1Annaðist umsýslu og sölu eigna sem voru mörg hundruð milljarða króna virði
Lindarhvoll ehf. var stofnað í apríl 2016 til að annast umsýslu og sölu stöðugleikaeigna sem ríkið fékk afhent í kjölfar samkomulags við kröfuhafa föllnu bankanna. Um var að ræða eignir sem voru mörg hundruð milljarða króna virði. Á meðal þessara eigna voru svokallaðar fjársópseignir – eignir sem slitabú bankanna héldu eftir og seldu en afrakstur þeirrar sölu rann í ríkissjóð.
2Félaginu slitið 2018
Í febrúar 2018 var greint frá því að félagið hefði lokið hlutverki sínu og yrði slitið. Alls nam andvirði þeirra stöðugleikaeigna sem búið var að innleysa um 207,5 milljörðum króna en frátalin voru framlög vegna viðskiptabankanna Arion banka og Íslandsbanka og aðrar óinnleystar eignir.
3
Barist um Klakka
Fjölmiðlar fjölluðu ítrekað á þessu tímabili um ráðstafanir á eignum sem Lindarhvoll hélt á. Sú sem vakti mesta tortryggni var sala á 17,7 prósenta hlut í Klakka ehf., sem hét á árum áður Exista. Klakki átti á þeim tíma allt hlutafé í eignaleigufyrirtækinu Lykli. Félagið BLM fjárfestingar, dótturfélag vogunarsjóðsins Burlington Loan Management, átti hæsta tilboðið í hlut ríkisins í Klakka en það hljóðaði upp á 505 milljónir króna. Félagið Ásaflöt bauð 502 milljónir í hlutinn en þriðja tilboðið, sem hljóðaði upp á 501 milljón króna, barst frá Frigus II í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona, fyrrverandi aðaleigenda Exista, og Sigurðar Valtýssonar, fyrrverandi forstjóra Exista.
Eigendur Frigusar voru mjög ósáttir við söluna og lýstu því yfir að með henni hefði átt sér stað sala á eigum ríkisins til sérvalinna aðila án þess að reynt hefði verið að hámarka söluandvirðið.
4
Stjórn Lindarhvols sendi frá sér yfirlýsingu
Stjórn Lindarhvols sagði í yfirlýsingu í nóvember 2016 að sala á hlut félagsins í Klakka ehf. hefði að öllu leyti verið í samræmi við reglur um starfsemi félagsins og að gagnsæi hefði að fullu verið tryggt í söluferlinu. Stjórnin gerði jafnframt margháttaðar athugasemdir við fréttaflutning af sölunni.
5
Engar athugasemdir gerðar við rekstur Lindarhvols í niðurstöðum Ríkisendurskoðunar
Salan á hlut í Klakka var tekin til sérstakrar umfjöllunar í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út í maí 2020. Í niðurstöðum hennar sagði að eðlilega hefði verið staðið að sölunni. Í skýrslunni voru engar athugasemdir gerðar við störf stjórnar Lindarhvols eða rekstur en þar kom fram að stöðugleikaframlagið hefði skilað 460 milljörðum króna í ríkissjóð. Upphaflega var ætlað að tekjur ríkisins vegna þess yrðu 384 milljarðar króna. Þær voru því 76 milljörðum krónum meiri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Í skýrslunni var ekkert fjallað um hverjar fjársópseignirnar voru, hvernig þær voru seldar né hverjir fengu að kaupa þær.
6
Þjónusta fyrir 80 milljónir króna
Í stjórn Lindarhvols sátu Þórhallur Arason, formaður stjórnar og starfsmaður í fjármálaráðuneytinu, Ása Ólafsdóttir, meðstjórnandi, og Haukur C. Benediksson, meðstjórnandi. Sá sem sá um starfsemi Lindarhvols utan stjórnar var lögmaðurinn Steinar Þór Guðgeirsson. Hann var meðal annars prókúruhafi félagsins og Lindarhvoll keypti lögfræðiþjónustu frá fyrirtæki hans, Íslögum ehf. Alls var keypt þjónusta fyrir 80 milljónir króna án virðisaukaskatts af stofu Steinars og Ríkisendurskoðun kannaði sérstaklega hvort að það hefði átt að bjóða út þá þjónustu sem hún annaðist.
