Í kynningum er íslenskri menningu gjarnan hampað á háfleygum og jafnvel yfirdrifnum forsendum. Ísland er land náttúrunnar, sagnalistar og tónlistar, svo eitthvað sé upptalið, og jú, land jafnréttis og stéttleysis. Einstætt land – séu afburðirnir mældir út frá meðaltali – eins og Ari Eldjárn gantaðist með á Netflix. Við erum best í öllu – miðað við fámennið. Líka kulnun, býst ég við.
Hönnun á ímynd landsins, markaðssett og fjármögnuð, er svo sannfærandi að á vissan hátt trúum við henni sjálf. Við – já, við! – þetta samfélag sem tökum tásumyndir á Tene, sötrum græna drykki, kvörtum undan heilbrigðiskerfinu, lesum fréttir um fólk á skammarlega lágum launum fara í verkfall, rífumst um áramótaskaupið og lesum ófá Arnald á aðfangadagskvöld. Ég hef þetta eftir geimveru sem stakk menningarmæli örsnöggt inn í iður samfélagsins og við fyrstu mælingu voru þessi atriði afgerandi.
En hvað er íslensk menning?
Kannski biðröðin á læknavaktinni – datt mér í hug eftir að hafa lesið Facebook-færslu Margrétar Marteinsdóttur, blaðakonu hér á Heimildinni, þar sem hún kvaðst hafa verið númer 246 í biðröðinni þar, innan um fjölmörg börn. Eða er íslensk menning fólk í láglaunastörfum á leigumarkaði sem eygir ekki mannsæmandi líf í þessu þó auðuga landi?
Er það fólkið sem leitar til mæðrastyrktarnefndar til að geta haldið jól fyrir börnin sín?
Er íslensk menning kannski grænmetisbásinn í Bónus?
Felst íslensk menning í tónleikum á Fiskidögunum á Dalvík, fjármögnuðum af Samherja?
Býr hún í umferðarteppunum og svifrykinu klukkan hálf níu á hinum og þessum umferðaræðum höfuðborgarinnar?
Eru almenningssamgöngur birtingarmynd menningar okkar?
Er íslensk menning aumt kreditkortið þegar allt hækkar hraðar en baunagrasið hans Jóa?
Eða er íslensk menning íslenskir ostar?
Hvernig er menning skilgreind?
Skilgreining netsins
Við að gúgla menningu birtist eftirfarandi skilgreining á Wikipediu: Menning er sú heild þekkingar samfélags svo sem trú, siðir, saga og tungumál. Margar mismunandi skilgreiningar eru til á menningu. Menning hefur einnig verið skilgreind sem „lífsmynstur heilla samfélaga“[1].
Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hefur einnig lagt til að menning sé skilgreind sem: „... samsafn þeirra trúarlegu, efnislegu, vitrænu og tilfinningalegu þátta sem einkenna hvert samfélag eða samfélagshóp. Listir og bókmenntir teljast til menningar, en einnig lífsstíll, sambúðarform, mannleg gildi, hefðir og skoðanir.“[2]
Eftir að hafa lesið þetta lá beinast við að gúgla íslensk menning. Þá birtist aftur frjálsa alfræðiritið Wikipedia. Og efst stendur: Íslensk menning er menning Íslendinga. Hún er þekkt fyrir bókmenntasögu sína, sem er byggð á höfundum frá 12. og 14. öldum.
Hvernig niðurstöður netsins birtast – og í hvaða röð – eru sannleikur út af fyrir sig.
Næsta niðurstaða, á eftir Wikipediu, var á bland.is. Hvað er íslensk menning? hafði einhver Ahaaaa spurt.
Og síðan skrifaði Ahaaaa: „Fólk er endalaust að tala um að varðveita íslenska menningu en hvað í fjáranum er það?? Hefur m.a. verið notað sem rök til að halda útlendingum í burtu. Stöffið á þjóðminjasafninu? Ekki ætla útlendingar að mölva það?? Frjálræði? Ekki er það sér íslenskt!! Súrsaðir hrútspungar og slátur? Þurfum við þá ekki að byrja á að banna pitsur og hamborgara ef þetta er það sem á að varðveita? Íslenskan? En hún hefur breyst svo hrikalega mikið sl. 1000 ár, af hverju allt í einu núna að frysta hana?? Ef við ætlum í alvörunni að frysta hana í núverandi horfi þurfum við þá ekki að fara að döbba allt sjónvarpsefni?? Held að það hafi meiri áhrif en phillipseyingjar í breiðholtinu! Hvað í fjandanum er það sem við ætlum svona voðalega mikið að varðveita við íslenska menningu???“
Umræður um íslenska menningu
Í fyrstu virðist enginn svara því Ahaaaaa skrifar aftur: „Þið eruð náttúrulega algjört bingó... getið rætt klst saman um plástra með eða án myndum en neitið að ræða um hvort íslensk menning er til eður ei!! LOL“
Þá svarar loks einhver sem kallar sig trillu: „Þetta er svo rosalega stórt og vítt efni að ég hreinlega treysti mér ekki til að skilgreina íslenska menningu í einni setningu.“
Síðan bætir trilla við: „En íslensk menning er klárlega til, bara spurning hvort það sé hægt að skilgreina menningu á einhvern concrete hátt.“
Þá spyr Ahaaaa: „En að koma með dæmi um e-ð sem er í ykkar huga partur af íslenskri menningu og pæla svo í því hvort það sé e-ð sem þið eruð æstar í að varðveita?“
Einhver sem kallar sig Spain skrifar þá : „Ég þori varla að svara gæti verið drepin :/ “
Og Ahaaaa skrifar að bragði: „Oh well - ég sé amk ekkert sem mig langar svo mikið til að varðveita að ég er tilbúin til að loka landinu fyrir fólki sem langar að koma hingað!“
Næst segir einhver Arriba: Sé heldur enga ástæðu til að loka landinu fyrir fólki þó við höldum í okkar menningu. Skrítin uppsetning. Ef við höldum t.d. fast í séríslenska hefð - þorrablótin - finnst þér þá að það þurfi að loka landinu?“
Umræður sem þessar eru íslensk menning. Spriklandi vangaveltur um menningu. Menningarsíðurnar auglýsa hér með eftir áhugasömum um að skrifa um menningu á íslensku, enda blaðið á íslensku. Kannski er tungumálið það eina sem sameinar allt þetta alls konar sem við köllum íslenska menningu. Eða, kannski, einmitt ekki. Kannski að menning, kennd við Ísland, hafi sprengt tungumálið utan af sér. Sitt sýnist hverjum. Pælum í menningu!
Athugasemdir