Joe Biden Bandaríkjaforseti er eldri en íslenska lýðveldið. Hann býður sig nú fram til endurkjörs í forsetakosningunum árið 2024. Nái Biden endurkjöri verður hann 86 ára gamall þegar síðara kjörtímabili hans lýkur. Hann er þegar elsti forseti í sögu Bandaríkjanna. Prófessor í sagnfræði segir Biden og Trump báða nota þjóðernisstefnu í kosningaherferðum sínum en þó á ólíkan hátt.
70 prósent vilja ekki Biden
Yfirskrift kosningarherferðar Biden er: Klárum verkið. Í myndskeiði þar sem hann tilkynnir framboðið er Kamala Harris varaforseti áberandi. Skilaboðin til kjósenda eru skýr, nái Biden ekki að klára verkið er Harris tilbúin að grípa boltann en vinsældir hennar hafa dalað töluvert á kjörtímabilinu.
Þau málefni sem eru Biden kær hafa verið mikið í deiglunni undanfarið, þar á meðal skertur réttur kvenna til þungunarrofs. Í myndskeiðinu minnir Biden fólk á þá miklu ólgu sem var í bandarísku samfélagi þegar hann tók við embætti og biður um meiri tíma til að endurbyggja það sem Trump eyðilagði.
Ekki eru allir Bandaríkjamenn tilbúnir að gefa Biden þennan tíma. Nýlega birti NBC-fréttaveitan könnun sem sýndi að 70 prósent Bandaríkjamanna, þar af helmingur demókratar, vilja ekki að Biden bjóði sig aftur fram. Aldur hans var algengasta ástæðan fyrir því.
Pólitískir andstæðingar Biden hafa einnig gagnrýnt forsetann. Á síðasta ári skrifuðu 54 áhyggjufullir repúblikanar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings bréf stílað á Hvíta húsið og lýstu yfir áhyggjum af háum aldri Biden og mögulegum elliglöpum.
„Hún hefur aðdráttarafl sem hann hefur ekki“
Guðmundur Hálfdánarson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Í samtali við Heimildina segir Guðmundur að aldur Biden muni óhjákvæmilega hafa einhver áhrif á framboðið en að Biden virðist heilsuhraustur sem stendur. „Því eldri sem þú verður því erfiðara er að spá fyrir um hvað gerist. Eins og er þá held ég að hann komi nú ekki til með að eiga neitt sérstaklega erfitt með þetta.“
Guðmundur bendir á að kosningabarátta Biden snúi að mestu leyti um að sinna hlutverki sínu sem forseti. Prófessorinn telur Harris forsetanum mikilvæga. „Það er augljóst að hún hefur svona ákveðið aðdráttarafl sem að hann hefur ekki.“
Aðrir frambjóðendur
Fleiri, og yngri, frambjóðendur eru bæði demókrata- og repúblikana megin. Donald Trump fyrrum Bandaríkjaforseta steðjar líklega mest ógn af Ron DeSantis 44 ára ríkisstjóra Flórída og stjórnmálakonunni Nikki Haley, 51 árs. Mótframbjóðendur Biden úr Demókrataflokknum eru bæði um sjötugt en það eru andlegi leiðtoginn Marianne Williamson og Robert F. Kennedy hinn yngri. Í könnun NBC-fréttaveitunnar sögðu 88 prósent demókrata að þau myndu kjósa Biden aftur ef hann léti verða af því að fara í framboð. Staða hans innan flokksins er því nokkuð sterk.
Trump tilkynnti um framboð sitt á síðasta ári og hefur hans helsta gagnrýni gegn Biden verið veik staða Bandaríkjanna efnahagslega. Trump segir það Biden að kenna að há verðbólga sé í Bandaríkjunum og að ríki heims nálgist óðfluga þriðju heimsstyrjöldina. Það gæti verið kostur fyrir Biden að fá Trump á móti sér, bæði vegna þess að Biden hefur sigrað hann áður og svo er Trump sjálfur orðinn 74 ára gamall.
„Einhver á miðjunni á engan séns“
Spurður út í stöðu Biden ef hann mætir öðrum frambjóðanda en Trump í kosningunum segir Guðmundur: „Það væri alveg öruggt að Biden myndi eiga í miklu meiri erfiðleikum ef að einhver sem væri nær miðjunni myndi bjóða sig fram í Repúblikanaflokknum. En staðreyndin er bara sú að einhver á miðjunni á engan séns á að verða frambjóðandi repúblikana.“ Að mati Guðmundar sitja repúblikanar uppi með Trump fyrst að þeir losuðu sig ekki við hann fyrir sex árum.
