„Fjárfesting erlendra aðila á markaði hér á landi er mun minni en á Norðurlöndum. Það er ekki vegna þess að það sé skortur á afli, þekkingu, hugviti eða dugnaði í íslensku atvinnulífi, heldur er skýringuna að finna í íslensku krónunni, sem er versti óvinur atvinnulífsins og fólksins í landinu - en meira um það síðar.“
Þetta skrifar Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður SKEL, í ávarpi sínu sem birtist fremst í ársskýrslu fjárfestingafélagsins sem gerð var opinber í dag. Þar segir Jón Ásgeir að hann hafi sagt við hluthafa félagsins að það að hafa fjárfestingafélag skráð á Íslandi sé tilraun sem enn á eftir að sjá hvort eigi rétt á sér. „Ég hef fulla trú á henni og vona að við munum laða að okkur innlenda sem erlenda fjárfesta sem geta fjárfest í hinum ýmsu greinum íslensks atvinnulífs í gegnum SKEL.“
Könnun sem Maskína gerði fyrir Evrópuhreyfinguna í síðasta mánuði sýndi að fleiri landsmenn eru fylgjandi þvi að ganga í Evrópusambandið en eru á móti því. Alls sögðust 40,8 prósent vera hlynnt inngöngu en 35,9 prósent voru á móti.
Þetta var fjórða könnunin sem gerð hefur verið undanfarið ár sem sýnir fleiri fylgjandi því að ganga í Evrópusambandið en eru á móti því, þótt stuðningur við aðild fari dalandi.
Í mars í fyrra birtust niðurstöður úr Þjóðarpúlsi Gallup sem sýndu að 47 prósent landsmanna væru hlynnt aðild að Evrópusambandinu en 33 prósent mótfallin henni. Það var í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem meirihluti mældist fyrir aðild í könnunum hérlendis.
Hlutfall þeirra sem eru hlynntir inngöngu Íslands í sambandið hafði raunar ekki mælst meira en rúmlega 37 prósent í mánaðarlegum könnunum sem MMR framkvæmdi frá 2011 og út árið 2021. Í síðustu könnun fyrirtækisins, sem var gerð í desember það ár, mældist stuðningurinn 30,4 prósent en 44,1 prósent voru á móti. MMR rann svo inn í Maskínu og því er nýja könnunin, sú sem greint er frá hér að ofan, sú fyrsta sem fyrirtækið gerir sem sýnir meirihluta fyrir aðild.
Allur hagnaður vegna gangvirðisbreytinga
SKEL fjárfestingafélag hét áður Skeljungur í 93 ár. Nafni og tilgangi félagsins var breytt í byrjun árs 2022 samhliða því að tilkynnt var um 6,9 milljarða króna hagnað á árinu 2021. Sá hagnaður var nær allur tilkominn vegna sölu á færeyska dótturfélaginu P/F Magn á árinu 2021, en bókfærð áhrif þeirrar sölu á tekjur Skeljungs í fyrra voru 6,7 milljarðar króna.
Í fyrra var hagnaðurinn enn meiri, 17,5 milljarðar króna.
Sá hagnaður kom allur til vegna þess að gangvirði fjáreigna og fjárfestingaeigna var fært upp um 18,9 milljarða króna. Það er tilkomið vegna þess að þegar SKEL var breytt í fjárfestingafélag voru eignir þess færðar á gangvirði í gegnum rekstur. Þær helstar eru Orkan, Skeljungur, Gallon og 48,3 prósent hlutur í S/P Orkufélaginu, móðurfélagi P/F Magn sem er orku-, verslunar og olíudreifingarfyrirtæki í Færeyjum. SKEL tilkynnti í gær að nýr samningur um sölu á hlutnum í S/P Orkufélaginu hafi verið undirritaður við CIG. Kaupverðið er um 146 milljónir danskra króna, rúmir þrír milljarðar króna. Greitt verður fyrir hlutina með reiðufé á afhendingardegi, sem áætlað er að verði í lok mars 2023.
Eignir SKEL voru metnar á 38,5 milljarða króna í lok síðasta árs og eigið fé félagsins var 33,4 milljarðar króna. Markaðsvirði SKEL um þessar mundir er 30 milljarðar króna.
SKEL æltar að greiða hluthöfum sínum 600 milljónir króna í arð vegna frammistöðu síðasta árs.
Jón Ásgeir að eignast hlut í fjárfestingabanka
Til viðbótar byggði SKEL upp stöðu í VÍS á árinu 2022, sem nú er alls 8,97 prósent. Sú staða gerir félagið að stærsta einkafjárfestinum í tryggingafélaginu og næst stærsta eiganda þess. Sá hlutur var bókfærður á 2,6 milljarða króna um síðustu áramót. Þá á SKEL 14,5 prósent hlut í Kaldalóni.
Strengur, eignarhaldsfélag sem stjórnarformaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson fer fyrir, á 50,1 prósent hlut í SKEL og hefur því tögl og hagldir innan þess.
Helgi Bjarnason, sem hafði verið forstjóri VÍS síðan 2017, var rekinn í upphafi þessa árs. Í febrúar var greint frá því að VÍS og Fossar fjárfestingabanki hefðu ákveðið að hefja viðræður um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum. Verði af sameiningunni munu hluthafar Fossa fá 13,3 prósent hlut í sameinuðu félagi. Miðað við það verð sem gengið er út frá eru Fossar metnir á um fimm milljarða króna í samrunanum.
Í upphafi er lagt upp með að Guðný Helga Herbertsdóttir, sem tók við af Helga sem forstjóri VÍS, og Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka, muni sameiginlega leiða félagið. Framtíðarskipulag samstæðu verður svo skoðað í kjölfar samrunans, verði af honum.
Gangi samruninn eftir verður fjárfestingafélag sem stýrt er af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni því orðið stærsti einkafjárfestirinn í fjárfestingabanka á Íslandi. Jón Ásgeir var síðast í slíkri stöðu innan Glitnis fyrir bankahrun, þegar félög sem hann leiddi stýrðu þeim banka síðustu metrana áður en hann féll í október 2008.
Athugasemdir (1)