„Það er að koma Hönnunarmars og ég er að hjálpa mömmu minni með partí á föstudaginn sem verður geggjað. Hún verður með einhverjar skvísur í kúl fötum sem eiga að líta út eins og teikningarnar hennar og svo verða kokteilar og kökur í hennar anda.
Hún er fata- og búningahönnuður og ég ætla að segja að hún sé svona „múltí-media“ listakona því hún er alltaf að gera alls konar. Hún vann rosa lengi sem fatahönnuður í París fyrir fyrirtæki sem heitir Louis Féraud, sem var þá mjög stórt hátískufyrirtæki. Svo er hún búin að vera á Íslandi og hún hættir ekki, hún er óstöðvandi orka af kreatívi, alltaf að gera eitthvað nýtt. Hún er mikið að pæla í leik og að þetta sé skemmtilegt og bara partí.
Við erum mjög nánar, næstum því of nánar. Stundum hugsa ég: Ég veit ekki hvað ég myndi gera án þessarar konu. Við tölum alltaf saman og hún gefur mér svo mikið pláss og rými til að vera ég. En ekki þegar ég var unglingur, oj, þá var ég ógeðslega leiðinleg og þá var hún ekki mjög næs. Það voru ógeðslega mikil átök á milli okkar. Ég var alltaf að stelast út, við bjuggum í París og hún var mjög stressuð þegar ég var úti á kvöldin. Núna skil ég það, en þá var ég bara, hvað meinarðu, það er bara gaman. Ég var líka að hlusta á heví metal rosa hátt og vera óþolandi og ekki taka til eftir mig, bara svona unglingastælar.
Ég hef alltaf sagt henni allt, það er rosa gott að hafa þannig manneskju í lífi sínu, að vera með einhvern sem hefur alltaf þekkt þig og veit hver þú ert, það er einhver fegurð þar. Ég á ekki systkini, það útskýrir kannski nándina. Það er enginn annar með minningarnar mínar í einhverri kistu. Við erum mjög góðar vinkonur og hún er yndisleg manneskja. Hún er með stærsta hjartað. Mig langar að verða svona einhvern tímann, ég er það ekki enn þá.
Að verða mamma breytti öllu. Ég held að fullt af fólki geti upplifað miklu stærri upplifanir án þess að eignast börn en það setti eitthvað í samhengi fyrir mig, einhverja ást og einhvern skilning. Ég er búin að vera mamma í að verða tíu ár. Ég var 25 ára þegar ég varð mamma og leið eins og ég væri 15 ára. Mér fannst ég svo mikið barn.
Ég var með fyrirfram hugmyndir um það hvað það væri að vera móðir. Ég hélt að ég yrði rosalega skipulögð og ég myndi gera allt rétt, vera með Waldorf kubba og gera allt fullkomið. Svo fattaði ég frekar hratt að það sem skiptir máli er ást og að vera til staðar og fylgja barninu, það er svo gaman að sjá það gerast. Þau eru svo alls konar, alls konar týpur af fólki.
Ég held að ég hafi orðið miklu mýkri og skilningsríkari við að verða foreldri. Eins og þegar maður er að tala um fólk eða upplifanir þess, þá held ég að ég geti verið með miklu meiri samkennd því ég veit hvað það er að vera ósofin og skrýtin og allar þessar upplifanir sem maður fær ekki bara með því að vera foreldri, kvíði og þunglyndi og alls konar. Mér finnst það hafa mýkt hugsanir mínar í garð fólks. Ég held að ég dæmi rosa lítið í rauninni, þótt það sé gaman stundum að dæma í djóki.“
Athugasemdir