Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Jón og líkkisturnar – „Einhver misskilningur í gangi í þessum málum“

Dóms­mála­ráð­herra hef­ur ver­ið gagn­rýnd­ur fyr­ir að­komu sína í lík­brennslu­mál­um þar sem hann og eig­in­kona hans eiga inn­flutn­ings­fyr­ir­tæki sem flyt­ur m.a. inn lík­kist­ur. Hann seg­ir að margt sé gert til að gera fólk tor­tryggi­legt í póli­tík og þetta sé eitt af því. For­svars­kona Trés lífs­ins hef­ur um nokk­urt skeið bar­ist fyr­ir því að geta kom­ið á fót nýrri lík­brennslu en hún seg­ir að margt hafi ver­ið und­ar­legt í ferl­inu.

Jón og líkkisturnar – „Einhver misskilningur í gangi í þessum málum“
Ríkið mun ekki koma að uppbyggingu nýrrar bálstofu Engar hugmyndir eru um það að ríkið komi að uppbyggingu nýrrar bálstofu, segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra en hann hefur verið gagnrýndur fyrir aðkomu að málefnum er varða líkbrennslu vegna innflutningsfyrirtækis hans og konu hans. Hann segir við Heimildina að pólitíkin sé „eins og hún er“ og reynt sé að gera menn tortryggilega þegar menn eru í þessari stöðu eins og hann. „Það er ósmekklegt – og þið haldið því kannski áfram ef þið viljið en þú metur það. En þetta hefur einfaldlega enga tengingu.“ Mynd: Stundin / Davíð Þór

„Það hefur aldrei verið neitt leyndarmál að ég og konan mín höfum verið í 37 eða 38 ár í rekstri. Ég hef nú bara verið 16 ár á þingi, sko.“ Þetta segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í samtali við Heimildina þegar hann er spurður út í hagsmunaskráningu hans á Alþingisvefnum en nokkur styr hefur staðið um málið undanfarna daga eftir að Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata spurði hann út í málið á Alþingi í síðustu viku. 

Dómsmálaráðherra á 100 prósent í innflutnings- og smásölufyrirtækinu Mar textil. Margrét Halla Ragnarsdóttir, eiginkona ráðherrans, rekur fyrirtækið en það flytur meðal annars inn líkkistur. Fyrirtækið er skráð á hagsmunaskrá Jóns sem ráðherra en ekki sem þingmanns. Ráðherrann segir í samtali við Heimildina að fyrirtækið hafi alltaf verið á þingmannaskránni en einhverra hluta vegna hafi það dottið út í maí 2021. Þær upplýsingar fékk hann frá þinginu í síðustu viku. „Það er nú enn verði að bíða eftir því að ég komist inn á skráninguna til að leiðrétta þetta en það eru einhverjar error-meldingar sem þau fá alltaf.“ Þannig sé það í vinnslu að lagfæra skráninguna. 

Ástæðan fyrir því að hagsmunaskráning ráðherrans hefur verið gagnrýnd er aðkoma hans og ráðuneytis hans í líkbrennslumálum og sitt sýnist hverjum um það hvort ráðherrann eigi hagsmuni að gæta þar. 

Heildarkostnaður við að byggja og reka nýja brennsluofna metinn á 1,2 milljarða króna

Arndís Anna bryddaði upp á málinu í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í síðustu viku. Hún hóf fyrirspurn sína á því að vísa í fréttir þess efnis að dómsmálaráðherra hefði átt í viðræðum við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma (KGRP) um byggingu og rekstur nýrrar bálstofu. 

„Bálstofan sem nú er í notkun er komin til ára sinna og þörf á endurnýjun. Svo virðist sem ákvörðun um að hefja viðræður við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma hafi verið tekin án nokkurrar umræðu um málið og hefur það ekki verið lagt í samráðsgátt stjórnvalda. Hefur þetta vakið upp spurningar þar sem Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma eru ekki eini aðilinn sem sóst hefur eftir byggingu nýrrar bálstofu hér á landi. Engar skýringar hafa hins vegar verið gefnar á ákvörðun ráðuneytisins aðrar en þær að ráðuneytið telji ekki tilefni til að gera breytingar á samkomulagi sínu við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma að sinni,“ sagði hún. 

