Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins fjallaði um strandveiðar í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í síðustu viku.
Þar gagnrýndi hún frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um breytingar á strandveiðum þar sem lagt er til að hverfa til fyrirkomulags sem var fyrir árið 2018, þ.e. að aflaheimildum sem ráðstafað er til strandveiða verði skipt upp í fjögur landsvæði. Í frumvarpinu segir að með fyrirhugaðri lagasetningu sé áformað að auka jafnræði milli landsvæða.
Auk þess er lagt upp með að aflaheimildir hvers landsvæðis og tímabils geti verið færanlegar yfir næsta tímabil innan fiskveiðiársins sem þýðir að hvert svæði getur fært ónýttar aflaheimildir yfir á næsta mánuð sem ekki tókst að ná á land í þeim mánuði sem liðinn er.
Ekki „í takti“ að koma með frumvarpið núna
Halla Signý sagði í ræðu sinni að með frumvarpinu væri verið að hverfa til fyrra horfs sem ylli í raun meiri misskiptingu milli landsvæða en núverandi kerfi byði upp á.
„Ekki er útfært í frumvarpinu hvernig aflaheimildum verði skipt milli landsvæða né hvaða aðferðum verði beitt við að reikna það út. Erfitt getur reynst að finna út hvaða magn á að fara inn á hvert svæði. Áður en breytt var úr skiptingu yfir í einn pott gat mismunur á milli svæða verið frá sex dögum en á öðrum 20 dagar og kapphlaupið á miðin hefst með ófyrirsjáanlegum afleiðingum,“ sagði þingmaðurinn.
Þá nefndi hún að matvælaráðherra hefði skipað samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu sem hefði ekki lokið vinnu sinni og því telur Halla Signý ekki í takti núna að koma með þetta frumvarp á meðan sú vinna stendur yfir.
„Að vori er sumarið framundan í strandveiðinni í óvissu. Ytri aðstæður er lítt hægt að festa í lög. Veðurfar, gæftir og fiskgengd væri gott að geta stýrt en það er ekki í boði. Nú ætti að vera að hefjast sjötta sumarið eftir að þessar breytingar voru gerðar. Því væri farsælast að í haust yrði tekið út hvernig þetta hafi tekist og hvað betur mætti fara í stað þess að rykkja í bakkgírinn án þess að stíga á kúplinguna,“ sagði hún og lauk ræðu sinni á orðunum: „Það er verið að taka áhættu með markmið kerfisins og því er stefnt í hættu.“
Athugasemdir (1)