Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar gerði fjármálainnviði á Íslandi að umfjöllunarefni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Hún benti á að íslenskir neytendur greiddu ekki einungis til íslenskra banka heldur borguðu þeir einnig til Visa og Mastercard í útlöndum.
„Hagnaður bankanna af þessu fyrirkomulagi hleypur á milljörðum og við borgum og getum ekki annað. En eftir hverju höfum við verið að bíða allan þennan tíma? Höfum við verið að bíða eftir bönkunum, að þeir geri eitthvað í málunum? Er það ekki stjórnvalda og Seðlabankans að bregðast við?“ spurði hún.
Oddný telur að Íslendingar þurfi sjálfstæðar og óháðar greiðslulausnir sem séu bæði ódýrar og öruggar. Vísaði hún í grein sem hún skrifaði í fyrrasumar um „þessa alvarlegu stöðu“ en þar sagði hún að stjórnvöld og Seðlabanki Íslands þyrftu að gyrða sig í brók strax og þótt fyrr hefði verið og tryggja óháða, sjálfstæða fjármálainnviði, óháðar og ódýrar innlendar greiðslulausnir.
„Núna, um ári seinna, eru þau enn með allt niður um sig,“ sagði hún á þingi í dag.
Fyrirkomulag greiðslumiðlunar hér á landi gæti ógnað þjóðaröryggi
Oddný hóf ræðuna á því að rifja upp að árið 2019 hefði þáverandi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, skrifað þjóðaröryggisráði bréf um að fyrirkomulag greiðslumiðlunar hér á landi gæti ógnað þjóðaröryggi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði síðan upplýst í nóvember í fyrra í umræðum um skýrslu þjóðaröryggisráðs að ráðið hefði fengið Seðlabankann þrisvar sinnum á fund sinn til að ræða stöðu innlendrar greiðslumiðlunar.
Katrín sagði þá að það væri mat þjóðaröryggisráðs að lykilatriði til að tryggja fjármálaöryggi væri að til staðar væru innviðir til að tryggja innlenda greiðslumiðlun. Þann 28. september í fyrra áréttaði fjármálastöðugleikanefnd í yfirlýsingu sinni mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun til að tryggja rekstrarsamfellu, meðal annars með vísan til vaxandi netógnar.
Á kynningarfundi fjármálastöðugleikanefndar 15. mars síðastliðinn sagði Gunnar Jakobsson, staðgengill formanns nefndarinnar, að niðurstaða yrði að fást í málinu á næstu vikum eða óska ella eftir lagasetningu um málið, benti Oddný á.
Athugasemdir (3)