Einu sinni var kona sem hét Þorgerður. Hún var margra barna móðir og vann í krambúð fyrri hluta dags og um helgar. Börnin hennar voru ekki öll skemmtileg. Ég man einna helst eftir elsta syni hennar sem var skíthæll. Hann elti önnur börn og barði. Hann var eineltishrotti sem flestir tóku sveig framhjá. Hún var alltaf að reyna að siða hann til. Manninn hennar þekktu fáir enda gaf hann sig almennt ekki á tal við fólk. Hann vann í verksmiðju og fór snemma af stað og kom seint heim. Hann var víst ekki góður við hana. Þorgerður var alltaf á þönum og hafði meira að gera en meðalmaður. Hún vann og vann og vann. Þrátt fyrir álag og vinnu var hún hvers manns hugljúfi sem bar af sér góðan þokka. Hana könnuðust líka flestir við því hún átti það til að taka að sér að laga föt fólksins í hverfinu ef þykja þyrfti. Hún var glöð og brosmild, - lengi vel.
Eftir því sem ég varð eldri sá ég minna af Þorgerði. Þegar ég sá henni bregða fyrir var hún bogin í baki og oft með örvæntingarfulla störu í átt að engu. Hún var löngu hætt að laga föt fyrir fólk og börnin hennar voru öll flutt að heiman og heimsóttu sjaldan. Fólk talaði um sín á milli að hún hefði byrjað að forðast fólk á förnum vegi og einangrað sig inni á heimilinu. Sumir töluðu um að hún hefði orðið viðskotaill í samskiptum, aðrir sögðu hana hafa misst vitið. Flestir voru þó sammála um að hún hafði týnt brosinu og glatað gleðinni. Tilfinningalíf hennar var öðrum hulin ráðgáta enda var á þeim tíma ekki mikið verið að tala um áföll og afleiðingar. Þetta var á þeim tíma sem margir hlutir voru ekki ræddir og lítið var gert úr alvarleika ýmissa brota. Eftir að Þorgerður dó kom í ljós að sálarlíf hennar hafði verið, allt frá barnæsku, beittum þyrnum stráð. Í umræðu nútímans um áhrif áfalla á andlega og líkamlega heilsu hefur mér oft verið hugsað til Þorgerðar og hvort að áföll hennar hafið orðið til þess að hún hafði í lokin upplifað örmögnun og í raun horfið úr eigin vitund.
Langvarandi streita getur haft alvarleg áhrif á sálarheill fólks
Hraði vestræns samfélags, langvinnt álag, áföll og aðrar lífsins hindranir geta gert það að verkum að taugakerfið okkar verður ofurnæmt og vanstillt. Taugakerfið okkar er ekki hannað til þess að vera að meta hættur í hversdagslegum aðstæðum, s.s. inni á heimili, á vinnustað eða í hjónabandi. Það er aftur á móti fullkomlega hannað til þess að bregðast við hættu frá þeim sem okkur finnst rökrétt að geti meitt okkur, t.d.. rándýr eða bíll sem nálgast okkur á ofsahraða. Streita í sinni heilbrigðustu mynd er þannig líkamanum til góðs. Það er hinsvegar ekki rökrétt út frá taugakerfinu að upplifa hættu frá þeim sem segjast þykja vænt um okkur eða í samskiptum á vinnustaðnum okkar. Við þær aðstæður er líkt og einhver kerfisvilla komist í taugakerfið. Vírus kemst í hugbúnaðinn.
Taugakerfið okkar skiptist m.a. í drifkerfi og sefkerfi. Drifkerfið á að vera virkt þegar streita, tímabundið álag eða hætta steðjar að. Af því að þannig aðstæður eiga að vera frávik fremur en venja, ætlast líkaminn til þess að við nánum sjálf að klára tilfinningarnar sem fylgja því að vera með drifkerfið tímabundið í botni. Hættuástandið tekur enda og jafnvægi næst á ný. Þegar hætta er í hjónabandi, fjölskyldu, vinnustað eða ástarsambandi er erfitt að nálgast jafnvægið og klára tilfinninguna, og oft er tíminn of skammvinnur áður en næsta hættuástand fer í gang. Drifkerfið tekur yfir og verður ráðandi. Það verður eins konar ofhleðsla á upplýsingum sem þú upplifir þig ekki geta unnið úr. Þú staðnar í tilfinningunni sem fylgir yfirþyrmandi upplýsingum eða ógnvænlegum minningum af áföllum fortíðarinnar. Langvarandi streita læðist að okkur og sest að. Við festumst.
