Forstjóri norska laxeldisfyrirtækisins Mowi, sem eignaðist meirihluta í Arctic Fish á Ísafirði í fyrra, segir að aukinn skattlagning á þessa iðngrein dragi úr möguleikunum á sjálfbærara laxeldi til framtíðar. Aukin skattlagning norsku ríkisstjórnarinnar á laxeldisiðnaðinn hefur verið harðlega gagnrýnd af norsku laxeldisfyrirtækjunum síðastliðna mánuði.
„Við munum að sjálfsögðu gera meira til að verða sjálfbærari, en til þess að geta gert þetta þá þurfum við peninga til að geta fjárfest“
Forstjórinn, Ivan Vindheim, segir að með aukinni skattlagningu á greinina þá verði ekki til peningar til að gera sjókvíaeldi á laxi sjálfbærara. „Við munum að sjálfsögðu gera meira til að verða sjálfbærari, en til þess að geta gert það þá þurfum við peninga til að geta fjárfest [...] Með þessari tillögu þá verður ekki neinn meiri peningur til,“ sagði hann í viðtali við sjávarútvegsblaðið Intrafish og ýjaði því að aukin skattlagning kæmi í veg fyrir aukna framrþróun í greininni.
Segir vandamál laxeldisins að gróðinn sé of mikill
Þessi ummæli Vindheims vöktu nokkra athygli og sagði blaðamaður Intrafish meðal annars um þau að vandamál laxeldisfyrirtækjanna væru að þau ættu einfaldlega of mikla peninga til auðvelt væri að kaupa röksemdir þeirra. „Laxeldisfyrirtækin eiga við vandamál að stríða: Þau græða of mikla peninga.“
Íslenskt laxeldi er að stóru leyti í eigu norskra laxeldisfyrirtækja en auk eignarhalds Mowi á Arctic Fish þá á laxeldisrisinn Salmar AS meirihluta í Arnarlaxi á Bíldudal og laxeldisfyrirtækið Måsøval á stóran hlut í Ice Fish Farm á Austfjörðum. Umræðan um skatta á laxeldið í Noregi tengist því íslensku laxeldi þar sem eignarhaldið liggur þar í landi að stóru leyti.
Hagnaður þessara fyrirtækja er ævintýralegur og græddi Mowi meðal annars 239 milljónir evra í fyrra, rúma 36 milljarða, og jókst hagnaðurinn um 64 prósent á milli ára. Um var að ræða fyrsta árið sem tekjur Mowi fóru yfir einn milljarð evra.
Þá hefur Salmar greitt út meira en 30 milljarða króna í arð á ári síðastlin ár.
Unnið að fjárfestingum í sjálfbærari lausnum
Með orðum sínum um að laxeldisfyrirtækin séu að vinna að því að gera laxeldi sjálfbærara á Ivan Vindheim við að samtímis og þau reka sjókvíar í fjörðum landa eins og Noregs, Skotlands og Íslands þá setja þau mikla peninga í fjárfestingar sínar í sjálfbærari lausnum í lausnum í laxeldi. Þannig eru þessi fyrirtæki að nota hagnaðinn úr sjókvíaeldinu til að þróa úthafseldi þar sem stórum kvíum verður komið fyrir fjær fjörðum og ströndum landa. Stæstu umhverfisvandamálin við sjókvíaeldið snúast um nálægðina við villta laxastofna í ám ríkja og mögulega erfðablöndun við þá sem og úrgangsmengun frá sjókvíum sem sest á botn fjarða þar sem hafstraumar eru ekki sterkir auk meðal annars sjónmengunar.
Salmar er meðal annars að þróa aflandseldislausnir í félagi við einn ríkasta mann Noregs, Kjell Inge Rökke. Þá hefur stjórnarformaður Arnarlax á Íslandi, Kjartan Ólafsson, einnig fjárfest í þróunarverkefni um aflandsseldi hér á landi.
Samkvæmt röksemdafærslu forstjóra Mowi er staðan því sú að ekki sé við hæfi að skattleggja sjókvíaeldisfyrirtækin um of þar sem slík gjaldtaka komi í veg fyrir möguleika þeirra til að þróa sjálfbærari lausnir en sjókvíaeldi í fjörðum. Miðað við þessi orð, sem og fjárfestingar laxeldisfyrirtækjanna í aflandseldi, þá vita fyrirtækin að sjókvíaeldi er ekki fiskeldi framtíðarinnar vegna umhverfisáhrifa þess. Raunar hefur fyrrverandi stjórnarformaður Salmar, Atle Eide, sagt að sjókvíaeldi verði ekki lengur stundað, í þeirri mynd sem við þekkjum, árið 2030.
Samfylkingin þarf að taka völdin.