Á alþjóðavettvangi sætir kolefnisjöfnun (e. carbon offsetting) vaxandi gagnrýni, þ.e. verndun regnskóga, nýskógrækt eða endurheimt vistkerfa. Einkum eru gerðar athugasemdir við áreiðanleika vottunar á kolefnisjöfnun, sem veldur því að fyrirtæki, jafnvel stjórnvöld, geti verið að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Fjölmiðlarnir The Guardian og Die Zeit, efnisveitan Source Material birtu nýverið greinar þar sem sýnt er fram á að þau gögn sem hið virta vottunarfyrirtæki Verra byggir á standist ekki skoðun. Þar með væru kaup þekktra fyrirtækja á borð við Disney, United Airlines, Air France, Samsung, Liverpool Football Club, Ben & Jerry’s, Netflix and Chevron og fleiri einskis virði. Þessar aðfarir gætu jafnvel valdið enn frekari hækkun á hitastigi Jarðar.
Rannsókn Guardian, Die Zeit og Resource Material stóð yfir í níu mánuði. Þau gögn sem Verra byggir útreikninga sína á reyndust mjög gölluð.
Vert er að taka fram að Verra, sem hefur aðsetur í Washington DC, eru félagasamtök sem teljast vera fremst í flokki í heiminum við að votta jöfnun kolefnis. Samtökin hafa vottað meira en milljarð kolefnisjöfnunarheimilda. Heimildir (e. carbon credits) eru taldar í kolefniseiningum sem jafngilda 1 tonni af CO2-ígildum.
Talið er að 90% af kolefnisjöfnunarheimildum sem Verra hefur vottað fyrir verndun regnskóga séu í raun „falskar heimildir“ og feli ekki í sér raunverulega kolefnisjöfnun. Aðeins örfá regnskógaverkefni Verra sýndu merki um minnkandi skógareyðingu og allt að 94% af heimildunum koma ekki að neinu gagni í þeirri viðleitni að stöðva loftslagsbreytingar (takmarka hækkun hitastigs Jarðar við 1,5 °C samkvæmt Parísarsamkomulaginu).
Sala kolefniseininga getur verið mjög ábatasöm. Til dæmis kostar 1 tonn af CO2-ígildum hátt í hundrað evrur innan evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir.
Ólíkt mat vísindamanna
The Guardian leitaði til þriggja þekktra vísindamanna um álit þeirra. Johan Rockström er forstöðumaður Loftslagsstofnunarinnar í Potsdam (Potsdam-Institut für Klimafolgenforchung) og einn úr hópi þeirra vísindamanna sem skilgreint hafa þolmörk Jarðar (e. Planetary boundaries). Hann telur kolefnisjöfnun mikils virði en einungis ef þau fyrirtæki sem kaupi heimildir til kolefnisjöfnunar dragi úr losun sinni um að minnsta kosti helming á hverjum áratug frá þessu ári fram til ársins 2050.
Rockström, sem sjálfur leiðir fjölda verkefna sem snúa að kolefnisbindingu, ítrekar þó að vel skilgreind kolefnisjöfnun stuðli að auknum fjárframlögum til uppgræðslustarfa og verndunar vistkerfa. Aðgerðir fyrirtækja til kolefnisjöfnunar eru því ekki eingöngu nauðsynlegar til að takmarka hlýnun Jarðar við 1,5 °C heldur einnig mikilvægar fyrir líffræðilegan fjölbreytileika og stöðugleika, sem er undirstaða tilveru okkar.
Simon Lewis, prófessor á sviði umhverfisbreytinga við University College of London, tekur í sama streng og Rockström og segir að vissulega geti kolefnisjöfnun skilað árangri, en eingöngu ef aðferðirnar standast strangar kröfur. Markaður fyrir kaup og sölu á kolefniseiningum líður fyrir það hvað forsendur jöfnunar eru óljósar; við kaup og sölu er ekki ljóst hvort jöfnunaraðferðirnar hafa raunverulega jákvæð áhrif. Lewis líkir markaði fyrir kolefnisjöfnun við villta vestrið og kallar á breytingar.
Kevin Anderson er prófessor í loftslagsbreytingum og orkumálum við Háskólann í Manchester. Hann gengur skrefinu lengra og telur kolefnisjöfnun beinlínis hættulega, þar eð slíkar aðgerðir geti verið verri en að aðhafast ekkert. Hann telur kolefnisjöfnun valda afturkastsáhrifum ‒ á ensku rebound-effect. Kolefnisjöfnun dragi úr hvata til að draga úr losun, og ýti undir áframhald starfsemi sem veldur mikilli losun.
Dæmi: Isavia fjárfestir í sífellt meiri og stærri mannvirkjum til að anna aukinni eftirspurn eftir flugi ‒ enda hafi flugfélögin kolefnisjafnað starfsemi sína.
Annað vandamál eru að mati Andersons ólíkir tímarammar á milli kolefnislosunar annars vegar og áhrifa kolefnisjöfnunar hins vegar. Í hvert sinn sem flogið er streymir koltvísýringur út í andrúmsloftið sem er langlíf gróðurhúsalofttegund. En nýskógrækt til að binda sama magn kolefnis og flugið veldur tekur áratugi.
Staðan á Íslandi
Árið 1996 ákvað ríkisstjórnin að verja 450 milljónum til skógræktar fram til aldamóta í því skyni að aldamótaárið yrði árleg binding koltvísýrings 100.000 tonn. Aðgerðir til að draga úr losun sátu þó á hakanum, allt þar til aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var kynnt sumarið 2020.
Hvað segja lögin?