Vísaði hún enn fremur í skýrslu kirkjugarðaráðs frá 2021 en þar segir að á fundi í dómsmálaráðuneytinu í mars 2021 hafi komið fram að framkvæmdastjórn og forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma teldu fjárhagslega útilokað að þau gætu tekið að sér að byggja og reka nýja bálstofu sem lagt hefur verið til að rísi á Hallsholti. Heildarkostnaður við framkvæmdina og nýja brennsluofna var metinn á 1,2 milljarða króna. 

Einungis pláss fyrir eina bálstofu á Íslandi

Arndís Anna benti aftur á móti á að nýr óháður valkostur hefði orðið til á síðustu árum. „Tré lífsins, frumkvöðlaverkefni sem sópað hefur að sér nýsköpunarverðlaunum og viðurkenningum og hefur þegar tryggt sér bróðurpart þeirrar fjármögnunar sem verkefnið krefst, er sjálfseignarstofnun sem ekki er rekin í hagnaðarskyni og hyggst reisa bálstofu með athafnasal og kyrrðarrými í Rjúpnadal í Garðabæ. Tré lífsins er óháð öllum trúar- og lífsskoðunarfélögum og mun vera opið öllum óháð trú, trúleysi eða lífsskoðun. Fyrir liggur að einungis er pláss fyrir eina bálstofu hér á landi. Kostnaðarmat á nýrri bálstofu í Hallsholti er sem fyrr segir 1,2 milljarðar samkvæmt skýrslu kirkjugarðaráðs. Á sama tíma liggur fyrir að fjárþörf Trés lífsins er 500 milljónir króna,“ sagði hún. 

Umræður um bálfaramálArndís Anna spurði dómsmálaráðherra út í bálfaramál á Alþingi í síðustu viku.

Arndís Anna spurði ráðherrann hvort það væri rétt skilið að kostur Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma væri mun kostnaðarsamari fyrir ríkissjóð. „Ef svo er, hvers vegna kýs dómsmálaráðuneytið þann valmöguleika án nokkurrar umræðu um málið?“ spurði hún. 

Misskilningur að ráðherrann væri í viðræðum við KGRP

Jón svaraði og sagði að það væri nú einhver misskilningur í gangi í þessum málum, þ.e. að hann hefði hafið viðræður við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis um að byggja nýtt húsnæði fyrir bálstofu. 

„Það eru engar slíkar viðræður í gangi, bara svo það sé alveg á hreinu. Það er ágætisstaða í sjálfu sér á bálförum í dag. Það er auðvitað mikil aukning sem á sér stað þar sem bálfarir koma við útfarir sem nemur tugum prósenta. Á höfuðborgarsvæðinu liggur það sennilega orðið einhvers staðar í kringum 60 til 70 prósent af heildarútgjöldum þar sem eru bálfarir en því er annað ágætlega með þeirri þjónustu sem er til staðar í dag. Rekstrarleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á þeirri bálstofu sem nú er í rekstri er til ársins 2032. 

Það liggur fyrir að ofnarnir eru orðnir gamlir, það þarf að endurnýja þá og ég geri ráð fyrir því að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæmis séu þá með það í undirbúningi að endurnýja þessa ofna. Það þarf einnig að skoða mögulega aðgengismál og slíkt inni í Fossvogi en eins og staðan er eru engar hugmyndir um að fara að byggja fyrir einhverjar stórkostlegar upphæðir nýja aðstöðu,“ sagði hann. 

„Það eru engar slíkar viðræður í gangi, bara svo það sé alveg á hreinu. Það er ágætisstaða í sjálfu sér á bálförum í dag.“
Jón Gunnarsson
dómsmálaráðherra

Ráðherrann sagði jafnframt að það væru önnur mál sem hafa þyrfti í huga og var honum hugsað til stöðu landsbyggðarinnar. „Þar er verulega mikið lægra hlutfall þar sem bálfarir koma til við útfarir. Það einkennist eflaust af því að það er dýr flutningskostnaður og erfiðar aðstæður. Það er svo sem komin fram ný tækni í þessu og einfaldari og möguleikar á því að horfa til þess í framtíðinni að það geti verið boðið upp á þjónustu víðar á landinu til að mæta þörfum þeirra sem þar búa.“

Mar textil ehf. ekki á hagsmunaskrá þingsins

Arndís sagði í seinni fyrirspurn sinni að komið hefði fram að sérstaða tillögu Trés lífsins væri meðal annars sú að ekki yrði lengur þörf á því að kaupa stóra og dýra líkkistu til bálfararinnar líkt og raunin væri í dag. 