7
Beðið er dóms
Forsvarsmenn Frigusar telja sig hafa verið hlunnfarna af Lindarhvoli, og þar með íslenska ríkinu, í viðskiptunum og krefjast skaðabóta upp á rúmlega 650 milljónir króna. Málflutningur fór fram í janúar síðastliðnum og nú er beðið dóms í málinu. Í málflutningnum kom meðal annars fram að Kvika banki hefði leppað kauptilboð Frigusar og í máli Ásgeirs Reykfjörðs Gylfasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Kviku banka, fyrir dómi kom fram að það hefði meðal annars verið gert vegna þess að stemningin í samfélaginu hefði verið þannig að bræðurnir Ágúst og Lýður, sem oftast eru kenndir við Bakkavör, hefðu ekki getað átt eftirlitsskylt fjármálafyrirtæki.
8
Hin margumrædda greinargerð Sigurðar ekki birt opinberlega
Sveinn Arason, sem var ríkisendurskoðandi á tímabilinu 2008 til 2018, lýsti sig vanhæfan til að endurskoða ársreikning Lindarhvols. Ástæðan fyrir því að Sveinn annaðist ekki endurskoðun ársreikninga Lindarhvols var sú að bróðir hans, Þórhallur Arason, var stjórnarformaður Lindarhvols. Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, var fenginn árið 2016 til að annast endurskoðun ársreikningsins.
Þegar Sveinn hætti sem ríkisendurskoðandi og Skúli Eggert Þórðarson tók við starfinu var vanhæfið ekki lengur til staðar. Sigurður skilaði Alþingi greinargerð um Lindarhvol árið 2018. Greinargerðin hefur legið hjá forsætisnefnd Alþingis og Sigurður hefur verið opinskár með að hann telji að hana eigi að birta. Fjölmiðlar hafa ítrekað óskað eftir að fá hana afhenta án árangurs.
9
Vinnuskjal eða ekki?
Forsætisnefnd lét vinna lögfræðiálit um málið þar sem fram kemur að ekkert komi í veg fyrir að greinargerð Sigurðar verði birt. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hefur neitað að birta greinargerðina og meðal annars borið fyrir sig að umfjöllun um málið sé ekki lokið í nefndinni. Hann hefur sagt greinargerðina vera vinnuskjal Ríkisendurskoðunar og ekki heyra undir Alþingi.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði á Alþingi þegar hann var spurður í byrjun febrúar síðastliðinn út í greinargerðina að hann liti þannig á málið að þegar Ríkisendurskoðun væri falið að skoða tiltekin málefni þá gæti bara verið ein skýrsla frá ríkisendurskoðanda. „Sú skýrsla er komin út, hún var gefin út og það getur bara verið ein skýrsla í hverju máli. Það sem vísað er til er ekki endanleg skýrsla setts ríkisendurskoðanda heldur einhvers konar skjal, sem ég kann ekki nánari deili á og hef ekki séð, og getur ekki hafa verið endanleg niðurstaða í málinu.“
10
Fær ekki að leggja fram fyrirspurn um innihald greinargerðarinnar
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, óskaði eftir því í byrjun mars að fá að leggja fram fyrirspurn til forseta þingsins um innihald greinargerðarinnar um Lindarhvol. Beiðni Jóhanns Páls var synjað með 28 atkvæðum gegn 14 á Alþingi þann 6. mars. Þetta var í fyrsta sinn í 34 ár sem þingmaður þurfti að leggja það í dóm Alþingis hvort hann fengi að bera fram spurningar til þingforseta um tiltekið mál.
Athugasemdir (1)