi og veit að það er þannig. Fólkið sem um ræðir er með sár sem ná ekki að gróa svo það leitar leiða til að deyfa sig,“ segir Alma Lind Smáradóttir, sem lifði af þrjú ár á götunni.
Í viðtali við Stundina lýsti hún grimmdinni sem mætti henni á götunni og erfiðleikum við að ná bata, ekki síst vegna þess að það var enga hjálp að fá. Hvorki til að lifa af, né að komast út úr aðstæðunum. Með vitund og vilja barnaverndaryfirvalda svaf hún barnshafandi í bílakjallara, en í stað þess að veita viðeigandi aðstoð mætti barnavernd fyrirvaralaust á fæðingardeildina til að taka af henni barnið. Henni var refsað, hún var fyrirlitin og dæmd. Bæði af samfélaginu og fyrir dómi, þar sem hún fékk sex mánaða fangelsisdóm fyrir að stela banana og síma og keyra undir áhrifum. Vegna þess að hún hafði náð bata var dómurinn skilorðsbundinn. Til samanburðar fékk fyrrverandi forstjóri fjárfestingarfélagsins GAMMA, virðulegur kaupsýslumaður í jakkafötum, sextíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að taka sambýliskonu sína kverkataki, sem er lífshættuleg árás.
„Íslendingar eru harðneskja þjóð gagnvart fíknisjúkdómum.“
Þungar byrðar
Í tilraun til að meta ástandið hér á landi var gerð könnun fyrir meistararitgerð í klínískri sálfræði við Háskóla Íslands, á meðal 200 skjólstæðinga SÁÁ. Alls höfðu 99 prósent þeirra upplifað alvarlegt áfall á lífsleiðinni, 81 prósent höfðu orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og 55 prósent fyrir kynferðisofbeldi. Allt að 67 prósent uppfylltu viðmið fyrir einkenni áfallastreituröskunar, en algengara var að fólk í þeim hópi glímdi við þunglyndi, kvíða, streitu og alvarlega áfengis- og vímuefnafíkn. Niðurstaðan var þörf fyrir kerfisbundna skimun fyrir áfallasögu og einkennum áfallastreituröskunar á meðal áfengis- og vímuefnasjúkra.
Á Teigi var gerð sambærileg rannsókn á meðal þeirra sem sóttu meðferð hjá dagdeildarhluta fíknigeðdeildar Landspítalans. Alls höfðu 97 prósent orðið fyrir að minnsta kosti einu áfalli, og á milli 68 og 72 prósent uppfylltu skilyrði fyrir greiningu áfallastreituröskunar.
„Þetta er fólk með þungar byrðar og í sumum tilvikum er neyslan orðin hluti af bjargráðum til að lifa af,“ sagði Hjördís Björg Tryggvadóttir, sálfræðingur og teymisstjóri, um leið og hún áréttaði að vandi þessa fólks yrði ekki leystur á nokkrum vikum.
Áhrif áfalla í æsku
Adverse Childhood Experiences er viðamesta rannsóknin á áhrifum áfalla í æsku, en hún hefur verið endurtekin margoft frá því að fyrstu niðurstöður voru kynntar árið 1998. Spurningalisti er lagður fyrir fólk, þar sem það svarar því hvort það hafi upplifað andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi í æsku, búið við líkamlega eða tilfinningalega vanrækslu eða heimilisofbeldi, átt foreldri í fangelsi eða með geðrænar áskoranir, áfengis- eða vímuefnavanda, hvort það hafi upplifað skilnað foreldris eða foreldramissi.
Við hvert já er gefið eitt stig. Ef fólk fær fjögur eða fleiri stig aukast marktækt líkur á geðrænum vanda, áhættuhegðun og lyfjanotkun. Sömuleiðis á líkamlegum sjúkdómum, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, langvinnum lungnasjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum. Sex stig eða fleiri stytta lífslíkur um 20 ár. En það er ekki allt. Líkurnar á að enda sem sprautufíkill aukast líka margfalt. Fólk tileinkar sér bjargráð til að deyfa sársaukann, bjargráð sem geta ógnað heilsu þeirra, velferð og lífsgæðum til framtíðar.