„Nú er einskis getið um tekjumyndandi starfsemi í eigu þingmannsins sjálfs í hagsmunaskrá hæstvirts dómsmálaráðherra á vef Alþingis, en samkvæmt nýjustu upplýsingum úr fyrirtækjaskrá Skattsins er hæstvirtur ráðherra skráður fyrir fyrirtæki nokkru að nafni Mar textil ehf. Svo vill til og sagt hefur verið frá því áður, að Mar textil flytji meðal annars inn og selji líkkistur. Fyrirtækið er að öllu leyti í eigu hæstvirts dómsmálaráðherra ef marka má ársreikning fyrir árið 2021 sem skilað var fyrir skemmstu. Þá hagnaðist hlutafélagið um 10 milljónir króna árið 2021,“ benti þingmaðurinn á. 

Spurði hún ráðherrann í hvers eigu Mar textil væri í dag og hvort það væri enn í þessum sama rekstri.

Segir engin leyndarmál í kringum reksturinn

Jón svaraði í annað sinn og sagði að nú áttaði hann sig á hvað verið væri að veiða í fyrirspurninni. 

„Það er alveg rétt og hefur ekki verið neitt leyndarmál að við hjónin höfum staðið í rekstri í mörg ár. Við höfum gert það alveg frá árinu 1985 og konan mín er framkvæmdastjóri fyrir okkar fyrirtæki í dag, sem heitir Mar textil. Já, já, það hefur komið fram í fréttum áður að meðal annars er innflutningur þar líkkistur sem koma þessu máli bara akkúrat ekkert við. Af veltu upp á tæpar 200 milljónir króna á síðasta ári þá voru líkkisturnar kannski svona 20 milljónir, bara svo því sé haldið til haga. Það eru engin leyndarmál í kringum þennan rekstur af minni hálfu,“ sagði hann. 

Þá sagðist ráðherrann vera skráður sem 100 prósent eigandi fyrirtækisins þó að þau hjónin hefðu staðið í þessu saman í gegnum öll árin. „Þetta kemur þessu máli ekkert við. Brennsluþjónustan er til staðar og Tré lífsins hefur meðal annars sent inn erindi þar sem beðið er um umtalsverða fjárhagsaðstoð til að fara í þessi nýsköpunarverkefni sem þeir kalla svo, sem er eiginlega þjónusta á veislusölum og slíku í kringum svona brennsluþjónustu. Það er bara hið besta mál og ég get alveg séð fyrir mér í framtíðinni að það geti fleiri stundað þennan rekstur en Kirkjugarðar Reykjavíkur, en það kemur bara í ljós,“ sagði hann í svari sínu við fyrirspurn Arndísar Önnu. 

„Eins og þau kunni ekki á það hvað hagsmunaárekstur er“

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata birti færslu á Facebook í kjölfar fyrirspurnar Arndísar Önnu. Þar bendir hann á að dómsmálaráðherra eigi fyrirtæki sem flytur inn og selur líkkistur en hvergi sé það skráð í hagsmunaskrá þingsins.

„Nú er dómsmálaráðherra að taka ákvörðun um framtíðartilhögun bálfara – og getur með ákvörðun sinni útilokað samkeppnisaðila. Það er eins og þau kunni ekki á það hvað hagsmunaárekstur er ...“ skrifar hann. 

Mar textil á hagsmunaskrá Jóns árið 2015

Áður hefur verið greint frá innflutningsfyrirtæki Jóns Gunnarssonar í fjölmiðlum en í apríl 2015 birtist grein á baksíðu DV þar sem kom fram að ráðherra, sem þá var þingmaður, flytti inn líkkistur. 

Í þeirri grein kom jafnframt fram að eiginkonan hans ræki innflutnings- og smásölufyrirtækið sem flytti meðal annars inn líkkistur. „Þetta er félag sem við hjónin erum búin að eiga í mörg ár. Konan mín hefur verið í innflutningi og verslunarrekstri en við vorum áður með heildverslun og þrjár verslanir. Þetta er mest fatnaður og slíkir hlutir og þá bæði í heildsölu og smásölu,“ sagði Jón í samtali við blaðamann DV.  

