Þegar ég var níu ára gamall eignaðist ég hljómplötuna Let's Dance með David Bowie. Þar birtist hann með aflitað hár í gulum jakkafötum og skipaði okkur út á dansgólfið. Ég fór hamförum, dansaði sem óður maður og fékk móður mína til að kaupa á mig gular Bowie-buxur sem fengust í kvenfataversluninni Rítu í Eddufelli í Breiðholti. Svo fór ég að sanka að mér fleiri plötum með þessu átrúnaðargoði mínu og komst fljótt að því að Bowie var sko aldeilis ekki við eina fjölina felldur; hann var alltaf að breytast. Mod-rokkarinn varð krulluhærður hippi sem síðan varð rauðhærða geimveran Ziggy Stardust. Ári síðar var hann orðinn dularfull poppstjarna í Los Angeles og síðan allt í einu kominn í tilrauna-raftónlist í Berlín. Gat þetta allt saman verið einn og sami maðurinn?
Sem unglingur gekk ég í gegnum tilvistarkreppu sem við öll þekkjum: Hvað á ég að vera þegar ég verð stór? Eftir kvíðakast og andvökunætur rann upp fyrir mér ljós: Ég get bara verið eins og Bowie! Ég þarf ekki að vera eitthvað eitt. Ég get breyst og prófað hitt og þetta. Unnið alls konar vinnu og verið í margs konar hlutverkum. Ég er ekki ein föst stærð. Ég er milljón möguleikar og tækifæri. Bowie talaði oft um hugarfar breytinga; það sé leiðin til að finna sjálfan sig, læra, grípa tækifærin og gera lífið skemmtilegra og betra.
Sífelldar breytingar eru orðnar hið stöðuga ástand
Sonur minn spurði mig um daginn: „Hvenær voru í gamla daga?“ Þetta er mikilvæg spurning. Hver og einn getur spurt sig þessarar spurningar um eigið æviskeið. Hvenær eru tímamótin, hvenær tekur nútíminn við af fortíðinni? Ég svaraði: „Áður en internetið og snjallsímarnir komu – það er það sem ég meina þegar ég segi í gamla daga.“
Ég man enn þá eins og gerst hefði í gær þegar ég tengdist í fyrsta skipti netinu og fékk minn fyrsta tölvupóst. Ég skildi strax að allt væri breytt. Heimurinn hefur síðan verið á brjáluðu breytingaskeiði. Stafræna byltingin er eiginlega búin að breyta öllu, hvernig við tölum saman, stundum viðskipti, kynnumst, vinnum, skemmtum okkur, ferðumst. Rétt áður en internetið ruddist fram féllu Sovétríkin og allur heimurinn breyttist. Hryðjuverkaárásirnar í New York breyttu líka öllu. Svo komu flóttamenn og breyttu öllu. Svo kom Covid-19 og breytti öllu. Svo kom innrásin í Úkraínu og breytti öllu.
Þetta er þó bara forleikurinn að þeim breytingum sem ekki verða um flúnar: loftslagsbreytingum sem eiga eftir að gerbreyta öllu. Kynslóð okkar hefur aldrei lifað stöðuga og rólega tíma og engar horfur eru á að hún muni gera það í bráð. Sem er pínu erfitt fyrir okkur mannfólkið – vegna þess að í grunninn erum við flest íhaldssöm og okkur finnast breytingar þreytandi. Okkur líður best innan þægindarammans og við viljum bara alls ekkert breytast. En sífelldar breytingar eru orðnar hið stöðuga ástand, breytingar sem „breyta öllu“ og þar með verðum við að breytast líka.
