Forsvarsmenn Íslandsbanka neita að gefa upp hversu háa fjárhæð bankinn hefur lagt til hliðar, vegna fyrirsjáanlegrar sektar sem fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands leggur á bankann vegna lögbrota í tengslum við einkavæðingu bankans.
„Við höfum ekki gefið það upp,“ sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, á kynningarfundi vegna ársuppgjörs bankans í höfuðstöðvum hans í dag. Í ársreikningi Íslandsbanka sem kynntur var í gær var greint frá því að bankinn hefði lagt til hliðar ótilgreinda upphæð til að standa straum af fyrirsjáanlegri fjársekt. Ekki var gefið upp hversu háa upphæð bankinn teldi sig þurfa að greiða.
Vilja ekki sýna á spilin
Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri bankans, var einnig til svara á fundinum og skýrði leyndina þannig að í raun og veru vissi bankinn ekki hversu há endanlega sekt yrði. „Við vitum ekki ennþá hvað mun koma frá þeim,“ sagði Jón Guðni. „Við höfum ekki ennþá hafið þær samræður,“ bætti hann við en kvaðst þó aðspurður ekki líta svo á að upphæðin yrði eitthvað samningsatriði milli fjármálaeftirlitsins og bankans.
„Við erum bara ennþá að klára að afhenda gögn og bregðast við áliti eftirlitsins, koma að andmælum um alla þessa þætti,“ sagði Birna og lagði áherslu á að regluverk skráðra félaga eins og Íslandsbanka gerði ráð fyrir því að upplýst væri um fyrirsjáanleg fjárútlát bankans.
„Við setjum inn upphæð sem er byggð á okkar mati en á móti viljum við heldur ekki vera að hafa áhrif á Seðlabankann“
Fjármálaeftirlitið hefði ekki tilkynnt bankanum um fjárhæð sektarinnar og upphæðin sem bankinn setti til hliðar er því byggð á mati bankans sjálfs á mögulegri sekt.
Spurð hvort ekki væri eðlilegt að það mat forsvarsmanna bankans, væri gert opinbert, var á fjármálastjóra bankans að heyra að bankinn vildi ekki láta líta svo út fyrir að hann væri að reyna að hafa áhrif á ákvörðun fjármálaeftirlits Seðlabankans.
„Við setjum inn upphæð sem er byggð á okkar mati en á móti viljum við heldur ekki vera að hafa áhrif á Seðlabankann,“ sagði Jón Guðni fjármálastjóri. „Þegar við síðan hittum þau á fundi í næstu eða þarnæstu viku, þá geta þau auðvitað sagt okkur að segja þeim upphæðina en okkur finnst það ekki vera okkar hlutverk að segja þeim hvað þetta á að vera. Það er svona hluti af því af hverju við viljum ekki vera að segja þetta, er að við viljum ekki vera að stýra því.“
Hvað hefur breyst?
Íslandsbanki tilkynnti um það hinn 9. janúar síðastliðinn að fjármálaeftirlit Seðlabankans hefði kynnt bankanum frummat á ætluðum brotum Íslandsbanka þegar 22,5% hlutur ríkisins í bankanum var seldur í lokuðu útboði í mars í fyrra. Eins og Heimildin greindi frá í lok janúar, telur eftirlitið bankann hafa brugðist lagaskyldum sínum í tengslum við kaup starfsmanna bankans á bréfum í útboðinu. Alls tóku 8 starfsmenn bankans þátt í útboðinu.
„Það er ýmislegt sem við hefðum geta gert betur“
Í máli bankastjóra Íslandsbanka á fundinum í dag, kom fram að strax í kjölfar gagnrýni á söluferlið í bankanum hafi verið brugðist við og verklagsreglum bankans og reglur hertar. Til að mynda hafi verið þrengt enn frekar á heimildum starfsmanna bankans til hlutabréfakaupa og ríkari kröfur gerðar um rekjanleika, til að mynda með því aukinni áherslu á hljóðritun allra símtala. Áður var það undir starfsmönnum sjálfum komið að taka upp öll þau símtöl sem gátu leitt til viðskipta. Nokkuð sem fyrirfórst að gera í mörgum tilfellum.
„Þessi gagnrýni var tekin mjög alvarlega strax í upphafi og brugðist við með þessum hætti,“ sagði Jón Guðni sem sagði að ef til að mynda hinar nýju reglur um kaup starfsmanna á bréfum í bankanum, hefðu gilt á þeim tíma þegar útboðið fór fram, hefðu færri starfsmenn geta keypt, en keyptu þá.
Spurð hverju hún sæi mest eftir í framkvæmd bankans í einkavæðingarferlinu, sagði Birna:
„Það er ýmislegt sem við hefðum getað gert betur.“
-Eins og hvað þá?
„Við hefðum getað haft meiri tíma. Tíminn sem við höfðum var mjög knappur.“
Spurð að því hvort og þá til hvaða aðgerða hefði verið gripið eftir að Íslandsbanka var kynnt frummat fjármálaeftirlitsins í desember síðastliðnum, hvort gripið hefði verið til aðgerða til að mynda gagnvart starfsmönnum, sem báru ábyrgð á framkvæmdinni eða tóku þátt í útboðinu, menn færðir til eða jafnvel sagt upp störfum, sagði Birna:
„Við erum náttúrulega bara með allt í skoðun í því,“ sagði Birna sem vildi ekki svara því frekar og vísaði til þess að málið væri enn í ferli og bankinn enn að vinna í því að afhenda gögn og vinna í svari sínu til fjármálaeftirltisins. „Við erum bara búin að skoða ýmislegt í þeim efnum,“ sagði Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka.
Athugasemdir (2)