Samkvæmt fréttinni var fyrirtækið stofnað árið 2004 og hét það þá Jón Gunnarsson ehf. en nafninu var breytt í Mar textil fimm árum síðar. Mar textil var nefnt í hagsmunaskrá Jóns árið 2015, að því er fram kemur hjá DV á þessum tíma. 

Grein birtist í DV um innflutningsfyrirtæki Jóns Gunnarssonar, sem var þá þingmaður, og eiginkonu hans.

Greinarmunur á hagsmunaskráningu ráðherra og þingmanna

Heimildin sendi fyrirspurn á skrifstofu Alþingis og spurði hver munurinn væri á hagsmunaskráningu þingmanna annars vegar og ráðherra hins vegar. „Svarið er í stuttu máli að gerður er greinarmunur á hagsmunaskráningu ráðherra sem æðsta handhafa framkvæmdarvalds og hagsmunaskráningu alþingismanna. Um hagsmunaskrá ráðherra fer samkvæmt lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands, nr. 64/2020. Um hagsmunaskráningu alþingismanna gildir 87. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og reglur forsætisnefndar um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings,“ segir meðal annars í svarinu. 

„Eins og fram kemur í þessum heimildum búa ólík markmið og tilgangur að baki hagsmunaskráningu ráðherra og alþingismanna. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands er markmið laganna að takmarka eins og frekast er unnt áhrif hagsmunaárekstra á störf æðstu stjórnenda sem starfa innan Stjórnarráðs Íslands. Tilgangur reglna um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings er skv. 1. gr. þeirra að veita almenningi upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni alþingismanna og trúnaðarstörf þeirra utan þings og þar með auka gagnsæi í störfum Alþingis,“ kemur fram í svari skrifstofu Alþingis. 

Hélt að þetta væri lausn á silfurfati

HagsmunaáreksturSigríður Bylgja telur um hagsmunaárekstur að ræða hjá dómsmálaráðherra að koma að bálfaramálum á Íslandi.

Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir forsvarskona og stofnandi Trés lífsins, sjálfseignarstofnunar, segir í samtali við Heimildina að margir hlutir hafi verið undarlegir í þessu ferli en hún og fleiri í stjórn Trés lífsins hafa verið í samskiptum við dómsmálaráðuneytið síðan árið 2020 og mörg erindi hafa farið fram og til baka á þeim tíma. „Það er eins og ráðherra og ráðuneytið hafi verið að reyna að standa í vegi fyrir því að við gætum sett Tré lífsins af stað og ég hélt í alvöru, í einfeldni minni, þegar ég byrjaði að þetta væri borðleggjandi. Ég hélt að þetta væri lausn á silfurfati fyrir ríkið því Kirkjugarðarnir eru í fjárhagsvandræðum og bálstofan er gömul.“

Eins og áður segir fór óháð úttekt fram á því hvernig best væri að haga bálfaramálum á Íslandi til framtíðar. Skýrslan var framkvæmd af dómsmálaráðuneytinu og kom út á síðasta ári. 

Í kjölfarið af þessari skýrslu og öllum þessum samskiptum við dómsmálaráðuneytið þar sem Sigríður Bylgja og fulltrúi stjórnar funduðu með ráðherra og aðstoðarmönnum hans, ráðuneytisstjóra sem og aðstoðarmanni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra segir Sigríður Bylgja að alltaf hafi verið látið í veðri vaka að sannarlega væri verið að skoða Tré lífsins sem valkost, þ.e. það gæti orðið sá aðili sem sæi um bálfarir á Íslandi. Hún segir að upphaflega hafi þau þurft að athuga hvort hreinlega Tré lífsins mætti taka þetta að sér en ekkert í lögum segi að einungis ríkið eða kirkjan megi reka bálstofu. „Þetta er í raun valdabarátta hjá kirkjugörðunum,“ segir hún. 

Í nóvember í fyrra sendi Sigríður Bylgja inn erindi til dómsmálaráðuneytisins þar sem hún óskaði eftir tímalínu í þessu máli. Hún spurði hvenær áætlað væri að þau fengju svör og hver staðan væri. Mánuði síðar fengu þau svar. Í því kom fram að ráðuneytið teldi ekki tilefni til að gera breytingar á því samkomulagi sem það hefur átt við kirkjugarðana.