Það eru ekki aðeins þungavigtaráföll sem hafa áhrif, segir Margrét Ólafía Tómasdóttir, doktor í heimilislækningum. „Það að vera útundan, að upplifa ekki að það sé komið fram við mann af virðingu, að verða fyrir einelti, ná ekki að blómstra í lífinu eins og maður hefði viljað, allir þessir þættir hafa líka gífurleg áhrif á heilsuna.“
Við áföll breytast efnaskipti líkamans, streitan eykst og getur haft skaðleg áhrif á mikilvæg líffæri. „Streita eyðir tengingum á milli taugabrauta í heilanum. Streita hefur því bein lífeðlisfræðileg áhrif á hvernig líkami okkar þroskast og þá alveg sérstaklega heilinn,“ segir Sæunn Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur og sálgreinir.
Konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi í æsku eru útsettari fyrir ofbeldi síðar á lífsleiðinni. Þær eru einnig líklegri til þess að þróa með sér fíknivanda, auk þess sem meiri líkur eru á sjálfsskaða og sjálfsvígum. Um 80 prósent kvenna í vímuefnameðferðum hafa verið beittar ofbeldi. Og ef þær kæra ofbeldið, er það áfall á áfall ofan. Í íslenskri rannsókn sögðu konur erfitt að aðgreina skaðleg áhrif kæruferlis frá áhrifum ofbeldisins.
Fíkn sem sjúkdómur
Rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar leiddi í ljós að nánir ættingjar fólks sem fer í meðferð eru í tvöfaldri hættu á að þróa með sér áfengisfíkn. Áhættan er enn meiri fyrir önnur vímuefni, nánustu aðstandendur amfetamínfíkla eru í sjöfaldri hættu á að þróa með sér fíkn. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að börn sem verða fyrir alvarlegum áföllum geta borið ör í frumum líkamans, og svo virðist sem erfðavísar breytist af völdum áfalla.
SÁÁ er langstærsta meðferðarúrræðið hér á landi, með 1.200 milljóna framlag frá ríkinu. Hugmyndafræðin sem hefur legið til grundvallar meðferðarstarfinu þar er að fíkn sé ólæknandi heilasjúkdómur, sem megi rekja til umhverfis og erfða. Með endurtekinni notkun vímuefna verði breytingar á byggingu og starfsemi heilans sem geti leitt til þess að einstaklingar missi stjórn á neyslunni. Fyrir vikið tók óralangan tíma að ná fram breytingum á meðferðarstarfinu, sem núverandi yfirlæknir hefur verið að innleiða, þar sem tekið er mið af áfallasögu fólks. Fyrir því hafa ráðskonur Rótarinnar lengi barist og fengið ákúrur um að: „Vera hrokafullar, fordómafullar, á fallbraut og fleira persónulegt. En við höfum aldrei fengið málefnalega gagnrýni,“ skrifuðu þær árið 2016.
Mismunandi skilgreiningar á fíkn skipta ekki máli, svo lengi sem fólk fær viðeigandi aðstoð, sem skilar árangri. En það skýtur skökku við að ef fíkn er ólæknandi heilasjúkdómur að meðferðin fái ekki meira pláss innan heilbrigðiskerfis, heldur sé meðferð að mestu útvistað til samtaka áhugafólks, þar sem aðeins nýlega er farið að leggja áherslu á ráðningar háskólamenntaðs starfsfólks til að mæta faglegum áherslum. Enn óskiljanlegra er að réttlætanlegt sé að refsa fólki fyrir að bera slíkan sjúkdóm. Eða láta það hanga á lífshættulegum biðlistum.
