Daníel E. Arnarson, varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og framkvæmdastjóri Samtakanna ´78, hefur sagt sig úr flokknum. Það gerði hann nokkrum mínútum eftir að þingmenn flokksins kusu með útlendingafrumvarpi Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra í gærkvöldi. Daníel var starfandi framkvæmdastjóri Vinstri grænna á árunum 2014-2016.
Daníel segir í færslu á Facebook að hann hafi, þegar hann bauð sig fram í prófkjöri Vinstri grænna árið 2021, sett á oddinn meiri mannúð í útlendingamálum. Hann hafi fengið fjölda fólks til að ganga til liðs við flokkinn, fólk sem hafi verið honum sammála hvað varðar þær áherslur.
„Það eru engin stjórnmál án ábyrgðar, og ég finn til ábyrgðar á þessari stundu. Ég var alla tíð á móti þessu frumvarpi og gerði mitt allra besta til þess að stöðva það. Það tókst ekki. Því verð ég að bera ákveðna ábyrgð og nokkrum mínútum eftir að þingfólk Vinstri grænna kaus með þessu frumvarpi þá skráði ég mig úr hreyfingunni. Ekki einungis vonbrigðanna vegna,“ skrifar Daníel.
Daníel rekur einnig að honum þyki afskaplega þungt að stíga það skref að segja sig úr flokknum. Hann hafi unnið innan flokksins í meira en sautján ár og líti á fólk innan flokksins sem fjölskyldu sína, sem hafi alið hann upp. „Mér þykir enn afar vænt um fólkið í VG en því miður þá get ég ekki staðið á bakvið hreyfingu sem samþykkir skerðingu á réttindum til eins viðkvæmasta hóp samfélagsins.“
Daníel tekur að lokum fram að hann muni ekki taka sæti sem varaþingmaður ef þingmenn flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður forfallist heldur muni hann vísa áfram á næstu manneskju á lista.
Áhrifafólk ályktar gegn frumvarpinu
Landsfundur Vinstri grænna hefst á Akureyri á morgun. Meðal draga að ályktunum sem liggja fyrir fundinum eru drög að ályktun um útlendingamál þar sem meðal annars segir: „Leggst landsfundurinn eindregið gegn frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á lögum um útlendinga sem lagt hefur verið ítrekað fram á Alþingi. Jafnframt fordæmir landsfundurinn þá útlendingaandúð sem hefur verið viðhöfð í tengslum við umræðu um frumvarpið. Er það sérstaklega alvarlegt þegar kjörnir fulltrúar nýta sér valdastöðu sína til að dreifa röngum upplýsingum og gróusögum um málaflokkinn. Öll samfélagsumræða um jaðarsetta og viðkvæma hópa, ekki síst fólk á flótta, verður að byggja staðreyndum og virðingu.“
„Þingmenn sem greiddu atkvæði með frumvarpinu mega bera skömm fyrir.“
Daníel var einn þeirra flokksfélaga sem lagði ályktunardrögin fram, ásamt fleira flokksfólki sem gegnt hefur trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Meðal þeirra eru Álfhildur Leifsdóttir, oddviti flokksins í sveitarfélaginu Skagafirði, Elín Oddný Sigurðardóttir, fyrrverandi varaborgarfulltrúi og fyrrverandi ritari flokksins og Hólmfríður Árnadóttir, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi.
Af átta þingmönnum Vinstri grænna greiddu sex atkvæði með samþykkt frumvarpsins, þar af tveir af þremur ráðherrum flokksins. Já sögðu þau Bjarni Jónsson, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Svandís Svavarsdóttir. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna.
Þá hefur framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna, sem einnig skrifa undir ályktunardrögin sem nefnd eru hér að framan, birt yfirlýsingu á Facebook síðu sinni. Þar segir: „Framkvæmdastjórn Ungra Vinstri grænna harmar það að útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra hafi fengið samþykki Alþingis. Þingmenn sem greiddu atkvæði með frumvarpinu mega bera skömm fyrir.“
Athugasemdir