Um daginn fékk ég heimsókn frá kollegum frá fjarlægri plánetu. Þeir fengu að fylgjast með kennslustund.
Hvaða tæki eru þetta sem nemendur halla sér yfir? spurðu geimverurnar.
Þetta eru símar og tölvur, svaraði ég. Það eru tækin sem veita þeim aðgang að Höllinni.
Höllinni?
Já, það er þar sem námið fer fram, sagði ég og útskýrði fyrir þeim að Höllin væri stafrænn heimur sem hefði orðið til inni í okkar heimi um aldamótin og hefði á síðustu árum stækkað svo ört að hann hefði nú sterkara aðdráttarafl en heimurinn fyrir utan. Þá varð öllum ljóst að framtíðin væri inni í Höllinni, en ekki utan hennar, þess vegna fer mestur hluti náms fram þar inni. Höllin er töfrastaður, sagði ég. Heimur endalausra möguleika. Þar er öll þekking sem mannkynið hefur viðað að sér, allir textar, myndir, höf og skógar – ALLT! Fólk finnur meira að segja ástina í Höllinni.
Það er aldeilis, sögðu geimverurnar. Svo það eru engin námsgögn? Engar stílabækur?
Nei, þau nálgast allt námsefnið í Höllinni, sagði ég. Við erum hætt að prenta út og nota bækur, framtíðin er inni í Höllinni.
Geimverurnar kinkuðu kolli og brostu kurteislega. Önnur þeirra leit á klukkuna. En þið? spurði ég þegar þær gerðu sig líklegar til að fara. Hvernig búið þið nemendur ykkar undir framtíðina?
Við gerum alls konar, svaraði önnur geimveranna. Við þjálfum þau til dæmis í að þekkja söng mismunandi fugla. Eruð þið með fugla hér á jörðinni? spurði hún og brosti dálítið vandræðalega.
Jú, reyndar, sagði ég og opnaði gluggann við kennaraborðið. Hann hafði ekki verið opnaður lengi. Það ískraði í hjörunum. Ég fann veröldina streyma inn í skólastofuna. Einhvers staðar í hverfinu söng skógarþröstur, bolta var dripplað á malbiki, það var vor í lofti. Nemendur mínir litu upp frá tækjunum eitt andartak, andvörpuðu, liðkuðu axlirnar og réttu úr hryggnum, því eins og við vitum öll er mjög lágt til lofts í Höll einmanaleikans.
Athugasemdir