„Við færum ekki svona illa með dýrin okkar,“ sagði móðir ungs manns með fíknivanda: „Kannski á að láta fólk þjást því það geti sjálft sér um kennt að hafa verið að nota dóp. Það er enn þá sú hugsun. Samt er búið að viðurkenna þetta sem sjúkdóm.“
Yfirlæknir á Vogi hefur sagt að úrræðin séu til en það vanti fjármagn frá ríkinu til að sinna fólki: „Við á Vogi erum ekki með fullnýttan spítala því við höfum ekki fjármögnun til þess. Við getum gert miklu meira.“
Á meðan laust pláss er á Vogi er fólk að deyja af völdum fíknar – eða sjúkdóms.
Kalla út í tómið
„Það er ekki hlustað á okkur. Við köllum út í tómið,“ sagði yfirlæknir SÁÁ.
Hún notaði nákvæmlega sama orðalag og móðir í leit að lífsbjörg fyrir son sinn, sem sekkur hratt og örugglega ofan í fíkniefnaneyslu: „Ég hef of mikla reynslu í að öskra út í tómið.“
Konan lýsti því hvernig barnavernd lokaði dyrunum á átján ára afmælisdegi sonarins. Alls staðar komu þau að lokuðum dyrum. „Ég er algjörlega bjargarlaus en á meðan ég lifi mun ég berjast fyrir barninu mínu.“
„Það eru dæmi um fólk sem ætlar að vekja barnið sitt og það vaknar ekki,“ sagði teymisstjóri skaðaminnkunarteymis Rauða krossins. Fagfólk lýsir því að yngra fólk en áður er farið að nota ópíóíða, jafnvel á upphafsstigum neyslunnar, án þess að átta sig á hættunni. Fólk getur einfaldlega hætt að anda.
Þegar fólk er tilbúið til að fá hjálp þá þarf að grípa það. „Ég er ekkert viss um að hann lifi endilega af,“ sagði móðirin. Enda allt, allt, allt of margir sem lifa ekki af.
Ungir drengir kvaddir
Þremur vikum eftir tvítugsafmælið lést Gabríel Dagur Hauksson. Móðir hans telur að hægt hefði verið að koma í veg fyrir andlátið, ef réttu úrræðin hefðu verið til staðar.
Gabríel var kvíðinn og þungur ungur drengur, lífsleiði sótti að og hann átti það til að hóta sjálfsvígi andspænis mótlæti. Neysla var hans flótti. Úrræði barna- og unglingageðdeildar dugði ekki til. Eftirfylgnin var ekki nema eitt viðtal á viku og lyfjagjöf, þegar rót vandans var mun dýpri.
„Það er ekki ásættanlegt hversu fá úrræði eru,“ skrifaði móðir hans. Enn síður að þar sé skorið niður. Ekki heldur að foreldrar þurfi að berjast fyrir aðstoð fyrir börnin sín. „Og það er ekki ásættanlegt að foreldrar þurfi að jarða börnin sín, sem vel hefði verið hægt að hjálpa.“
Fyrir valdhöfum er þetta spurning um kostnað, sagði móðir hans, en á meðan þeir sjá bara tölur, sjá þeir ekki listræna ljúfa drenginn hennar, sem hún fær ekki að sjá verða fullorðinn. „Við erum of margir foreldrar sem þurfum að lifa börnin okkar.“
„Mamma, mig langar þetta ekki lengur. Mig langar að hætta þessu. Ég vil fá aðstoð,“ sagði hann á afmælinu sínu. Aðfaranótt 5. mars var hann látinn.
