Jóhann Friðrik Friðriksson þingmaður Framsóknarflokksins fjallaði um neytendavernd undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
Hann benti á að bandaríska neytendastofnunin hefði lagt fram svokallað „smelltu til að segja upp“-ákvæði sem krefst þess að seljendum sé gert það jafn auðvelt að koma upplýsingum til leiðar til neytenda og neytendum að neyta þjónustu eða skrá sig úr henni.
„Hver hefur ekki lent í vandræðum við að segja upp þjónustu eða jafnvel skráð sig í þjónustu fyrir mistök sem erfitt er að segja upp?“ spurði þingmaðurinn.
Fólk fast í endurteknum greiðslum
Jóhann Friðrik sagði að ýmis dæmi væru til þar sem seljendur þjónustu hönnuðu og markaðssettu oft ókeypis prufuáskriftir og endurteknar áskriftir en reyndust svo stundum erfiðar þegar kæmi að upplýsingagjöf til þeirra sem lenda í því að skrá sig óviljandi.
„Í einhverjum tilvikum gefa seljendur takmarkaðar upplýsingar um aukagjöld og því miður fær fólk stundum reikninga eða rukkanir á greiðslukort sín sem neytendur hafa ekki samþykkt eða kannast illa við. Seljendur gera það oft verulega torvelt eða jafnvel ómögulegt að hætta við kaup á þjónustu, sér í lagi á internetinu.“
Hann sagði jafnframt að rannsóknir vestan hafs hefðu leitt í ljós að vinnubrögð sem þessi hefðu skaðað neytendur í áratugi. Þar í landi hefði fólk verið fast í endurteknum greiðslum fyrir hluti sem það vildi aldrei eða vildi ekki halda áfram að fá og lög og reglur hefðu náð illa utan um.
„Ég hef sent Neytendastofu fyrirspurn um það hvernig núverandi lög og reglur hér á landi ná utan um vandamálið en mig grunar að okkur skorti úrræði. Það þarf ekkert að velkjast í vafa um mikilvægi þess að banna rangfærslur, að gefa fólki mikilvægar upplýsingar á skýran hátt, ganga úr skugga um að fólk viti hvað það er að samþykkja og leyfa fólki að hætta við á einfaldan og auðveldan hátt,“ sagði hann og tók dæmi: „Ef aðili er með hnapp á sinni sölusíðu sem skráður er „skráðu þig í þjónustu“ á að vera hnappur á sömu síðu sem merktur er til að skrá sig úr þeirri sömu þjónustu.“
Athugasemdir