Búið er að rýma tugi húsa í Mýrahverfi og Bakkahverfi í Neskaupstað eftir að snjóflóð féllu á bæinn í morgun. Annað flóðið lenti á íbúðarhúsi og olli skemmdum en meiðsl á fólki eru ekki alvarleg. Opnuð hefur verið fjöldahjálparstöð í Egilsbúð og eru tugir fólks komin þangað, börn og fullorðnir.
Oddný Lind Björnsdóttir er ein þeirra sem var ferjuð í Egilsbúð ásamt fjölskyldu sinni, Andra Snæ Þorsteinssyni manni hennar og sonunum Hlyni Frey, sjö ára, og Breka Erni, tveggja ára. Þá var Hafrún Katla Aradóttir systir Oddýjar einnig á heimilinu. Oddný og fjölskylda hennar búa á Gilsbakka, sem er ysta gatan í Neskaupstað sem var rýmd. „Við fengum upplýsingar um að það ætti að rýma götuna og biðum svo bara eftir björgunarsveitinni sem gekk í hús og lét vita þegar það var tilbúinn bíll fyrir utan. Við vorum fimm heima og svo flúðu nágrannarnir yfir til okkar til að fá pottþétt að fara líka. Þau búa í næstu götu og það átti ekki að rýma hana, í það minnsta ekki strax. Húsið þeirra er í raun hálft inni á rýmingarsvæðinu. Þau vildu bara fara og komu þess vegna yfir til okkar.“
„Skaflinn fyrir stofuglugganum hjá okkur, hann er svona tveir metrar plús“
Oddný segir að þeim hafi borist sms-skilaboð frá Almannavörnum og Neyðarlínunni, með upplýsingum um stöðuna og um að rýma ætti götuna. „Svo sér maður ansi margt á Facebook, og í fréttum. Maður finnur upplýsingar næstum því hvert sem maður leitar. Við vöknuðum rétt fyrir sjö og upp úr því fóru að koma skilaboð um að það væri ekki leikskóli eða skóli. Þá fórum við að líta út um gluggann en það var reyndar hægara sagt en gert. Skaflinn fyrir stofuglugganum hjá okkur, hann er svona tveir metrar plús. Þetta er rosalega mikill snjór. Ég var að koma heim úr vinnunni klukkan hálftólf í gærkvöldi og þá var ég á strigaskóm. Ég varð ekki blaut í fæturnar þá, þó það væri kominn snjór. Það er mikill skafrenningur og það dregur í þykka og mikla skafla.“
Vita ekki hvenær þau geta snúið heim
Oddný segir að það sé mjög margt fólk saman komið í fjöldahjálparstöðinni í félagsheimilinu Egilsbúð, börn og fullorðnir í tugatali. Boðið sé upp á morgunverð, brauð og álegg og barnamat. Spurð hvernig synir hennar taki stöðu mála segir Oddný að sá yngri skilji ekki hvað sé um að vera. „Litli maðurinn, þessi tveggja ára, hann vildi bara fara út að leika. Hann skilur ekki neitt í neinu, og vill fá að fara út. Við erum að labba á eftir honum upp og niður tröppur í Egilsbúð og reyna að hafa ofan af fyrir honum. Sá eldri hafði meiri áhyggjur af því að það yrði að taka dótið sem honum þykir vænt um úr húsinu, ef það skyldi koma flóð. Það var fyrst og fremst koddinn og teppið úr sófanum því honum þykir svo vænt um það, það er svo gott að kúra þar. Hann gerir sér alveg grein fyrir því hvað um er að vera.“
Oddný segir að þau viti í raun ekki hvað taki við, hversu lengi rýming muni standa og hvenær þau hafi geti snúið aftur heim. Þau hafi ætlað að fara yfir í hús móður hennar og stjúpföður sem stendur efst í bænum, undir varnargarði, en hins vegar hafi verið tekin ákvörðun um að rýma efstu húsin í bænum einnig. „Það hefði verið mjög þægilegt að fara þangað með börnin.“
Athugasemdir