Þann 12. febrúar, á afmælisdegi Gabríels, lést annar ungur maður, Magnús Andri Sæmundsson, 19 ára. Til að ná bata leitaði hann á fíknigeðdeild, leitaði aðstoðar 12 spora samtaka og naut liðsinnis trúnaðarmanns. Hann þurfti á frekari aðstoð að halda, en komst ekki að í langtímameðferð og var ekki nógu veikur fyrir geðdeild. Í von um að koma honum einhvers staðar að hringdi móðir hans á alla þá staði sem henni datt í hug, því það er átak að láta af ópíóíðaneyslu. „Það þarf langa eftirmeðferð og utanumhald,“ segir móðir hans. „Hann fann fyrir fordómum og skömm, hann var fárveikur af sínum sjúkdóm en kom alls staðar að lokuðum dyrum.“ Og nú er hann látinn, drengurinn sem hún segir að hafi haft stærsta hjartalagið og besta faðmlagið, verið hæfileikaríkur og gáfaður.
Hvað þurfa margir að deyja? spurði fyrrverandi fíkniefnaneytandi í viðtali við RÚV. Árið 2018 höfðu aldrei fleiri látist af völdum lyfjafíknar. Árið 2021 var nýtt met slegið, þegar 46 lyfjatengd andlát voru skráð hjá embætti Landlæknis. Þar af voru níu undir þrítugu. Í ár stefnir í annað metár, er varað við. Talið er að um 20 einstaklingar hafi látist það sem af er ári, fólk sem átti það sameiginlegt að vera undir fimmtugu og hafa leitað á Vog.
Á bak við hverja tölu er líf. Heill heimur, fullur af fólki, þekkingu og reynslu, vonum og væntingum.
Er með dóp
Heildartölur frá því í fyrra liggja ekki enn fyrir. Af 46 sem létust árið 2021 fundust ópíóíðar í fimmtán. Fimmfalt fleiri en árið á undan. Ópíóíðar eru hættuleg efni, fólk þekkir ekki skammtastærðir eða eigin þolmörk, fráhvörf eru erfið og fólk fyllist slíkri örvæntingu að það er tilbúið til að gera hvað sem er til að koma í veg fyrir þá þolraun.
„Er með dóp, dóp. Er með dóp, dóp, dóp,“ syngur íslenskur rappari. Listamenn reyna stundum að selja hugmyndina um að það sé töff að nota fíkniefni. Það er rangt, það er vont að vera fíkill.
Alveg eins og það var rangt af fyrirtækinu Purdue Pharma að markaðssetja OxyContin með þeim frasa að „minna en eitt prósent notenda yrðu háðir því“.
Og af íslenska lyfjaframleiðandanum Actavis að markaðssetja samheitalyf þannig að læknar væru að gera sjúklingum greiða með því að ávísa ávanabindandi lyfjum. „Leyfðu sjúklingnum að lifa með minni sársauka og fá fullnægjandi hvíld.“ Sem leiddi til þess að fyrirtækið þurfti að greiða himinháar skaðabætur fyrir villandi markaðssetningu, þar sem meðvitað var dregið úr áhættunni og jákvæð virkni lyfjanna ýkt til að knýja fram sölu. Það virkaði. Alls seldi fyrirtækið 32 milljarða taflna af morfínlyfjum í Bandaríkjunum á þeim tíma sem notkun slíkra lyfja varð að faraldri og dró á milli 400 og 500 þúsund einstaklinga til dauða. Á sama tímabili jukust tekjur Actavis um tæp 400 prósent. Varlega áætlað var sala á morfínlyfjum um helmingur af tekjuaukningu félagsins, sem var í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og undir stjórn Róberts Wessman hluta tímans.
„Faraldurinn var skapaður og ýtt var undir hann af græðgi,“ sagði í stefnu gegn Actavis. Á meðan fólk græddi hafi líf einstaklinga verið eyðilagt og kostnaður við heilbrigðisþjónustu margfaldaður. Á meðal þeirra sem græddu voru íslenskir lífeyrissjóðir. Skilaboðin voru skýr: „Ávísaðu Kadian. Minni sársauki fyrir sjúklinga þína. Fleiri kostir fyrir þig.“
„Að mínu mati eru þetta einhverjir illvígustu glæpamenn seinni ára í Bandaríkjunum sem stóðu á bak við þessa markaðssetningu,“ segir yfirlæknir á bráðadeild Landspítalans. „Dópsalar í jakkafötum.“
Og hvað?
