„Ég ætla að berjast gegn því að fá þetta í Seyðisfjörð,“ segir Helgi Hlynur Ásgrímsson, sveitarstjórnarmaður Vinstri grænna úr minnihlutanum í Múlaþingi aðspurður um viðhorf hans til fyrirhugaðs laxeldis Ice Fish Farm í sjókvíum í Seyðisfirði. „Ég get ekki stutt þetta ef 74 prósent íbúa er á móti þessu,“ segir hann. „Við í minnihlutanum erum að pota í þetta efni stanslaust og erum orðin nokkuð sammála um að berjast gegn þessu.“
Með orðum sínum vísar Helgi Hlynur til nýlegrar viðhorfskönnunar meðal íbúa Múlaþings þar sem fram kom að 3/4 hlutar íbúanna væru á móti laxeldi í sjókvíum í Seyðisfirði. Greint var frá niðurstöðunni á vefsíðu sveitarfélagsins Múlaþings í febrúar.
„Í prinsippi er ég ekki á móti laxeldi í sjókvium en þegar almennir borgarar rísa svona harkalega gegn þessu þá er ekki hægt að þröngva þessu ofan í kokið á þeim“
Hann segir að minnihlutinn í sveitarstjórninni sé orðinn meira einhuga en áður um þessa andstöðu við laxeldið í Seyðisfirði vegna þessarar viðhorfskönnunar. „Minnihlutinn er orðinn nokkuð sammála um að vilja koma í veg fyrir þetta. Það var ekki þannig í kosningunum síðast. En það er bara orðið svo ljóst að íbúar vilja þetta ekki og þó svo að einhverjir í minnihlutanum hafi verið á þeirri skoðun að þetta hafi getað verið gott fyrir Seyðisfjörð þá er að ekki lengur þannig.“
Getur ekki farið gegn vilja meirihlutans
Annar sveitarstjórnarmaður í minnihlutanum í Múlaþingi, Eyþór Stefánsson, segir að hann sé ekki mótfallinn laxeldi í sjókvíum sem slíku og hafi ekki verið á móti því í Seyðisfirði fyrir síðustu kosningar. Hins vegar þá geti hann ekki farið gegn vilja meirihluta íbúa. „Í prinsippi er ég ekki á móti laxeldi í sjókvíum en þegar almennir borgarar rísa svona harkalega gegn þessu þá er ekki hægt að þröngva þessu ofan í kokið á þeim. Við höfum hins vegar afskaplega takmörkuð vopn til að berjast gegn þessu þar sem sveitarstjórnir hafa ekki skipulagsvald yfir fjörðunum heldur ríkið. Og nú er farið í gang ferli um þetta eldi sem ríkið stýrir og lögformleg aðkoma sveitarfélagsins að því er afar lítil,“ segir Eyþór.
Andstaðan hvergi eins mikil og á Seyðisfirði
Hvergi á Íslandi hefur verið eins mikil andstaða við fyrirhugað laxeldi og á Seyðisfirði, líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum. Stofnuð hafa verið sérstök félagasamtök meðal annars, VÁ- félag um vernd fjarðar, sem berjast gegn því að sjókvíum verði komið fyrir í Seyðisfirði.
Eitt af því sem er áhugavert við þessa baráttu í Seyðisfirði er að laxeldi er stundað í öðrum fjörðum á Austurlandi og í Múlaþingi, meðal annars í Berufirði og á Djúpavogi. Því er það ekki svo að laxeldið í Seyðisfirði sé það fyrsta sem koma á niður í firði á Austurlandi en sem fyrr segir er þessi mikla andstaða við það. „Þetta er nú dálítið sérstakt þar sem við erum nú þegar með laxeldi á Djúpavogi og í Berufirði sem sátt hefur ríkt um,“ segir Helgi Hlynur.
Á miðvikudag, 15. mars, fór fram fimm og hálfs tíma langur fundur í sveitarstjórn Múlaþings þar sem aðallega var rætt um laxeldisáform Ice Fish Farm í Seyðisfirði, segir Helgi Hlynur.
Áður en fundurinn hófst kom Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri Ice Fish Farm og fyrrverandi sveitarstjórnarmaður, á fund stjórnarinnar og ræddi um laxeldi félagsins á Austurlandi. Eitt af því sem Jens Garðar ræddi um var fyrirhugað laxeldi í Seyðisfirði. Helgi Hlynur segir að gott hafi verið að fá Jens Garðar á fundinn til að ræða um sjónarmið og sýn Ice Fish Farm. Líkt og Heimildin greindi frá fyrir skömmu þá keypti Jens Garðar nýlega hlutabréf í Ice Fish Farm og á í dag hlutabréf í fyrirtækinu upp á um 30 milljónir króna.
Atkvæði féllu jöfn
Eitt af því sem gert var á fundi sveitarstjórnar Múlaþings í gær var að minnihlutinn lagði fram tillögu um að stjórnin ætti að standa með vilja meirihluta íbúanna um að leggjast gegn laxeldi í Seyðisfirði. Helgi Hlynur segir hins vegar að þegar kosið var um tillöguna hafi atkvæðin fallið jöfn. Þess vegna var ekki meirihluti fyrir því að sveitarstjórn að taka undir vilja meirihluta íbúa að vera á móti laxeldinu. „Þessi tillaga minnihlutans féll á jöfnu. En auðvitað er það þannig að það er erfiðara fyrir fyrirtæki að hefja laxeldi hér ef það er í andstöðu við vilja íbúa.“
Hins vegar er það svo að hvorki sveitarstjórn né íbúar Múlaþings hafa nokkuð um það að segja hvort það verði laxeldi í Seyðisfirði eða ekki. Umsóknir Ice Fish Farm um að hefja laxeldi í Seyðisfirði er komnar langt í kerfinu og geta hvorki íbúar né sveitarstjórn stýrt því hvort stofnanir eins og MAST og Skipulagsstofnun heimili laxeldið. „Það þarf eitthvað að breytast til þess að þetta sé ekki að koma þarna. Þetta er smá svona með hjól atvinnulífsins: Þau mylja allt undir sig. Það eiga bara tvær stofnanir eftir að gefa leyfi sitt.“
Þrátt fyrir vilja meirihluta íbúa í Múlaþingi um að leggjast gegn laxeldi í Seyðisfirði virðist þessi staðreynd hins vegar ekki skipta máli á endanum þar sem málið er ekki í höndum sveitarfélagsins heldur stofnana ríkisins.
Helgi Hlynur telur að eitt af því sem Ice Fish Farm þurfi að gera núna sé að kynna starfsemi fyrirtækisins fyrir íbúum og reyna að fá þá í lið með sér þar sem erfitt sé fyrir fyrirtæki að hefja rekstur sem svo margir eru á móti.
Ekki náðist í Jens Garðar Helgason hjá Ice Fish Farm við vinnslu fréttarinnar.
Hvað annað á svo sem að gera við þennan fjörð ?
kemur margoft yfir sumarið, er pláss fyrir það líka?