Gömlu ofnarnir getu hætt að virka hvenær sem er

Varðandi svar ráðherrans á þingi við fyrirspurn Arndísar Önnu þá bendir Sigríður Bylgja á að hann hefði orðað það þannig að engar viðræður væru við KGRP um nýja bálstofu en í svarinu frá ráðuneytinu sé talað um viðræður „um áframhaldandi rekstur þeirra á bálstofu með hliðsjón af gildandi samkomulagi“.

Hún bendir jafnframt á að stjórn KGRP sé búin að funda í ráðuneytinu og kynna fyrir þeim nýja bálstofu í Hallsholti. Hún segir að KGRP sé ekki að fara að setja upp nýja ofna hjá sér í Fossvoginum. „Það er ekki hægt, ofnarnir eru orðnir svo gamlir og gæti hætt að virka hvenær sem er.“

Sigríður Bylgja segir að hún hafi haldið að þetta væri borðleggjandi – að hægt væri að opna mikið umhverfisvænni bálstofu fyrir öll trúfélög. „Þetta væri geggjuð lausn því kirkjugarðarnir eru hvort sem er í vandræðum og það er ekkert í lögum sem segir að ríki eða kirkja eigi að reka bálstofu. En síðan erum við að lenda í mótstöðu hjá ráðherra, ráðuneytinu og KGRP.“ 

Hún bendir jafnframt á að bagalegt sé að einungis sé hægt að fara í gegnum eitt trúfélag þegar fólk deyr. Bálfarir hafi ekkert með trúarbrögð að gera. 

Þurfa núll krónur frá ríkinu

Varðandi það að Tré lífsins sé að fara fram á stórkostlegar upphæðir frá ríkissjóði þá segir Sigríður Bylgja að það sé ekki rétt. „Árið 2021 óskuðum við eftir 500 milljón króna stofnframlagi. Það var smá taktík hjá okkur því það var búið að hunsa okkur svo mikið,“ segir Sigríður Bylgja um ástæður beiðninnar. 

Hugsunin hafi verið sú að víst kirkjugarðarnir sögðust ætla að gera þetta fyrir 1,2 milljarða að þá skyldi Tré lífsins óska eftir 500 milljónum. 

„Síðan hafa allar þær beiðnir sem farið hafa frá okkur til dómsmálaráðuneytisins og kynntar fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra tekið fram að Tré lífsins þurfi núll krónur frá ríkinu í stofnkostnaðarstyrk og við þurfum núll krónur frá ríkinu í rekstrarkostnað. Við munum bara óska eftir að fá kirkjugarðagjaldið greitt með hverri bálför, sem er eitthvað um 50.000 krónur. Þetta er allt á minnisblöðum sem liggja inn í ráðuneyti,“ áréttar hún. 

Hún segist upphaflega aldrei hafa ætlað að opna bálstofu, hún hafi einungis viljað bjóða fólki upp á að gróðursetja ösku ástvina ásamt tré. „En þá fór ég að rekast á lagarammann: hvað má og hvað ekki í þessum málum. Lausnin var að þá þyrfti ég að stofna trúfélag til að geta verið með grafreit og ég ætlaði ekki að fara að gera það. Mig langaði bara að bjóða upp á aðra valmöguleika.“

Borðleggjandi að ráðherra sé vanhæfur

Talað hefur verið um hagsmunaárekstur vegna innflutnings ráðherra á líkkistum. Sigríður Bylgja bendir á að í ofni Trés lífsins þurfi ekki líkkistu. Samkvæmt lögum þarf hins vegar að nota kistu og ætlaði Tré lífsins þá að nota íburðarlitla kistu fyrir bálfarir. Þá yrðu íburðarmeiri kisturnar til láns svo fólk gæti haft útförina hvar sem það vildi, hvort sem um væri að ræða í kirkju eða annars staðar. Brennslukistunni yrði þá komið fyrir í athafnakistu en fína athafnakistan ekki brennd. 

„Það hefur alltaf verið markmiðið okkar að Tré lífsins geti boðið upp á ódýrari útfarir vegna þess að í dag er svo mikill kostnaður við þær,“ segir hún. 