Sársauki er mikilvæg skilaboð
Við höfum öll fundið fyrir sársauka. Við meiðum okkur, okkur líður illa og það er vont; það kvelur mann. Þess vegna tökum við lyf, drekkum í óhófi. Við deyfum okkur. Við viljum ekki finna til. Sem er bara mjög eðlilegt. En það eru merkileg skilaboð falin í sársaukanum og við þurfum að hlusta og taka eftir þegar hann lætur vita af sér. Bowie sagði að við ættum að fagna sársaukanum eins og hamingjunni, sársaukinn gerir okkur sterkari. Líkaminn er að stoppa okkur af, láta okkur vita að eitthvað sé ekki í lagi og senda okkur mikilvæg boð. Sársauki er ákall um að eitthvað þarf að gera. Ef ég fótbrotna er líkami minn að segja: Nú þarftu að hvíla þig næstu vikurnar, góurinn, jafna þig, breyta um lífsstíl og jafnvel hætta í fótboltanum. Stöðugur kvíði getur líka falið í sér mikilvæg skilaboð um óholl samskipti, slæman lífsstíl, vondan vinnustað, stjórnleysi í fjármálum. Ef við hlustum ekki á líkama okkar, bregðumst ekki við ákalli hans, getur farið illa.
Jörðin og samfélag okkar er komið að sársaukamörkum
Maðurinn er dýrategund sem hefur ótrúlega mikla aðlögunarhæfni og getur breytt sér hratt í takt við aðstæður. Þess vegna hefur maðurinn getað lagt undir sig jörðina og nú er hann farinn að móta aðstæður lífs á jörðinni á svo róttækan hátt að talað er um nýtt tímaskeið í jarðsögunni, mannöldina. Maðurinn hefur valdið djúpstæðum, jafnvel óafturkræfum breytingum á náttúrunni.
„Við erum hluti af vandamálinu – og við þurfum líka að vera hluti af lausninni.“
Jörðin er farin að emja af sársauka; skógar og votlendi, lungu jarðarinnar, eru á undanhaldi, geislavirk úrgangsefni hrannast upp, loftslag og veðurfar breytist ört, plastúrgangur flýtur um úthöfin og plastið laumar sér inn í lífverurnar. Enginn er óhultur. Við höfum undanfarin ár séð sífellt meiri öfgar í veðurfari, stórviðri, hamfaraflóð eða langvarandi þurrkar, sem rekja má til hlýnunar jarðar og athafna mannsins í hinu stóra samhengi. Fólk er á flótta undan loftslagsbreytingum sem klippa á lífsafkomu þess í heimahögunum. Allt líf, eins og við þekkjum það, á undir högg að sækja.
Hvað myndi David Bowie gera?
Við búum á því litla horni jarðar sem nýtur forréttinda í hagkerfi heimsins. Við getum búið við kolskakkan vöruskiptajöfnuð, eytt og spennt, og reitt okkur á innflutning á vörum og þjónustu eins og þarf frá öllum heimshornum. Kolefnisspor – hvað? Það er ekkert auðvelt að breyta venjum sínum og lífsstíl. Sérstaklega þegar allt er bara svona frekar næs og ekkert amar að hjá okkur. Af hverju ættum við að selja bílinn, kaupa minna, hætta við utanlandsferðina og ganga eða taka strætó í vinnuna, þegar allt er í fína? Er ekki bara betra að biðja um breiðari götur og fleiri bílastæði? Ef allir jarðarbúar hegðuðu sér eins og Íslendingar þyrftum við fjórar jarðir. Og auðlindir jarðar eru ekki ótakmarkaðar.
Við erum hluti af vandamálinu – og við þurfum líka að vera hluti af lausninni. Við verðum að breyta sjálfum okkur og lífsstíl okkar vegna þess að það er mikilvægt að hver og einn leggi fram sinn litla skerf. En það er líka gaman og hollt að breytast. Ef David Bowie hefði aldrei farið úr Ziggy Stardust gallanum og haldið sig við glam-rokkið allt sitt líf hefði hann fyrir löngu verið gleymdur og grafinn. Reynum að læra svolítið af David Bowie: Verum óhrædd við breytingar, finnum löngunina til að fylgja kalli tímans, til að breytast, til að rífa okkur upp úr hjólförum vanans … – því stöðnun er dauði. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna er að innleiða hringrásarhagkerfið, hætta að sóa og henda, og nýta betur það sem við eigum. Og eiginlega ættum við að kýla á það sem fyrst – strax í dag?
Hvað með Mick Jagger? Ennþá í sömu görmunum og sömu lögin.