Stundum gerum við okkur ekki einu sinni grein fyrir streituvöldunum sem eru í umhverfi okkar því óhóflegt álag til lengri tíma verður að venju fyrir okkur. Dæmi um streituvalda sem búa í umhverfinu okkar eru t.d: Álag í vinnu, námi og einkalífi, samskiptavandi, stórar breytingar, fjárhagsvandi og of miklar kröfur og of margir boltar. Dæmi um streituvaldana sem búa innra með okkur eru t.d: Fullkomnunarárátta, lágt óvissuþol, meðvirkni, neikvæðni, hörmungarhyggja, lágt sjálfsmat, óraunhæfar væntingar og óraunhæfar kröfur. Dæmi um einkenni streitu getur t.d. verið ör hjartsláttur, hraðari öndun, meltingaróþægindi, tíð þvaglát, breytingar á þyngd, verkir, aukin veikindi, einbeitingarskortur, heilaþoka, óskipulag, hvatvísi, pirringur, óhófleg þreyta, slæm svefngæði, þunglyndi og kvíði. Þessi einkenni geta verið til staðar lengi vel en geta að lokum leitt til skyndilegrar versnunar með mikilli vanlíðan, bæði andlegri og líkamlegri. Þetta ástand langvarandi streitu getur að lokum leitt til tilfinningalegrar örmögnunar (e. Emotional exthaustion) Það er eins og kerfið hrynji. Tilfinningaleg örmögnun er síðasti leggurinn sem laskast í taugakerfinu eftir langvarandi og sjúklegt streitutímabil. Einkennandi á því stigi eru m.a hamlandi ofurþreyta, skert einbeiting, skortur á úthaldi og tilfinningalegt ójafnvægi sem hafa mikil og lífsgæðaskerðandi áhrif..
Tilfinningaleg örmögnun og líkamlegt ferli tilfinninga
Kulnun vísar til fyrirbæris í tengslum við vinnuumhverfið og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni ætti það ekki að vera nýtt til að lýsa reynslu á öðrum sviðum lífsins. Örmögnun (e. Burnout) er hinsvegar orð sem lýsir kulnunarástandi utan vinnu. Hugtakið í fræðilegu samhengi kemur frá Herbert Freudenberger árið 1975. Tilfinningaleg örmögnun (e. Emotional exthaustion/ Burnout) er líkamlegt og andlegt ástand sem myndast þegar taugakerfið fær nóg eftir langvarandi og sjúklegt streitutímabil. Orðið ofhleðsla lýsir þessu ástandi best.
Tilfinningar eru í sinni einföldustu mynd losun á taugaboðefnum í heilanum þegar áreiti birtist. Áreitin geta verið allskonar og miserfið meltingar. Dæmi um áreiti getur verið að sjá einhvern sem þú ert hrifin af, lykt, umferð, tónlist, myndir og nær allt sem fyrir skynfærum okkar verður. Áreiti geta verið góð, hlutlaus og slæm og er sú greining mjög einstaklingsbundin. Losun á taugaboðefnum þegar áreiti birtist leiðir til líkamlegra svara. Hjartað slær fastar, öndun verður grynnri og örari og hormónabylgja flæðir um líkamann. Fiðrildin fljúga í maganum og vöðvar spennast. Margar tilfinningar geta sprottið upp af einu og sama áreitinu. Nær öll kerfi líkamans geta svarað áreiti. Þetta er líkamlegt ferli tilfinninga. Það er sjálfrátt og fer af stað um leið og áreiti birtist.