Hún telur að það sé gjörsamlega borðleggjandi að ráðherra sé vanhæfur í þessu máli þar sem hann hafi fjárhagslegra hagsmuna að gæta. „Það er í hans höndum að taka ákvörðun um framtíð bálfaramála. Það færi mikið betur ef einhver annar ráðherra myndi stíga inn í hans stað og taka ákvörðun til þess að búa ekki til svona vantraust. Það er svo auðvelt að komast hjá þessu með því að hafa þetta allt gagnsætt.“

Þurfa að fá endanlegt svar

Næstu skref hjá Tré lífsins eru að fá endanlegt svar varðandi það hvort ríkið ætli að láta KGRP fá fjármagn til að byggja nýja bálstofu. „Við fáum ekki svar við þessari spurningu,“ segir hún og bætir því við að allt velti á því að fá þetta svar því að lífeyrissjóðirnir sem þau eru búin að tryggja 80 prósent lánsfjármagn hjá til framkvæmdarinnar geta ekki lánað þeim ef ríkið mun vera með rekstur á bálstofu. 

„Ef svarið er já, þá verður mjög fróðlegt að sjá hvernig önnur lífsskoðunarfélög en kirkjan munu bregðast við vegna þess að þá ertu bara kominn í rosalega mikið ójafnræði.“
Sigríður Bylgja
forsvarskona Trés lífsins

„Ef svarið er nei, þá getum við farið af stað að skrifa undir samninga við lífeyrissjóðina og farið í það að safna 20 prósentunum sem upp á vantar og svo bara taka skóflustungu í Rjúpnadal því við erum komin með vilyrði fyrir fjármögnum. Við erum komin með leyfi sýslumanns fyrir skipulagða starfsemi á bálstofu og við erum komin með lóðina, þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði nema að fá þetta svar frá ríkinu.

Ef svarið er já, þá verður mjög fróðlegt að sjá hvernig önnur lífsskoðunarfélög en kirkjan munu bregðast við vegna þess að þá ertu bara kominn í rosalega mikið ójafnræði því það er ekkert sem segir að ríkið eða kirkja eigi að reka bálstofu,“ segir hún. 

Sigríður Bylgja segir enn fremur að ef vilji almennings sé sá að kirkjan eigi að sjá alfarið um líkbrennslu – að ekki sé hægt að deyja á Íslandi nema fara í gegnum kirkjuna – þá sé það bara allt í lagi. „Þá veit ég að það er ekki stemning fyrir þessu. En miðað við samtölin sem ég hef átt við fólk í þessu ferli undanfarin ár þá er mikil þörf á þessu.“

Ríkið mun ekki koma að uppbyggingu nýrrar bálstofu – en endurnýja þarf gamla ofninn og færa til nútímans

Dómsmálaráðherra segir í samtali við Heimildina þegar hann er spurður hvort ráðuneyti hans sé í viðræðum við KGRP um nýja bálstofu að engar hugmyndir séu um það að ríkið komi að uppbyggingu nýrrar bálstofu með Kirkjugörðunum frekar en öðrum. „Það er einhver misskilningur í gangi í þeim efnum,“ segir hann. 

Varðandi rekstur gömlu bálstofunnar þá segir Jón að það sé til umræðu hvernig því verður háttað í framtíðarskipulagi. „En rekstrarleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur gerir ráð fyrir áframhaldandi rekstri til ársins 2032 svo menn hafa nú alveg tíma til að spá í þau mál. Og við erum að skoða samhliða því hvernig við getum mögulega þjónað landsbyggðinni því að það er mjög sláandi hversu lítið hlutfall af landsbyggðinni notar líkbrennslu í samanburði við það sem er hér á höfuðborgarsvæðinu og nærsvæðinu þar sem það er milli 60 og 70 prósent en innan við 20 prósent úti á landi.“

„Rekstrarleyfi bálstofunnar í Fossvogi var útgefið í fyrra af heilbrigðiseftirlitinu til 10 ára og þá liggur fyrir að endurnýja þarf ofninn og færa til nútímans. Við gerum ráð fyrir því að þeir geri það á sinn kostnað innan þess ramma sem þeir fá greitt.“
Jón Gunnarsson
dómsmálaráðherra

