Á Íslandi hefur innflytjendum fjölgað, líklegast meira núna en nokkurn tímann áður. Ísland sem er ekki með stórt og sterkt hagkerfi og ekki með marga íbúa græðir á því að fá aukið vinnuafl að utan. Fólk er að flytja hingað til að vinna, en kemur oft hér með fjölskyldur, sest að, og kallar Ísland sitt land. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru innflytjendur 16,3% íbúa landsins. Stærsti hlutur innflytjenda á Íslandi kemur frá Póllandi, og eru nú fleiri en 20.000 talsins.
Íslenska er ekki einfalt mál
Auðvitað, þegar fólk flytur til lands, ætlar það sér oftast að læra tungumálið. En við þurfum að muna að íslenska, þó það sé mjög fallegt mál, er alls ekki einfalt. Það tekur mörg ár að ná tökum á því með miklum metnaði og áreynslu. Fólk sem kemur hér er oftast í fullu starfi og að vinnur langa vinnudaga, og hefur því ekkert sérstaklega mikla orku til þess að sitja yfir tungumála-námsbókum. En þetta sama fólk þarf samt að geta lifað sínu lífi, farið til læknis, talað við kennara barna sinna, fengið ráðgjöf og margt fleira. Fyrir innflytjendur verður það mun flóknara sem fyrir hina er sjálfsagt. En þeir sem eru fluttir hingað eru með sömu réttindi, samkvæmt lögum, til að fá þjónustu og upplýsingar eins og allir hinir.
Þess vegna er túlkaþjónusta, að mínu mati, eitt af því mikilvægasta til þess að halda íslensku samfélagi í góðum málum. Við megum ekki útiloka stóran hóp fólks úr okkar samfélagi bara vegna þess að hann hefur ekki náð góðum tökum á íslensku. Að auki, það sem við gleymum oft, er það að geta talað hversdagslegt mál þýðir ekki að viðkomandi skilji sérhæfðan orðaforða eins og læknamál, lagamál, dómsmál.
Fékk sting í hjartað
Um daginn átti sér stað hörmulegt atvik þar sem ungur pólskur maður var myrtur af íslenskum einstaklingum á menntaskólaaldri. Þetta hefur valdið áfalli og mikilli sorg fyrir pólskt samfélag. Móðir hins látna hefur tjáð sig um hvernig vandamál með upplýsingaflæði til hennar hefur ýtt undir áfall hennar og hvað henni finnst óþægilegt að hafa nýjan túlk í hvert sinn þar sem hún er í þessari slæmu stöðu.
Þegar ég las þetta fékk ég sting í hjartað. Í aðstæðum eins og þessum, þá skiptir gæði og fagmennska túlka miklu máli. Túlkastarf er oft mjög erfitt og það þarf ekki bara góðan orðaforða heldur líka getu til þess að koma upplýsingum til skjólstæðings á viðeigandi hátt, geta sinnt starfi sínu af fagmennsku, og ekki síður með félagsvitund. Svo er mikilvægt að tryggja að sami túlkur sé í viðkomandi máli ef skjólstæðingur óskar eftir því, þar sem túlkur og skjólstæðingur geta byggt traust sín á milli. Á sama tíma þurfa túlkar að vera hlutlausir aðilar í þessum samskiptum. Þetta er enn mikilvægara í atvikum eins og þessum, þar sem óviðeigandi túlkun getur haft mjög slæmar afleiðingar og skapað misskilning.
Á Íslandi eru því miður flestir túlkar að vinna sem verktakar fyrir stærri fyrirtæki. Þetta er ekki vel launað starf, sérstaklega miðað við hversu krefjandi það er. Túlkar þurfa að sjá um að borga sjálfir fyrir rekstur, að auki eiga túlkar ekki einu sinni réttindi eins og veikindadaga. Þess vegna er mikil starfsmannavelta í þessu fagi, og þeir túlkar sem eftir eru vinna helst sem túlkar í aukastarfi.
Enginn skal skilinn útundan
Mér fannst þetta ekki nóg gott og ákvað því að gera eitthvað í þessum málum. Ég hitti Aleksöndru Karwowska þegar við vorum að vinna saman við að túlka almannavarnafundi á covid-tímum, þá vaknaði hjá okkur hugmynd um að stofna okkar eigið fyrirtæki. Við ákváðum að gera þetta öðruvísi, þar sem við leggjum áherslu á gæði þjónustu okkar og viðeigandi þjálfun túlka. Þannig fæddist Landstúlkun.
„Við þurfum að gera það sem við getum til þess að bæta okkar samfélag og tryggja það að enginn sé skilinn útundan vegna þess að hann er innflytjandi.“
Að svo stöddu erum við bara tvær og erum að túlka pólsku, ensku og íslensku. En með tímanum ætlum við að bæta við bæði fleiri starfsmönnum og tungumálum. Við erum nú þegar að bjóða þjónustu sem okkur fannst svo sannarlega vanta, með atriðum sem er alls ekki í lagi að geta ekki boðið, eins og til dæmis að fá þjónustu sama túlks. Við ætlum líka að setja mikla áherslu á þjálfun túlka í sínu fagi sem er, því miður, næstum því engin eins og staðan er á Íslandi í dag.
Að fá réttar upplýsingar, að vita hvað er að gerast, að geta tjáð sig, skilja aðra og geta gert sig skiljanlegan er að mínu mati grunnmannréttindi. Við þurfum að gera það sem við getum til þess að bæta okkar samfélag og tryggja það að enginn sé skilinn útundan vegna þess að hann er innflytjandi.
Martyna Ylfa Suszko hefur búið á Íslandi síðan 2005 og er af pólskum uppruna. Hún starfar sem túlkur og rekur túlkunarfyrirtæki ásamt vinkonu sinni Aleksöndru. Hún hefur klárað BA nám í ensku og japönsku við Háskóla Íslands og er nú í MA námi í þjóðfræði. Martyna er mikill dýravinur og á hund, kött, hest og tvær körtur.
Athugasemdir