Fjögur ár eru síðan þingmenn allra flokka á Alþingi sammæltust um að grípa til róttækra aðgerða til að stemma stigu við aukinni misnotkun sterkra verkjalyfja hér. Þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp, sem skilaði skýrslu, sem fól í sér tillögur. Flestum var hrint í framkvæmt en hér erum við samt, og ópíóíðafaraldurinn hefur aldrei verið skæðari.
Á meðal þess sem þáverandi heilbrigðisráðherra boðaði var opnun neyslurýmis, sem nú er búið að loka aftur. Jóhannes Kr. Kristjánsson missti dóttur sína úr ofneyslu fíkniefna fyrir þrettán árum síðan. Í kjölfarið vann hann umfangsmikla rannsókn á aðstæðum fíkniefnaneytenda hér á landi og brugðist var við. Nú erum við komin aftur á upphafsreit, segir hann. „Fólk er að deyja vegna ofneyslu og þá fer umræðan af stað, allir vilja aðgerðir og það er eittthvað smá gert. En síðan þegar búið er að tilkynna um aðgerðir róast ástandið. Fólk heldur samt áfram að deyja.“
Á lista yfir aðgerðir sem núverandi heilbrigðisráðherra boðar eru flýtimóttaka þar sem einstaklingum í bráðum vanda er tryggt aðgengi að gagnreyndri heilbrigðismeðferð, lyfjameðferð við ópíóíðafíkn og endurgjaldslaust aðgengi að neyðarlyfjum gegn ofskömmtun. Reyndar átti líka að auka aðgengi að þessum lyfjum fyrir fjórum árum. Nú á að auki að leggja þrjátíu milljónir til úrræða sem sinna forvörnum og snemmtækum inngripum.
Alls á að leggja 170 milljónir í þessar aðgerðir. Eða hvað?
Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu kom fram að ríkisstjórnin hefði samþykkt tillögurnar. Skömmu síðar var það dregið til baka, hið rétta væri að ráðherra hefði lagt fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi, sem ráðherranefnd ætti eftir að taka afstöðu til og ríkisstjórnin í kjölfarið.
Losað um þjáningu
Mikið væri áunnið með því að fjárfesta í fjölbreyttum meðferðarúrræðum, andlegri og líkamlegri úrvinnslu áfalla og innleiða áfallamiðaða nálgun í mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfið.
Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, James Heckman, sýndi með svokallaðri Heckman kúrfu að því fyrr sem fjárfest er í ævi fólks því meiri er sparnaður samfélagsins. Með snemmtækum inngripum fyrir fimm ára aldur fengist sjö til tíu prósent af árlegum kostnaði til baka, með margvíslegum samfélagslegum sparnaði. Árangur þessara barna í skóla yrði betri, þörf á stuðningsúrræðum væri minni, þátttaka á vinnumarkaði meiri, auk þess sem ýmis kostnaður sparast í félags-, fangelsis- og heilbrigðiskerfinu. Fyrir utan aukin lífsgæði.
Þótt mikilvægt sé að grípa sem fyrst inn í erfiðar aðstæður barna og ungs fólks, er aldrei of seint að heila sárin. Með því að fyrirbyggja að þjáningin fylgi fólki ævilangt er dregið úr líkum á margvíslegum samfélagslegum vanda, svo sem sjúkdómum, geðröskunum og fíkn.
Af því að fíkn er flótti frá þjáningu. Eins og fyrrverandi fíkniefnaneytandi orðaði það: „Fíkniefnin voru aldrei vandamálið. Fíknin var lausnin á vandamálinu ég.“
Athugasemdir