Hann segir að það skýrist hugsanlega fyrst og fremst af þeim kostnaði sem landsbyggðin þurfi að taka á sig við að flytja líkkistur og lík í bæinn ef fólk vilji fara þá leið. „Við erum að skoða hvernig stóra myndin getur liðið út í framtíðinni. En rekstrarleyfi bálstofunnar í Fossvogi var útgefið í fyrra af heilbrigðiseftirlitinu til 10 ára og þá liggur fyrir að endurnýja þarf ofninn og færa til nútímans. Við gerum ráð fyrir því að þeir geri það á sinn kostnað innan þess ramma sem þeir fá greitt. Þær hugmyndir að byggja upp einhverja risabyggingu í Gufunesi undir nýja bálstofu, þær höfum við ekki tekið neitt til skoðunar.“

Sér ekki hvernig innflutningur á líkkistum komi líkbrennslumálum við

Þegar ráðherrann er spurður hvort rekstur hans og eiginkonu hafi haft áhrif á ákvarðanir hans í þessum málum þá segist hann ekki vita hvernig hann eigi að orða svarið.

„Auðvitað er margt reynt til að gera fólk tortryggilegt í pólitík og þetta er auðvitað bara lítill hluti af þeim þeim rekstri sem ég og konan mín erum í og það er innflutningur sem staðið hefur í yfir næstum tuttugu ár og er bara lítill hluti af heildar markaðinum hér í þessu samhengi. Ég get ekki séð hvernig það kemur einhverjum líkbrennslumálum við vegna þess að það er nú þannig að fólk er brennt í kistum, sko. Lík eru brennd í kistum og það er mjög lítill hluti af kistunum sem brenndar eru í dag úr innflutningi okkar,“ segir hann. 

Jón Gunnarsson tók við embætti dómsmálaráðherra í lok nóvember 2021.

Jón segir jafnframt að pólitíkin sé „eins og hún er“ og reynt sé að gera menn tortryggilega þegar menn eru í þessari stöðu eins og hann. „Það er ósmekklegt – og þið haldið því kannski áfram ef þið viljið en þú metur það. En þetta hefur einfaldlega enga tengingu.“

Gerði ráðuneytisstjóranum grein fyrir hagsmunum

Ráðherrann rifjar upp eldri fréttaflutning um líkkistuinnflutning þeirra hjóna. „Ég gerði strax grein fyrir þessu við þetta ráðuneyti að ef eitthvað kæmi upp varðandi útfararstofur og slíkt þá ætti ég ákveðinna hagsmuna að því – því það er miklu nærtækara að koma með rekstur útfararstofa og ég gerði strax grein fyrir því að ef eitthvað slíkt kæmi upp þá væru þetta hagsmunir mínir í því samhengi. Ég gerði ráðuneytisstjóranum grein fyrir því á sínum tíma en að öðru leyti skarast þetta ekkert á við einhverjar líkbrennsluhugmyndir Trés lífsins.“

Hann nefnir að Tré lífsins hefði beðið um ríkisstyrk upp á hundruð milljóna til að fara í það verkefni sem sjálfseignarstofnun. „Endurnýjun á svona ofnum í svona þjónustu sem er veitt í dag, til að færa þá til nútímans er kannski, ég veit ekki hvaða tölu ég á að skjóta á, 100 milljónir eða eitthvað slíkt. Ofninn, sko. Einn ofn.“

Sér ekki tilefni til að semja við nýja aðila

Þegar ráðherrann er spurður hvort hann sé opinn fyrir frekari viðræðum við Tré lífsins þá segist hann hafa átt samtal við forsvarsmenn þess félags. Þau hafi útskýrt hugmyndir sínar en eins og staðan er í dag og eftir þá skýrslu sem kom út um þessi mál þá liggi fyrir að hann sjái ekkert tilefni í sjálfu sér til að ríkið fari að eyða einhverju fjármagni í þetta eða semja við nýjan aðila um að standa að þessum rekstri með „óljósum fyrirvörum“ um að viðkomandi aðili fengi greiðslur. 

