Það er oft svo einkennilegt hvað fangar athygli heildarinnar og hvað knýr fram hjá henni viðbragð. Einkennilegt í þeim skilningi að athyglissókn hugsana okkar laðast oft að því sem skiptir engu máli og þá sérstaklega engu máli fyrir siðferðisþroska heildarinnar. Símaskroll í klukkutíma á samfélagsmiðlum og vitræn aukning fjarar út á meðan áreitisþol, samkennd og eftirtekt á mikilvægum fréttum dofnar. Í marsmánuði virtist viðbragðsvaki íslensku þjóðarinnar vera símtöl Frosta Logasonar hlaðvarpsstjórnanda til stórfyrirtækja í Danmörku til að geta opinberað meintan ótrúverðugleika konu sem veitti fyrrverandi kærustu hans rými til þess að ræða upplifun sína af ofbeldi af hans hálfu. Fréttir birtust og kaffærðu fjölmiðlum. Allir gáfu álit. Sérfræðingar og sjálfskipaðir sérfræðingar tóku til máls og margir voru sammála um að lygar eða missagnir væru svo samfélagslega óboðlegar að endurheimt mannorðs væri með öllu ómögulegt. Yfir nótt varð möguleg þensla sjálfsmyndar konu úti í bæ orðin að lægsta siðferðisþröskuldi Íslandssögunnar.
Að setja mennskuna til hliðar og taka viðbjóðinn fram er val þegar kemur að öllum ummælum óháð rými. Þeir sem aðhyllast heildarmyndina og berjast gegn kerfisbundnu kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi álitu að ummælin sem féllu um konuna á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfi fréttaveitnanna væru siðuðu samfélagi til skammar. Ég hef síðustu ár verið að velta því fyrir mér hvort að við séum í raun siðað samfélag. Við virðumst vera samfélag sem er stútfullt af gremju í garð hvert annars og samfélag sem líður ekki manneskjulegt brölt sem eðlilegan undanfara velgengni. Ég fór að velta fyrir mér manneskjulegum breyskleika sálarinnar og sjálfsmynd okkar út á við. Ef að lygar, missagnir, oftúlkanir, mistúlkanir eða rangtúlkanir snúast um þenslu sjálfsmyndar sem búin er alvarlegri áfallasögu, þá voru viðbrögðin engan veginn í samræmi við syndina. Oftast er þensla sjálfsmyndar ákveðið viðbragð til að mæta aðstöðubundnu getuleysi og byggt á ótta fremur en ófyrirgefanleg synd. Ég hef þanið mig. Amma mín hefur þanið sig. Stjórnmálamennirnir okkar hafa þanið sig alla leið til Oxford og víðar. Allir hafa einhvern tímann þanið sig til að virka stærri í máli og mynd en þessi pistill er ekki um þenslu meðalmennskunnar.
„Að setja mennsku til hliðar og taka viðbjóðinn fram er val“
Skiptir máli hver hrasar?
Það sem ég hafði áhyggjur af í kjölfarið af þessari umræðu um Eddu og Frosta var hvort aðförin að henni í fjölmiðlum og fréttaveitum yrði nýtt sem aðför að trúverðugleika hennar sem hlaðvarpsstjórnanda og þeirra sem komið hafa fram í þáttunum hennar. Þeirra sem rætt hafa um ofbeldishegðun meintra mektarmanna og velt þungum steinum. Ég var líka hrædd um að umræðan og aftakan myndi afvegaleiða okkur frá því sem raunverulega skiptir máli. Það taldi ég vera óboðlegt en hugsanlega óhjákvæmilegt hér á landi þar sem sífellt er verið að ergjast út í þessar kolklikkuðu kuntur og neita margreyndum, gagnreyndum og sannreyndum staðreyndum varðandi tölfræði og kynbundið ofbeldi í íslensku samfélagi.
Ég fór að velta fyrir mér trúverðugleika þeirra sem eru ekki allra, þeirra sem þenja sig lítillega eða þeirra sem álpast inn í aðstæður sem reynast að lokum ekki burðugar. Hugur minn leitaði til Lækna-Tómasar. Maður á efri árum miðaldurs, menntaður og mikils metinn. Hann hefur bjargað lífum en hann var líka blekktur af ítalska lækninum Paolo Macchiarini sem þóttist geta baðað plastbarka með stofnfrumum, grætt í fólk og læknað. Plastbarkamálið varð að alþjóðlegu hneykslismáli. Það dó sjúklingur eftir þannig aðgerð hjá honum og svikin komust upp. Macchiarini falsaði niðurstöður rannsókna til að þenja sig út í hið óendanlega eins og hinir sjúklega sjálfhverfu gera. Rannsóknir hans urðu verðlausar og réttilega svo. Macchiarini var augljóslega bæði hættulegur og siðblindur. Lækna-Tómas var í samvinnu við þennan mann og var í kjölfarið orðaður við vísindalegt misferli og slæma læknisfræði. Lækna-Tómas missti hins vegar engan trúverðugleika í augum almennings. Það var ekki búin til dúkka af honum og hún brennd á báli. Hann varð ekki samfélagslega skipaður talsmaður allra lækna á Íslandi og læknastéttin í heild sinni hlaut ekki skaða. Þrátt fyrir alvarleika afleiðinganna var hann einungis tímabundið efni fjölmiðlanna. Hann upplifði líf sitt ekki í hættu og gat eftir ár snúið aftur á vinnustað sinn. Lækna-Tómas er augljóslega ekkert merkilegri en aðrir þegar kemur að því að hafa sig að fífli, þenja sig eða misstíga. Honum var hins vegar mætt með skilningi og samkennd samfélagsins. Í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar og ummæla í athugasemdakerfi fréttaveitnanna síðastliðinn marsmánuð er auðséð að samkennd og skilningur er ekki ætlaður öllum þeim sem gott gera en tapa gát.