Í apríl 2020 voru samþykktar breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld á þann veg að frádráttur var tvöfaldaður vegna framlaga „til aðgerða sem stuðla eiga að kolefnisjöfnun, svo sem aðgerða í rekstri til kolefnisjöfnunar, sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis.“
Enn hefur ekki komið í ljós hvers virði þessar frádráttarheimildirnar eru, enda skammt um liðið og mat skattayfirvalda liggur ekki fyrir. Spurningin er hvort skattafsláttur verði veittur fyrir þá krónutölu sem fyrirtæki fjárfestir í bindingu kolefnis (nafnvirði) eða fyrir raunverulega bindingu kolefnis með skógrækt sem tekur áratugi (raunvirði).
Orðalagið stuðla að kolefnisjöfnun í lögunum endurspeglar þá staðreynd að jöfnunin á sér ekki stað á framtalsárinu. Að kolefnisjafna sig gerist ekki í einu vetfangi heldur yfir langan tíma. Löggjafinn virðist ekki hafa rannsakað eða meðtekið þessa hlið mála.
Áform Síldarvinnslunar á Neskaupstað um skógrækt í Fannardal jafna ekki þá losun sem veiðar og vinnsla fyrirtækisins valda árið 2023, 2024 eða frá 2023 til 2030. Í besta falli er fyrirtækið að stuðla að kolefnisjöfnun langt fram í tímann þannig að árangur fari að sjást kringum 2070.
Í lögum um loftslagsmál segir að kolefnisjöfnun sé það að „aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun að hluta eða öllu leyti“.
Ekkert segir um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að hægt sé að taka meinta kolefnisjöfnun gilda til staðfestingar á samdrætti og/eða bindingu kolefnis.
Einnig skortir lagalega skilgreiningu á þeirri vöru sem kolefnisjöfnunin framleiðir fyrir innlendan og/eða erlendan markað, þ.e. kolefniseiningar. Verð vörunnar ræðst af eftirspurn en ekki síður af því að kaupendur geti treyst á að keyptar kolefniseiningar hafi sannanlega dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda eða bundið kolefni í gróðri eða með öðrum varanlegum hætti.
Grænþvottur á Íslandi
Í fyrra sendi Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, ítarlegt erindi til Icelandair vegna sölu fyrirtækisins á kolefnisjöfnun til viðskiptavina sinna. Taldi hann að sú kolefnisjöfnun sem Icelandair býður upp á stæðist ekki skoðun. Ekki er kunnugt um að svar hafi borist frá Icelandair. Hér má einnig benda á grein eftir Sigfús Bjarnason sem birtist á vefsíðu Vina íslenskrar náttúru (Vín) um grænþvott.
Vandinn við kolefnisjöfnun
Sá vandi sem framleiðendur og kaupendur kolefniseininga hér á landi standa frammi fyrir endurspeglast í þingsályktunartillögu Líneikar Önnu Sævarsdóttur o.fl. frá 6. mars. Þar segir:
„Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra, í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að taka saman upplýsingar og skýra verklag við skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi sem umráðamenn lands þurfa að taka tillit til þegar þeir selja kolefniseiningar eða nýta þær til kolefnisjöfnunar í eigin rekstri.“
Þingmenn virðast koma að tómum kofum. Málið hefur ekki enn komist á dagskrá Alþingis. Telja má víst að matvælaráðherra sé nokkur vandi á höndum. Iðulega hefur Skógrækt ríkisins svarað fyrirspurnum um þessi mál fyrir hönd ráðherra en þá er Skógræktin beggja vegna borðsins. Vandinn eykst enn vegna vaxandi krafna Loftslagssamningsins og Evrópusambandsins um áreiðanlegt verklag við skráningu og bókhald kolefnisbindingar. Ennfremur, Evrópusambandið vinnur nú að reglum til að koma í veg fyrir grænþvott.
Í upplýsingabæklingi umhverfisráðherra, Loftslagsvá: Stærsta áskorun samtímans – staðan nú og næstu skref (gefin fyrir umhverfisþing í apríl 2021) segir í kaflanum „Landnotkun og skógrækt – losun og kolefnisbinding“:
„Tiltölulega auðvelt er að mæla losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum frá bruna jarðefnaeldsneytis, iðnferlum og öðrum uppsprettum. Mun erfiðara er að mæla kolefnisbúskap á landi og að aðskilja náttúrulega ferla og áhrif mannsins vegna landnotkunar. Af þessum sökum er losunarbókhald og markmið sem tengist landnotkun yfirleitt aðskilið frá öðrum þáttum.“
Stjórnvöld komi skikki á kolefnisbókhaldið
Af þeim skýrslum sem finna má á vefsetri umhverfis-‚ orku- og loftslagsráðuneytisins má ráða að kolefnisjafnan gangi ekki upp; að ekki séu áreiðanlegar mælistikur um kolefnisjöfnun fyrir hendi til notkunar við íslenskar aðstæður. Á sama tíma og kolefnisbókhaldið hér á landi hefur enn ekki verið fært með faglegum og áreiðanlegum hætti eykst losun gróðurhúsalofttegunda. Það er efni í aðra grein.
Draga úr losun er fyrsta vers
Meðan staðan er þessi er óábyrgt af hálfu stjórnvalda og forstöðumanna fyrirtækja að láta eins og kolefnisjöfnun sé prýðilegur valkostur við samdrátt í losun. Um þessar mundir virðist margs konar kolefnisjöfnunarstarfsemi á landinu raunar vera einhvers konar Pótemkín-tjöld ‒ að stjórnmálamenn, en ekki síður leiðtogar í atvinnulífi og ýmsum félagasamtökum, séu á flótta undan þeim einu aðgerðum sem sannarlega duga í glímunni við loftslagsvandann: Að draga úr losun.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Athugasemdir (2)