Innflutningsfyrirtæki Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, Mar textil ehf., féll brott úr hagsmunaskráningu þingsins vorið 2021 vegna villu í kerfisbúnaði. Þetta kemur fram í svörum frá skrifstofu Alþingis við fyrirspurn Heimildarinnar.
Nokkra athygli vakti þegar Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata spurði ráðherrann út í fyrirtækið og líkbrennslumál á Alþingi fyrr í mánuðinum.
Hún spurði hann út í rekstur fyrirtækisins en það selur meðal annars líkkistur. Ástæður spurninganna varðandi fyrirtækið voru umræður um líkbrennslumál en eins og komið hefur fram í fréttum leitast sjálfseignarstofnunin Tré lífsins eftir því að reka bálstofu og taka við af Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma þar sem líkbrennsluofn þeirra er orðinn gamall. Í framhaldinu spunnust upp vangaveltur um hæfi ráðherra í málaflokknum þar sem hann og eiginkona hans reka fyrrnefnt fyrirtæki sem flytur inn líkkistur.
Telur ekki um hagsmunaárekstur að ræða
Jón sagði við Heimildina að það hefði aldrei verið neitt leyndarmál að hann og eiginkona hans hefðu verið í 37 eða 38 ár í rekstri. Hann hefði sjálfur fengið þau svör frá þinginu að um mistök hefði verið að ræða varðandi hagsmunaskráninguna.
„Ég gerði strax grein fyrir þessu við þetta ráðuneyti að ef eitthvað kæmi upp varðandi útfararstofur og slíkt þá ætti ég ákveðinna hagsmuna að því – því það er miklu nærtækara að koma með rekstur útfararstofa og ég gerði strax grein fyrir því að ef eitthvað slíkt kæmi upp þá væru þetta hagsmunir mínir í því samhengi. Ég gerði ráðuneytisstjóranum grein fyrir því á sínum tíma en að öðru leyti skarast þetta ekkert á við einhverjar líkbrennsluhugmyndir Trés lífsins,“ sagði hann.
Óþekktur galli veldur því að dómsmálaráðherra getur ekki lagfært hagsmunaskráningu sína
Nokkurs misræmis gætir í hagsmunaskráningu Jóns, annars vegar sem þingmanns og hins vegar sem ráðherra. Fyrirtækið Mar textil ehf. er á hagsmunaskráningu hans sem ráðherra og hefur verið síðan maí 2022.
Í svörum skrifstofu Alþingis kemur fram að haustið 2022 hafi skrifstofan tekið upp nýtt kerfi við hagsmunaskráningu. „Í hina eldra kerfi var ekki haldið utan um með hvaða hætti skráningar breyttust þegar þingmenn uppfærðu upplýsingar, þ.e. hvort þær væru teknar út af viðkomandi þingmanni eða hvort þær hefðu fallið brott af öðrum ástæðum. Einungis birtist skráning upplýsinga eins og hún stóð hverju sinni.
Ráðherrar höfðu sérstakt viðmót til að uppfæra hagsmunaskráningu sína, þar sem þeir höfðu ekki aðgang að viðmóti þingmanna nema vera á þingsvæðinu. Við skoðun okkar á kerfunum vegna þessa máls hefur komið í ljós sá galli á ráðherraútgáfu kerfisins að dálkurinn um tekjumyndandi starfsemi birti ekki fyrri skráningu þegar gerðar voru breytingar á hagsmunaskráningu. Upplýsingarnar um Mar textil ehf. hafa því fallið brott vegna villu í kerfisbúnaði,“ segir í svarinu.
Jafnframt kemur fram að í nýja kerfinu geti notendur auðkennt sig með rafrænum skilríkjum en óþekktur galli valdi því að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafi ekki getað lagfært hagsmunaskráningu sína en unnið sé að því að finna lausn á því vandamáli.
Í yfirliti yfir hagsmunaskráningar Jóns Gunnarssonar í eldra kerfi má sjá að þann 16. júní 2009 var beiðni um hagsmunaskráningu móttekin hjá skrifstofu Alþingis og þar tiltekið:
- Mar-textil ehf. er skráð undir tekjumyndandi starfsemi,
- Sumarhús og land á Syðri-Brú er skráð undir fasteignir,
- Formaður björgunarmiðstöðvar, formaður Sjávarnytja, í stjórn Slysavarnaskóla sjómanna og Björgunarbátasjóðs er skráð undir trúnaðarstörf.
Þann 19. maí 2021 var beiðni um breytingu á hagsmunaskráningu móttekin hjá skrifstofu Alþingis og skráning á Mar-textil ehf. féll brott úr dálkinum tekjumyndandi starfsemi vegna villu í kerfisbúnaði. Í hagsmunaskráningunni voru gerðar breytingar og felld brott skráning á formennsku björgunarmiðstöðvar, stjórnarsetu í Slysavarnaskóla sjómanna og Björgunarbátasjóði sem skráð var undir trúnaðarstörf auk þess sem Icelandair og Brim var skráð undir hlutafé:
- Sumarhús og land á Syðri-Brú skrá undir fasteignir,
- Icelandair og Brim bætast við undir hlutafé,
- Formaður félagsins Sjávarnytja skráð undir trúnaðarstörf.
Þann 1. desember 2021 var beiðni um uppfærða hagsmunaskráningu móttekin hjá skrifstofu Alþingis þar sem skráð var undir hlutafé Síldarvinnslan og Íslandsbanki:
- Sumarhús og land á Syðri-Brú skráð undir fasteignir,
- Icelandair, Brim, Síldarvinnslan og Íslandsbanki skráð undir hlutafé,
- Formaður félagsins Sjávarnytja skráð undir trúnaðarstörf.
Athugasemd frá skrifstofu Alþingis 24. mars: Skráningin féll brott í gamla kerfinu vegna galla í ráðherrautgáfu en ráðherra hefur ekki getað lagfært skráninguna vegna galla í ráðherraútgáfu nýja kerfisins.
Kennum tölvunni I'm.