Tilfinningar klára sig venjulega sjálfar, þ.e. þegar áreitið líður hjá, styrkur þess minnkar eða athyglin færist annað. Ferlið endar. Tilfinningaleg örmögnun gerist hinsvegar þegar þú festist í tilfinningunni. Ástæða þess að við festumst geta verið margskonar. Það getur komið til vegna þess að við erum sífellt í aðstæðum þar sem áreiti handsamar tilfinningu og skapar streitufulla spennu. Við förum á hverjum degi í vinnu sem veitir okkur ekki vellíðan, við umgöngumst reglulega fólk sem er ekki gott við okkur, við erum í sambandi þar sem við erum beitt ofbeldi eða við forðumst uppgjör á erfiðum atvikum úr lífi okkar sem eru samt alltaf að minna á sig. Erfiðustu tilfinningarnar til að festast í eru m.a. reiði, sorg, örvænting, ótti og hjálparleysi.
Áföll af manna völdum geta haft lífsgæðaskerðandi áhrif
Áfall hefur verið skilgreint sem sterkt streituviðbragð í kjölfar ákveðinna óvæntra atburða. Þetta eru m.a. atburðir eins og náttúruhamfarir, slys og skyndilegt andlát náins ástvinar. Einstaklingar sem verða fyrir áföllum af manna völdum er líklegri til að upplifa langvinn eftirköst. Heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi skapa langvarandi streituástand sem erfitt getur verið að vinna bug á. Ofurálag læðist aftan að fólki sem reynir að sigla lygnan sjó eftir skelfilega reynslu. Í slíkum tilvikum geta einstaklingar þurft á langtíma aðstoð að halda vegna flókinna og lífsgæðaskerðandi sálrænna vandamála. Algengar afleiðingar af t.d. kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi eru m.a. áfallastreituröskun, kvíði, þunglyndi, átröskun, einangrun, erfiðleikar í samskiptum, erfiðleikar með svefn og einbeitingu, erfiðleikar í kynlífi og oft ögrandi kynferðisleg hegðun. Þá er algengt að þolendur glími við lélega sjálfsmynd, hafi líkamlega verki, stundi sjálfsskaða og upplifi sjálfsvígshugsanir. Tilfinningar eins og ótti, reiði, skömm og sektarkennd geta ásótt þolendur í miklum mæli og skert lífsgæði þeirra stórkostlega. Þessar afleiðingar geta verið alvarlega lífsgæðaskerðandi og dunið á þolendur upp úr þurru og á ólíkum tímum í lífi þeirra. Umhverfi og samhengi í því tilviki þarf alltaf að taka til greina. Menningin mótar orðræðuna og bráðnauðsynlegar byltingar geta komið af stað streituflóði og minningamartröðum hjá þolendum. Einfaldir streituvaldar geta orðið að erfiðum fjöllum, stórum fjallagörðum og stundum himnastigum. Mikilvægt er því að leita sér aðstoðar.
Áhrif erfiðra upplifana í æsku getur haft alvarleg áhrif á heilsufar síðar á ævinni
Visindi eru besta uppfinning mannkyns. Þetta er kerfisbundin leið til þess að skoða undur og eðli veruleikans. Vísindin eru griðarstaður tilrauna og leita sönnunar eða afsönnunar á gefnum sannleik eða nýrrar þekkingar. Vísindin sniðganga geðþóttaskoðanir, fordóma og meint hlutleysi fjöldans og leyfir gögnunum að leiða sig áfram í átt að sannleika samtímans. Rannsóknir eru flaggskip vísindanna. Rannsóknir hafa sýnt fram á skýr tengsl á milli ofbeldis á uppvaxtarárum og heilsufarsvanda síðar á lífsleiðinni. Ein þessara rannsókna er Adverse Childhood Experience (ACE) sem rannsakar erfiðar upplifanir í æsku og áhrif á heilsufar síðar á lífsleiðinni. ACE er þekktasta rannsóknin á þessu sviði og var leidd af dr. Vincent Felitti í Bandaríkjunum á níunda áratug síðustu aldar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á sterk tengsl á milli fjölda áfalla, eða ACE-stiga, og andlegs, líkamlegs og félagslegs vanda á fullorðinsárum. Fjöldi stiga endurspeglaði vaxandi áhættu á heilsufars- og félagsvanda síðar á ævinni.