Það sem gerðist á meðan við vorum að fylgjast með konu hrasa
Á meðan sjálfskipuðu sérfræðingarnir, þeir sem hata konur og þau sem upphefja geðþóttaskoðanir sínar á kostnað gagnreyndrar vísindaþekkingar voru að skrásetja fall konu, var ýmislegt annað að gerast sem hefði þurft á álíka athygli og fordæmingu að halda. Mikið og ítarlegt viðtal birtist í Heimildinni við foreldra níu ára stúlku sem sögðu dóttur sína hafa verið beitta kynferðisofbeldi af starfsmanni í Reykjadal þar sem starfræktar eru sumarbúðir fyrir fötluð börn. Foreldrarnir lýstu sínum versta degi, vanlíðan og angist þegar þau fengu símtalið frá Reykjadal þar sem starfsmaður greindi frá því hvað hefði komið fyrir. Ruku þau um leið til að sækja barnið. Þegar að sumarbúðunum kom mættu þau starfsmanni sem sagði þeim að framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, þeirra sem reka sumarbúðirnar, hefði ráðið starfsfólki Reykjadals frá því að hringja í lögreglu þegar upp komst um brot. Kunnuglegur fnykur af þöggun gerði vart við sig og foreldrarnir fundu sig knúna til að koma opinberlega fram til að velta einn einum steininum sem liggur þungur á baki þolanda. Foreldrarnir áttuðu sig á því á fundi sem þau sátu með framkvæmdastjóra Styrktarfélagsins og starfandi forstöðumanni Reykjadals að engir verkferlar né viðbragðsáætlum hafi verið til til að taka á svona málum. Enn og aftur virðist firring vera ráðandi í hugrænum ferlum manna þegar kemur að tilvist kynferðisafbrota í íslensku samfélagi. Þessi sjálfvalda firring, sinnuleysi gagnvart staðreyndum og upphöfnu geðþóttaskoðanir gera það að verkum að við erum tilbúin til að bregðast viðkvæmum hópum á borð við börn og fatlaða.
Annað sem var að gerast á tíma aftökunnar voru heimildarmyndaþættir dagskrárgerðarmannsins Þorsteins J. um meint kynferðisafbrot Skeggja Ásbjarnarsonar, kennara við Laugarnesskóla. Skeggi þótti á þeim tíma mektarmaður og kennari sem horft var upp til. Viðtölin í þáttunum tveimur leiddu hins vegar annað í ljós. Í þáttunum stigu margir fullorðnir menn fram og lýstu brotum Skeggja á hendur sér. Brotin virðast hafa fengið að gerast með öllu afleiðingalaust yfir nokkra áratugi. Þeim sem sögðu frá var refsað. Lýsingarnar mannanna á hegðun og brotum Skeggja voru viðbjóðslegar og til marks um einstakling sem var bæði siðblindur og mannkostaskertur með öllu. Ég horfði á þessa menn sem stigu fram með aðdáun og aðlaði þá í hljóði riddaratign hugrekkis í heimi þrútinna hrúta sem vilja valta yfir veruleika þeirra sem þeir telja sig yfir hafna. Feðraveldið skaðar nefnilega líka fullorðna menn. Skeggjamálið minnir óneitanlega á mál Jimmy Savile í Bretlandi. Sá maður var dáður og meira að segja aðlaður fyrir góðverk sín sem afvegaleiddu athygli fólks frá skuggahlið og skepnuskap hans. Sá maður braut á börnum yfir áratuga skeið og kom sér í stöður þar sem hann hafði bæði traust og vald. Hann var með vinsæla þætti í sjónvarpi og útvarpi. Skeggi var líka lengi með barnatímann í útvarpinu. Þeir virðast eiga það sameiginlegt, Jimmy og Skeggi, að margir virðast hafa vitað af meintum brotum þeirra en valið að aðhafast ekkert. Svo sterk er siðferðiskennd okkar þegar meintir mektarmenn sýna sitt rétta eðli. Þetta voru fréttirnar sem lutu lægra haldi í umræðunni og athyglinni í marsmánuði. Fordæming samfélagsins var á vitlausum stað.
„Margir virðast hafa vitað af meintum brotum. Svo sterk er siðferðiskennd okkar þegar meintir mektarmenn sýna sitt rétta eðli“
Hugsanaskekkjur fjöldans og sinnuleysi gagnvart staðreyndum
Á meðan æsifréttamennska og feðraveldið vill persónugera eina manneskju sem rödd baráttunnar til að auðveldara sé að skrásetja fall hennar þá neyðast kolklikkaðar kuntur af öllum kynjum til að halda áfram að tuða um tölfræði og skrifa og tala um kynbundið ofbeldi. Ísland er engin paradís þegar kemur að öryggi kvenna. Hvorki þeirra sem vilja hafa hátt eða þeirra sem vilja vera í friði. Við erum samfélag óréttmætra alhæfinga þegar kemur að þeim sem neita að horfast í augu við staðreyndir. Þegar kemur að tilvist kynferðisafbrota virðist eiga sér stað þrálát raunveruleikafirring í íslensku samfélagi. Góð og gild tölfræðigögn rökstyðja þessa fullyrðingu. Í tölfræðigagnagrunni EUROSTAT er að finna upplýsingar um efnisflokkaðar staðtölur um afbrot úr málaskrá evrópskra lögregluembætta. Þær upplýsingar gefa hugmynd um tíðni kynferðisbrota á Íslandi, í samanburði við önnur Norðurlönd og Evrópuríki. Þær tölur benda til þess að í það minnsta á árunum 2017-2019 hafi tíðni kynferðisafbrota hér á landi verið umtalsvert hærri í flestum öðrum ríkjum á Norðurlöndum, að Svíþjóð undanskilinni. Þetta er sláandi staðreynd, en þrátt fyrir það virðumst við eiga erfitt með að samþykkja að það séu gerendur á bak við alla þessa þolendur. Ég hvet forvitna, gerendameðvirka og röklausa til að lesa tölfræði EUROSTAT, sem og ársskýrslur Stígamóta, Bjarkarhlíðar og Kvennaathvarfsins. Einnig hvet ég fólk til að skoða heimasíður Rótarinnar, Aflsins, Heimilisfriðar og Taktu skrefið.
Lokaorð
Hvernig við tökumst á við óþægileika staðreynda varðandi kynferðisafbrot hér á landi er okkur til minnkunar. Samtakamáttur okkar þegar kemur að mörgu öðru er til fyrirmyndar. Við stóðum okkur t.d. vel í að sýna sameiginlega ábyrgð samfélagsins í Covid-faraldrinum og vorum fljót að koma auga á bullukollana og vísa þeim til föðurhúsanna. Við getum augljóslega beitt rökhyggju sem samfélag. Þegar kemur hins vegar að því að taka samfélagslega afstöðu með þolendum kynferðisafbrota og fordæma hegðun þeirra sem brotin fremja, fáum við falleinkunn.
Marsmánuður sýndi það greinilega og apríl tökum við fagnandi með því að verðlauna Klausturskall fyrir slæma hegðun með lögreglustjóraembætti. Gerendameðvirknin hér á landi er orðin eins og þykk þoka sem þolendur treysta sér margir ekki í gegnum og skiljanlega svo. Reiðin í þeirra garð fyrir að voga sér að benda á geranda sinn er áþreifanleg. Sér í lagi ef gerandinn er mektarmaður, afreksmaður eða söngvari. Aðstandendur gerenda bregðast oftar en ekki við ásökunum út frá viðbragði ótta eða reiði.
Báðar þessar tilfinningar hafa áhrif á blóðflæði til framheilans sem skerðir síðan dómgreind og tilfinningalegan stöðugleika. Í kjölfarið geta ásakanir, afvegaleiðing og hatur birst í máli og myndum. Ummælin á samfélagsmiðlum í marsmánuði lýsa bæði lélegri dómgreind og tilfinningalegum óstöðugleika samfélags okkar þegar kemur að því að ræða alvarleika og afleiðingar kynferðisafbrota. Það vill enginn þekkja nauðgara og margir eru tilbúnir til að ganga svo langt að afneita sársauka barna til þess eins að heimsmynd þeirra skekkist ekki. Þættirnir um Skeggjamálið staðfesta það og álíka staðreyndarfælni er ógn við réttlátt samfélag. Staðfestingarskekkjan er ráðandi í viðhorfum illa upplýstra gagnvart tilvist og tíðni kynferðisafbrota á Íslandi. Við leitum eftir staðfestingum á geðþóttaskoðunum okkar og sniðgöngum sérfræðinga í málaflokknum og staðreyndir. Það er sálarheill samfélaga hættuleg. Sumir gætu talið að þessi pistill sé heldur til svartsýnn og vegi að kjarnagildum samfélagsins okkar en er ekki tilvalið að endurskoða viðhorf okkar og gildi þegar við bersýnilega missum sífellt athygli okkar í átt að því sem skiptir engu máli og látum umfjöllun um áratuga þöggun og sinnuleysi gegn börnum framhjá okkur flæða?
Athugasemdir (2)