„En það sem er verra fyrir repúblikana er það að Trump skapar líka æsing hjá þeim sem eru á móti honum. Þeir fara líka á kjörstað, ekki endilega til að kjósa Joe Biden heldur til að kjósa gegn Trump. Og það er líka vandamál fyrir repúblikana.“
Þjóðernisstefna er pólitísk
Guðmundur hefur rannsakað þjóðernisstefnu í sínum fræðistörfum. Hann segir hana vera eina af meginstoðum sjálfsmyndar fólks enda séu flestir mótaðir af því að tilheyra ákveðinni þjóð sem gefur þeim ákveðin réttindi og skyldur. „Það verður svona rammi fyrir þig til þess að þér finnist þú tilheyra ákveðnum hópi sem þú ert tilbúin að fórna einhverju fyrir, borga skatta og annað slíkt, og það held ég að sé nauðsynlegt fyrir öll samfélög að hafa einhverja slíka samkennd.“
„Það sem ég held að sé kannski mikilvægast í sambandi við þjóðernisstefnuna er að átta sig á að þetta er pólitísk stefna, þetta er ekki náttúrulegt fyrirbæri. Þú fæðist ekki með þjóðerni í hausnum. Þetta er eitthvað sem þú ert alin upp í að verða í gegnum þína skólagöngu, gegnum tengingar við allskonar hátíðahöld, menningarleg fyrirbæri og pólitísk fyrirbæri. En ein þjóð er ekkert annarri merkilegri, þær eru bara mismunandi, ólíkar.“
Báðir þjóðernissinnar
Aðspurður hvernig Biden og Trump nota þjóðernisstefnu á ólíkan hátt í auglýsingaherferðum sínum segir Guðmundur: „Við getum kallað þá báða þjóðernissinna en þeir eru það á mjög ólíkan hátt.“
Guðmundur segir Trump vera fulltrúa einangrunarstefnu á meðan að Biden er opnari. „Biden er miklu opnari og fulltrúi þá fyrir annan streng í bandarískum stjórnmálum sem hefur verið sérstaklega áberandi síðan eftir síðari heimsstyrjöld. Það snýr að því að það sé eiginlega hlutverk Bandaríkjanna að styðja við og styrkja lýðræðisþróun í heiminum og þessa tegund samfélags er í þessum heimshluta.“
Guðmundur svarar því hvort að Biden sé veikari heima fyrri vegna sterkrar stöðu hans í utanríkismálum neitandi. Guðmundur segir hlutina stefna í að kosningin verði endurtekning af þeim sem voru árið 2020. „Ég held að vinsældir Trump meðal almennra Bandaríkjamanna hafi minnkað enn frekar á síðustu mánuðum. Þannig að ég held að það verði sterkasta vopn Biden að það er að benda á hinn gæjann, ég er þó skárri en hann.“
Tímalína
Æviskeið Joes Biden
Biden fæðist
Biden fæddist í borginni Scranton í Pensylvaníu fylki þann 20. nóvember 1942. Borgina þekkja margir úr gamanþáttunum Office. Franklin D. Roosevelt var forseti Bandaríkjanna sem höfðu gengið til liðs við Bandamenn í seinni heimstyrjöldinni.
Biden 10 ára
Á fyrstu 10 árum Biden verður Ísland lýðveldi og gengur í NATO. Bandamenn vinna seinni heimsstyrjöldina, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur til starfa og Dwight Eisenhower er kosinn forseti Bandaríkjanna.
Biden 20 ára
Á öðrum áratug Biden er Elísabet fyrrum Bretlandsdrottning krýnd, Íslendingar hefja fyrsta þorskastríð, Mannréttindadómstóll Evrópu er stofnaður og Marilyn Monroe deyr.
Biden 30 ára
Á þriðja áratug Biden voru John F. Kennedy og Martin Luther King skotnir til bana. Richard Nixon tekur við forsetaembættinu og Víetnam stríðinu lýkur.
Biden 40 ára
Á fjórða áratug Biden verða Jimmy Carter og Ronald Reagan forsetar Bandaríkjanna. Þorskastríðinu lýkur á Íslandi, Vigdís Finnbogadóttir tekur við embætti forseta og John Lennon er skotinn til bana.
Biden 50 ára
Á fimmta áratugi Biden falla Berlínarmúrinn í Þýskalandi og Járntjaldið í Sovétríkjunum. George Bush verður forseti Bandaríkjanna og Nelson Mandela verður frjáls.
Biden 60 ára
Á sjötta áratugi Biden verða Bill Clinton og Goerge W. Bush forsetar Bandaríkjanna. Framin er hryðjuverkaárás á Tvíburaturnana og Díana prinsessa lætur lífið.
Biden 70 ára
Á sjöunda áratugi Biden lýkur Íraksstríðinu, hann verður varaforseti Bandaríkjanna og Obama hlýtur forsetaembættið. Arabíska vorið á sér stað í Egyptalandi og Ísland vinnur Icesave málið.
Biden 80 ára
Á áttunda áratugi sínum verður Biden 46. forseti Bandaríkjanna eftir sigur á Donald Trump. Skrifað er undir Parísarsamkomulagið, ráðist var á þinghúsið í Bandaríkjunum og COVID-19 reið yfir heiminn.
Er sagan söluvara?
Trump vísar mikið í sögu Bandaríkjanna í ræðum sínum og segir gjarnan að eitthvað sé stærsti viðburður í áratugi eða árhundruð. Aðspurður hvort að hægt sé að nýta söguna sem söluvöru með því að bjóða kjósendum síðu í sögubókunum í skiptum fyrir atkvæði segir Guðmundur að svo sé. Hann segir Trump hins vegar búa til sína eigin sögu. „Það er hægt að nota það sem þú segir að sé sagan sem söluvöru.“
„Þarna er Trump að vísa til sögunnar eins og hann segir að hún sé og einhvern veginn að skapa hugmyndir hjá fólki um að það sé hægt að endurreisa sjötta áratuginn sem var mjög íhaldssamur bæði í siðferðismálum og gagnvart stöðu kynþáttanna. Það var líka áratugur mikillar efnahagslegrar velmegunar, fólk gat flúið borgirnar og búið í stærri húsum. Þessi áratugur kemur ekkert aftur.“
Guðmundur bætir við: „Það voru ákveðnar sögulegar aðstæður sem sköpuðu þennan áratug. Þær sögulegu ástæður eru búnar og eru ekki lengur þarna. En honum hefur greinilega tekist að selja þetta mjög mörgum. En hins vegar auðvitað ekki meirihlutanum.“
Athugasemdir