„Það er mat þeirra sem um þetta hafa fjallað og þar á meðal Tré lífsins að það sé bara pláss fyrir einn aðila á markaði. Við séum það fámenn þjóð að það er ekki hægt að reka margar líkbrennslur. Það liggur auðvitað í augum uppi að megin þorri fyrir svona þjónustu er á höfuðborgarsvæðinu og það er rammað ágætlega í dag í núverandi þjónustu og ef hún endurnýjar sína ofna án þess að það verði einhver fjárframlög eða eitthvað slíkt og getur veitt þessa þjónustu sómasamlega áfram þá er ekki breytinga þörf nema bara með hagsmuni landsbyggðarinnar í huga,“ segir Jón. 

„Ég tek alveg undir þau sjónarmið að það þarf að þjóna mismunandi trúarbrögðum sem eru í landinu.“
Jón Gunnarsson
dómsmálaráðherra

Hann telur að horfa þurfi til ýmissa sjónarmiða varðandi framtíðarsýn í þessum málaflokki. „Þjónustan er í þeim farvegi sem hún hefur verið, alveg ásættanleg og ég tek alveg undir þau sjónarmið að það þarf að þjóna mismunandi trúarbrögðum sem eru í landinu og til þess mun ég horfa að það þurfi að taka tillit til þeirra sjónarmiða og uppfylla þarfir mismunandi trúarbragða í þessum efnum. Við þurfum að horfa líka til þess að það sem við höfum kallað kirkjugarða í gegnum tíðina og aldirnar að það er kannski eðlilegra að í framtíðinni séu þetta kallaðir grafreitir. Á þeim forsendum að þetta sé eitthvað sem á að geta tekið tillit til trúarbragða sérstaklega.“

Hann segist líta svo á að hið opinbera og ráðuneyti hans beri ábyrgð á því að þessi þjónusta sé til staðar í landinu. Hann segir jafnframt að fara þyrfti fram einhvers konar útboð á bálfaraþjónustu í staðinn fyrir að gera samning við „eitthvert eitt félag sem hefur búið sér til viðskiptamódel í kringum þetta“. 

„Þetta er nú bara viðhorf okkar í þessu og þess vegna hyggjum við ekki á stór skref í breytingum í þessum efnum núna. Þetta er bara í þessum farvegi og fyrir framan okkur eru einhver tíu ár í leyfisveitingum í þeim rekstri en við gerum okkur grein fyrir því að við horfum fram á breytingar þegar kemur að ýmsum þáttum í þessu og ekki síst gagnvart því að margt mælir með því að aukning í líkbrennslu sé eðlileg og ef maður horfir til landnýtingar og annars þá krefst slíkt útfararfyrirkomulag mikils landsrýmis,“ segir hann að lokum. 

Kjósa
17
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (4)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Gudmundur Einarsson skrifaði
    - Sér ekki hvernig innflutningur á líkkistum komi líkbrennslumálum við -
    Spurning hvort líkkistur séu endurnýttar nú þegar minnka á kolefnissporin. Ef kistusali er jafnframt brennari eru heimatökin hæg. Brennsla er samt ekki eins vistvæn og hefðbundin moltun.
    0
  • Guðrún Aðalsteinsdóttir skrifaði
    Það er svo sorglegt að þessi maður og Bjarni Ben ásamt fleirum á háttvirtu alþingi okkar, gefa tóninn varðandi siðferðið og að það sé í lagi að vera á gráu svæði og rúmlega það, ef farið er út fyrir mörkin, eru þau bara víkkuð út. Ekki vera svangur og stela brauðhleif, vertu hungruð og steldu frekar milljörðum!!!,það hungur verður aldrei mettað en nóta ben,, þú kemst nefnilega upp með stóra glæpinn
    3
  • JÖLA
    Jón Örn Loðmfjörð Arnarson skrifaði
    Er hætta á því að tekjur Jón Ltd minnki ef við verðum flamberuð?
    0
  • Thordis Arnadottir skrifaði
    Ef allt væri eðlilegt á Íslandi þá væri Sjálfstæðisflokkurinn “all over” svona fyrirtæki sem lofar að koma þér yfir móðuna miklu án þess að ríkið sé með puttanna í því.
    En nei, … Sjálfstæðisflokkurinn er “ríkið” !! Hann er búin að múra sig inn eins og mygla í allt stjórnkerfið a Íslandi. Þess vegna er þetta “banana lýðveldi” … algjört drasl sem ekki virkar, nema fyrir vini og vandamenn.
    4
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár