Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra segir að vextir hér á landi séu í fyrsta lagi hærri en víða annars staðar vegna þess að hagvöxtur á Íslandi sé hærri en til að mynda á evrusvæðinu. Í öðru lagi sé meiri spenna á vinnumarkaðnum og þar af leiðandi ekkert óeðlilegt að hér séu hærri stýrivextir. Í þriðja lagi hafi einkaneysla á Íslandi verið mikil og meiri en á evrusvæðinu.
Þetta kom fram í svari ráðherrans í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar hóf fyrirspurn sína á því að benda á að flestar þjóðir glími nú við verðbólgu og eðlilega séu seðlabankar þeirra að hækka vexti. „Þetta er allt eftir bókinni og það sama gildi hér. En á hinn bóginn erum við með hærri vexti hér en allar aðrar þjóðir sem eru að glíma við sömu verðbólgu. Og það sem meira er, við þurfum um alla framtíð að búa við tvöfalt og jafnvel þrefalt hærri vexti hér en annars staðar. Gylfi Zoëga hagfræðingur, svo að ég vitni í hann, dró fram og skýrði þennan vanda að við værum í raun þjóð sem væri að nota marga gjaldmiðla og Seðlabankinn hefði bara stjórn á einum þeirra. Þetta sagði Gylfi Zoëga.“
Hún sagðist langa til að heyra frá Lilju hvernig hún skýrði þennan vaxtamun þegar barist væri við svipaða verðbólgu og annars staðar. „Það var athyglisvert sem ráðherra sagði um hvalrekaskatt sem hún minntist á hér fyrr í vetur en nú sjáum við til að mynda að árs arðgreiðsla Brims jafngildir sjö ára greiðslum auðlindagjalds í ríkissjóð. Formaður Framsóknarflokksins ljáði líka fyrr í vetur máls á aukinni gjaldtöku á sjávarútveg. Þingflokksformaður Vinstri grænna hefur talað um aukinn bankaskatt.“
Spurði Þorgerður Katrín hvort búast mætti við því að sjá breytingar í þessa veru í næstu fjármálaáætlun sem verður lögð fram eftir þrjár vikur. „Mun hæstvirtur ráðherra beita sér fyrir þessum sköttum sem hún nefndi á sínum tíma, hvalrekaskatti og aukinni gjaldtöku á sjávarútveg?“ spurði hún.
Verðbólgan óvinur númer eitt
Lilja svaraði og þakkaði Þorgerði Katrínu fyrir mjög góðar spurningar sem ættu svo sannarlega við hagstjórnina og þann vanda sem Íslendingar stæðu frammi fyrir sem væri verðbólgan. „Hún er óvinur númer eitt þessa dagana á Íslandi,“ sagði hún.
Varðandi hærri vexti á Íslandi en til að mynda á evrusvæðinu þá sagði Lilja að í fyrsta lagi væri mun hærri hagvöxtur á Íslandi en á evrusvæðinu. Í öðru lagi væri meiri spenna á vinnumarkaðnum en á evrusvæðinu og þar af leiðandi ekkert óeðlilegt að hér á landi væru þá hærri stýrivextir. „Einnig vil ég nefna, og kannski þriðja þáttinn, að einkaneysla hefur verið mikil og meiri en á evrusvæðinu.“
Hún sagði að samanburður við evrusvæðið væri mjög mikilvægur vegna þess að evrusvæðið og EES-svæðið væru gríðarlega mikilvæg fyrir öll viðskipti Íslendinga. „Þá er því til að svara að til að mynda verðbólga í mörgum ríkjum þar, eins og Eystrasaltsríkjunum — ég nefni Eistland, þeim hefur gengið gríðarlega vel en þar er verðbólga 18 til 19 prósent. Stýrivextir eru ekki háir á evrusvæðinu og fyrir hagkerfi eins og Eistland er ekkert endilega gott að vextir séu þá lægri. Verðbólga er mjög mismunandi eftir því hvaða ríki við lítum á. Ég nefni Eistland. Sums staðar er verðbólgan mun minni en öll hagkerfi heimsins eru að glíma við verðbólgu í kjölfar COVID og aðgerða sem voru mjög vel heppnaðar en það tekur tíma að við náum stöðu þar,“ sagði ráðherrann.
Ríkisstjórninni veiti ekki af þjóðarsátt
Þorgerður Katrín sagði í framhaldinu að vissulega væru allir á evrusvæðinu eins og hér á landi að glíma við þessa sömu verðbólgu. „Málið er að við sitjum síðan eftir, eins og sagan sýnir, með viðvarandi háa vexti, viðvarandi tvöfalda til þrefalda vexti, hærri vexti hér heldur en annars staðar. Það veikir samkeppnisstöðu okkar Íslendinga. Það þýðir líka að við þurfum að vinna lengur til þess að skapa sömu verðmæti.“
Vísaði þingmaðurinn í orð ráðherra fyrr á árinu þar sem hún sagði að verðbólguvæntingar hjá fyrirtækjum væru of háar. „Þau verða að hafa trú á að verðbólgan náist niður. Nú sjáum við það að í ársskýrslu eins fyrirtækis sem heldur hluthafafund sinn í dag, er meðal annars verið að draga fram að krónan sé helsta ógnin og það er svolítið eins og markaðurinn sé búinn að missa trú á hagstjórninni.
Ég myndi vilja fá viðbrögð ráðherra við þessu. Síðan hvort það sé ekki alveg ljóst að ef og þegar við förum í þjóðarsátt, mér sýnist nú ríkisstjórninni ekki veita af þjóðarsátt, þá verði það að ná til allra hópa. Þá verði enginn undanskilinn því að gangast undir þjóðarsátt og að það verði líka farið af einurð í það að ná aga á útgjaldaþenslu ríkisstjórnarinnar.“
Mikilvægt að skoða þær aðstæður sem eru í viðkomandi hagkerfi
Lilja kom aftur í pontu og sagði að þegar verið væri að ræða um vexti og verðbólgu þá endurspegluðu vextirnir iðulega það hagkerfi sem þeir störfuðu í.
„Ekki er hægt að rjúfa þetta samband. Ég tel stundum, þegar við erum að ræða um vaxtastig, að það sé svo mikilvægt að við skoðum þær aðstæður sem eru í viðkomandi hagkerfi. Eins og ég nefndi hér í mínu fyrra svari er mjög mikill hagvöxtur á Íslandi og við höfum alveg sýnt að við erum hagkerfi sem er að vaxa mjög mikið og það er mjög jákvætt,“ sagði hún.
Ráðherrann deilir þeirri skoðun með Þorgerði Katrínu að auðvitað sé það slæmt þegar vaxtastigið er hátt. „En til þess að ná vöxtunum niður þurfum við að ná niður verðbólgu. Ég er hjartanlega sammála háttvirtum þingmanni að það er mjög mikilvægt að ná sátt um þá stöðu sem við erum í. Ég hef verið að horfa til einhvers sem myndi heita stöðugleikasáttmáli þjóðarinnar og við verðum að komast á þann stað. Ég deili því líka með háttvirtum þingmanni að það er mjög mikilvægt að allir taki þátt í því. Háttvirtur þingmaður nefndi hugmyndir um hvalrekaskatt. Já, ég er svo sannarlega enn á því til þess að mynda þá sátt sem nauðsynleg er í samfélaginu okkar.“
Athugasemdir