Breski þróunarlíffræðingurinn Richard Dawkins gagnrýndi nýverið áform nýsjálenskra stjórnvalda um að kenna goðafræði Maóra, frumbyggja Nýja-Sjálands, sem vísindi. Samkvæmt tillögu menntamálaráðuneytis landsins stendur til að færa þjóðlegan fróðleik Maóra undir raunvísindakennslu.
Dawkins sakaði yfirvöld um dygðaskreytingu (e. virtue signalling). „Unga fólki Nýja-Sjálands verður nú kennt um undrið sem er erfðaefnið DNA í sömu andrá og þau eru rugluð í ríminu með kennisetningu um að allt líf ólgi af orku sem Jarðmóðirin og Himnafaðirinn gáfu því. Upprunakenningar eru heillandi og ljóðrænar en þær eiga heima annars staðar í námskránni.“
Mannkynssagan hefur löngum verið talin taktfastur mars undan skugga fáfræði í átt að flekklausri dómgreind; frá því að Aristóteles fann upp rökfræðina hafi ekkert fengið hamið rökvísi okkar. Stundum er þó erfitt að sjá að maðurinn sé sú skynsemdarskepna sem haldið hefur verið fram.
Skattstofa Japan stóð fyrir óvæntu átaki á síðasta ári. Herferðinni „lifi sakí“ var ætlað að auka áfengisneyslu meðal ungs fólks. Vegna minnkandi ungmennadrykkju höfðu skatttekjur ríkisins af sölu áfengis dregist saman. Þótti skattstofunni rökrétt að hún hlutaðist til um að auka áfengisneyslu unga fólksins svo að koma mætti skatttekjum í fyrra horf.
Úrvalsdeildin og Alþingi
Í síðustu viku tilkynnti enska úrvalsdeild karla í fótbolta að félögum innan hennar yrði bannað að auglýsa veðmálastarfsemi framan á treyjum sínum. Fyrrum knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen lýsti yfir stuðningi við bannið. Eiður þekkir aðdráttarafl fjárhættuspila af eigin reynslu. Samkvæmt breskum fjölmiðlum tapaði hann sex milljónum punda við slíka iðju á fótboltaferlinum. Eiður sagði að fótboltafélögum væri nær að skreyta búninga sína verðugri málstað.
En það er ekki aðeins enska úrvalsdeildin sem bregst nú við vakningu um skaðsemi fjárhættuspila.
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um bann við spilakössum. Þótt margir styðji frumvarpið, þar á meðal Landlæknisembættið, eru ekki allir á eitt sáttir. Á dögunum sendi rektor Háskóla Íslands inn umsögn um frumvarpið. Þar hvatti hann til þess að málið yrði skoðað „heildstætt“ og ekki yrði „hrapað að niðurstöðu“. Rektor sagði HÍ ekki geta „verið án þeirra fjármuna sem Happdrætti Háskóla Íslands aflar“ með spilakössum og viðraði efasemdir um að spilafíkn yrði upprætt með „boðum og bönnum“.
Þrátt fyrir rökstuddar hrakspár
Á áttunda áratug síðustu aldar sýndu frægar rannsóknir sálfræðinganna Daniel Kahneman og Amos Tversky að fullyrðingar um skynsemi mannkynsins væru stórlega ýktar. Það væri ekki rökvísi sem væri okkur leiðarljós heldur létum við glepjast af „ómeðvituðum hugsanaskekkjum“.
„Kennslustund í vísindum er ekki réttur vettvangur til að kenna vísindaleg ósannindi,“ sagði Richard Dawkins. „Sköpunarsögur eru þvæla, jafnvel þótt þær séu þvæla byggð á hefð.“
Goðsagnir Maóra eiga sér langa sögu; japanska ríkið naut lengi góðs af áfengisneyslu ungmenna; löng hefð er fyrir því að Háskóli Íslands sé niðurgreiddur með áhættuspilum. En þótt eitthvað hafi verið viðtekið lengi er sú staðreynd ekki röksemd fyrir því að það haldist óbreytt.
Eignarhaldsfélagið sem á breska dagblaðið The Guardian baðst nýverið afsökunar á því að stofnandi blaðsins hefði á 19. öld fjármagnað það með auði sem honum áskotnaðist með þrælahaldi í Bandaríkjunum. Það krefst ekki sérlega frjós ímyndunarafls að sjá fyrir sér framtíðarrektor Háskóla Íslands reiða fram afsökunarbeiðni fyrir því að skólinn hafi fjármagnað kúrs í rekstrarhagfræði með hungri barna einstæðrar móður sem ánetjaðist spilakössum.
Vestrænn kapítalismi stóð af sér afnám þrælahalds þrátt fyrir rökstuddar hrakspár. Enska úrvalsdeildin mun ekki líða undir lok við brotthvarf veðmálaauglýsinga. Háskóli Íslands mun lifa af afnám spilakassa.
Sömu rök og byssumenn í USA beita. Rektorinn virðist sammála þeim.