Fjölskyldan er fyrir mér númer eitt, tvö og þrjú. Það er mér efst í huga að virkja gott samband við börn og dýr. Þegar elsti sonur okkar greindist með eitlakrabbamein sautján ára gamall fékk maður góðan lærdóm af því hvað fjölskyldan skiptir miklu máli. Hann er þrítugur í dag, laus við krabbamein og útskrifaður tölvunarfræðingur, flottur strákur. Það eru þrettán ár síðan hann greindist, Bella kom stuttu eftir það. Hún hjálpaði mikið til að þétta fjölskylduna saman eftir þetta áfall, biddu fyrir þér. Hún er svo mikil dekurrófa.
Við fengum Bellu þegar yngstu strákarnir voru fjögurra og fimm ára gamlir. Okkur fannst mikilvægt að þeir fengju að alast upp með dýri. Ég hafði aldrei átt hund áður en alltaf langað til þess, svo þetta var eiginlega draumur fyrir mig. Strákunum og Bellu kemur mjög vel saman, hún tekur svo vel á móti okkur þegar við komum heim.
Við erum nýbúin að taka Emil í fóstur. Konan mín frétti að Emil vantaði heimili. Ég er mjög mikill dýravinur, það var ekki spurning fyrir mig að fá félagsskap fyrir Bellu og fá einn villing inn á heimilið. Ég er heppinn að vera með stóran og girtan garð sem þau geta hlaupið um í. Ég fer ekki mikið í göngutúr með þau, ég er pínu svona vinnualki, það er mikið að gera hjá mér en eftir að við tókum Emil að okkur var ákveðið að virkja göngutúrana meira.
Athugasemdir