Þegar ACE rannsóknin talar um erfiðar ° er sérstaklega verið að tala um afmörkuð og skilgreind áföll. Þessi áföll gerast í æsku og eru skilgreind sem eftirfarandi: Heimilisofbeldi, tilfinningaleg vanræksla, dauði eða andlegir erfiðleikar náins ástvinar eða kynferðisofbeldi. Þegar eitthvað eitt af þessu kemur fyrir í barnæsku þá stóraukast líkurnar að viðkomandi þrói með sér ákveðna heilsufarsbresti síðar á lífsleiðinni. Fíknihegðun og geðsjúkdómar fara þar fremstir í flokki. Á eftir fylgja auknar líkur á m.a. atvinnumissi, offitu, sykursýki, þunglyndi, heilablóðfalli, krabbameini og hjartasjúkdómum.
Alvarleg áföll eru algeng í lífshlaupi íslenskra kvenna
Áfallasaga kvenna er viðamikil vísindarannsókn á vegum Háskóla Íslands. Markmið rannsóknarinnar er fyrst og fremst að auka þekkingu á tíðni áfalla og áhrifum þeirra á heilsufar kvenna. Rannsóknin tók til allra íslenskumælandi kvenna 18 ára og eldri og er ein stærsta vísindarannsókn á heimsvísu á þessu sviði. Alls tóku 31.811 konur þátt í rannsókninni og frumniðurstöður gefa til kynna að alvarleg áföll séu tíð í lífshlaupi íslenskra kvenna. Heil 32% kvenna sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og sláandi 40% sögðust hafa orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðisofbeldi á lífsleiðinni. Niðurstöður gáfu einnig til kynna að 14% kvennanna hafi einkenni áfallastreituröskunnar. Rannsókn þessi er það merkileg að væntingar standa til þess að niðurstöðurnar verði hægt að nota til forvarna og meðferðar við alvarlegum afleiðingum áfalla.
Lokaorð
Konur eins og Þorgerður hafa alltaf verið til. Í dag eru margar þeirra í endurhæfingu vegna kulnunar og örmögnunar hjá Virk. Aðrar eru of lasnar og sumar eru enn að fara þetta á hnefanum. Sálarheill kvenna líkt og Þorgerðar hefur ekki hlotið sanngjarnan hljómgrunn fyrr en nú. Ástæða þess er að konur eru orðnar að bæði mikilvægu og margmennu vinnuafli í samfélögum samtímans sem efnahagslega slæmt er að missa út. Það er orðið að gagnreyndri, margreyndri og sannreyndri þekkingu að áföll geti haft alvarleg áhrif á sálarheill manneskjunnar og búum við í dag yfir mörgum úrræðum til að aðstoða fólk úr festu og klóm erfiðra minninga og tilfinninganna sem þeim fylgja. Ég vildi að Þorgerður hefði fengið aðstoð. Hún var góð kona. Ég er handviss um að hún hafi upplifað kulnun og tilfinningalega örmögnun sem án efa hafi leitt til endaloka hennar. Í dag þekki ég margar Þorgerðar og einu sinni var ég hún sjálf. Það vill enginn upplifa andlega uppþurð, minnisskerðingu, framkvæmdarlamandi ofurþreytu eða samkenndarskort í sinn eigin garð eða annara en svo hljómar lokastig tilfinningalegrar örmögnunar. Hinsvegar er alvarleiki staðreynda okkur orðin ljósari núna. Rannsóknir samtímans sýna okkur það. Heilsufar kvenna á Íslandi hnignandi fer á meðan áföll af manna völdum hérlendis fá að aðhafast að mestu afleiðingalaust eða í skjóli hers þeirra sem neita að skilja staðreyndir. Heil 40% íslenskra kvenna hafa orðið fyrir líkamlegu/og eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni og heilsufar þeirra tekur mið af því. Að því sögðu, kemur það okkur virkilega svo á óvart að Þorgerðar Íslands séu svo umframkomnar af þreytu að þær staldra lengi við störuna í átt að engu og sakna fyllingu sálar sinnar.
Athugasemdir (1)