Þriðjungur sitjandi alþingismanna eru annað hvort náskyldir eða mægðir fólki sem setið hefur á alþingi, ýmist sem aðal- eða varamenn. Þá er enn fleiri þingmenn tengdir fólki sem hefur stýrt sveitarfélögum eða leitt framboð í sveitarstjórnarkosningum.
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor hefur rannsakað elítur og valdakerfi í íslensku samfélagi og meðal annars kannaði hann ættartengsl íslenskra þingmanna á árabilinu 1990 til 2020. Hans niðurstaða er að um þriðjungur þingmanna hafi á þessu tímabili haft ættartengsl við fyrrverandi þingmenn.
„Íslenska kerfið hefur viss einkenni sem ættu að ýta undir ættartengsl, og þau koma vissulega fyrir hér, en ég myndi ekki halda að þau væru megin áhrifaþáttur á framabrautir í stjórnmálum hér á landi,“ segir Gunnar Helgi og bendir á að svipuð mynstur megi greina í öðrum starfsgreinum eða þjóðfélagshópum, innan íþróttahreyfingarinnar eða í listalífi til að mynda.
Þeir þingmenn sem Heimildin ræddi við í samhengi við úttekt á ættartengslum töluðu flestir á svipuðum nótum og Gunnar Helgi. Það er að segja, að ættartengsl þeirra kannski ekki ráðið úrslitum um að þeir hafi lagt fyrir sig pólitík. Það hafi frekar verið að virk umræða um stjórnmál og samfélagsmál sem fram hafi farið inni á heimilinum hafi þar haft meira að segja.
Allir verða fyrir áhrifum í uppvextinum
Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, er sonur þeirra Ingibjargar Svöfu Siglaugsdóttur hjúkrunarfræðings og Péturs heitins Þórainssonar, bónda og prests, lengs af í Laufási. Pétur var á sinni tíð landsþekktur maður og tók virkan þátt í félagsstarfi, einkum kirkjunnar og ungmennahreyfingarinnar. Hann var þá varaþingmaður Stefáns Valgeirssonar í sérframboði hans, J-listanum, og sat um skeið á þingi.
Sjálfur er Þórarinn Ingi búfræðimenntaður frá Bændaskólanum á Hólum og hefur verið bóndi lengst af. Hann sat í stjórn og varð síðar formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og í sveitarstjórn Grýtubakkahrepps. Hann var varaþingmaður á síðasta kjörtímabili.
„Maður getur ekki beðið eftir því að fólk geri hlutina fyrir mann, maður á að gera þá sjálfur og á sama tíma leggja öðrum lið“
Þórarinn Ingi segir að ekki sé vafi um að uppeldið hafi hafi mótað hann. „Ég held að það liggi nú alveg fyrir. Menn verða alltaf fyrir áhrifum af því sem þeir alast upp við. Langafi minn var líka Brynleifur Tobíasson sem var einn af stofnendum Bændaflokksins á sínum tíma og var í framboði fyrir hann, þó hann næði ekki kjöri á þing.“
Þórarinn Ingi segir að félagstörf og stjórnmálaþátttaka föður hans einkum hafi haft verulega mikið um það að segja hvaða leið hann sjálfur fetaði, það hafi verið honum fyrirmynd. „Ég fór í bændapólitíkina og ég myndi segja að hún væri mesti grunnurinn að því að ég fór út í landsmálapólitíkina. Svo er það svo sem þannig að maður fer ekki endilega í pólitík, fólk kemur að máli við mann og fær mann til þátttöku. Það hefur líka áhrif að hafa alist upp í samfélagi á landsbyggðinni þar sem allir þurfa að leggja sitt af mörkum, taka þátt félagslega.“
Sem ungum manni hafi honum ekki liðið þannig að fyrir hann væri vörðuð leið sem hlyti að leiða til þess að hann myndi taka þátt í félagsmálum eða pólitík, segir Þórarinn Ingi. „Þetta bara gerðist. Mér hefur fundist mér bera skylda til þess að mæta á fundi þegar þeir hafa verið haldnir um mál sem snerta mann, það er bara samfélagsleg skylda að taka þátt og leggja eitthvað af mörkum. Hvort sem það er í félagsmálum í sveitinni eða í smalamennsku, nú eða pólitík. Maður getur ekki beðið eftir því að fólk geri hlutina fyrir mann, maður á að gera þá sjálfur og á sama tíma leggja öðrum lið.“
Athugasemdir