„Það er grafalvarlegt mál þegar kjörnir fulltrúar nýta sér stöðu sína og vettvang til að ala á og kynda undir gróusögur, láta sem þær séu staðreyndir.“
Þetta sagði Viðar Eggertsson varaþingmaður Samfylkingarinnar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Vísaði hann í sögusagnir af meintri hegðun og atferli flóttafólks í Reykjanesbæ sem hann sagði að notaðar væru til að skauta samfélagið í „við og þau“, þar sem þau væru flóttafólk sem þætti einkar heppilegt að beina hatri að.
„Sannleikurinn er fyrsta fórnarlambið í slíkri skautun. Undir gróusögurnar er rækilega kynnt, meðal annars hér í ræðustól Alþingis af þingmönnum til að upphefja sig á kostnað þeirra sem veikt standa og eflir hatur í þeirra garð. Í nýjasta tölublaði Heimildarinnar er vönduð úttekt á þessu og ganga blaðamenn í það að kanna sannleiksgildi sögusagnanna sem alþingismennirnir hefðu sjálfir betur gert áður en þeir básúnuðu fordómana,“ sagði hann.
Í nýjasta tölublaði Heimildarinnar kom fram að sögusagnir um að fólki stæði ógn af flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ, sem samkvæmt könnun miðilsins á sér ekki stoð í raunveruleikanum, hefðu náð flugi og ratað í umbúðum staðreynda inn á bæjarstjórnarfundi þar og á Alþingi. Talað var við sérfræðinga sem sögðu hættulegt að pólitíkusar ýttu undir ótta vegna ógnar sem ekki væri til staðar.
Ekki boðlegt
Viðar sagði á þingi í dag að úttekt Heimildarinnar sýndi að nánast allar sögusagnirnar virtust byggðar á sandi en það skipti í raun engu í augum þeirra sem sæju sér leik á borði í lýðskrumi.
Tók hann sem dæmi ræðu Ásmundar Friðrikssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem hann hélt í ræðustól Alþingis þar sem hann sagði að íbúum hefði verið hent út úr blokk í Reykjanesbæ og á götuna til að rýma fyrir flóttafólki.
„Þegar blaðamenn bentu honum á að sagan hefði reynst röng svaraði þingmaðurinn að hann væri að bergmála það sem honum var sagt og að hann hefði ekki tíma til að gá hvort fólk væri raunverulega á götunni. Þetta er ekki boðlegt,“ sagði Viðar. „Þessu verður að linna.“
Athugasemdir (1)