Skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Jóhann Guðmundsson, var talinn hafa gengið erinda laxeldisfyrirtækisins Arnarlax á Bíldudal þegar hann lét fresta birtingu nýrra laga um fiskeldi í einn mánuð um sumarið 2019. Þetta er það sem ráðuneytið kærði Jóhann til lögreglu fyrir árið 2020. Þetta herma upplýsingar Heimildarinnar.
Í kærunni til lögreglunnar, sem síðar áframsendi málið til embættis héraðssaksóknara, er rætt um annað mál sem varðaði reglugerð um laxeldi þar sem Jóhann var grunaður um að hafa gengið erinda Arnarlax. Fyrrverandi samstarfsmaður Jóhanns í ráðuneytinu var á þessum tíma starfandi hjá Arnarlaxi.
Héraðssaksóknari lét málið svo niður falla þar sem ekki þótti sannað að Jóhann hefði misnotað aðstöðu sína.
Í svari frá matvælaráðuneytinu, sem áður hét atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, í svari við spurningu Heimildarinnar kemur fram að ekki sé hægt að afhenda kæruna: „Ráðuneytinu er ekki heimilt að veita aðgang að erindinu [...]“
„Enda ljóst að umrædd lagabreyting myndi hafa í för með sér að umsóknarferli um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi yrði umfangsmeira, kostnaðarsamara og tímafrekara“
„Grafið undan tiltrú almennings
Í nýrri svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi á Íslandi er rakið af hverju þessi afskipti Jóhanns Guðmundssonar af gildistöku laganna skiptu máli. Þar segir meðal annars að nýju lögin um fiskeldi hafi verið strangari en þau eldri. „Mikil verðmæti eru fólgin í leyfunum enda um takmarkaða auðlind að ræða. Það kapphlaup sem vísað var til í greinargerð þess lagafrumvarps sem varð að lögum nr. 101/2019 var í raun þegar hafið og þegar ljóst var hvaða breytingar væru í vændum, sbr. niðurstöður starfshóps ráðherra í ágúst 2017, varð hvatinn til að afla rekstrar- og starfsleyfis á tilteknu svæði enn sterkari. Enda ljóst að umrædd lagabreyting myndi hafa í för með sér að umsóknarferli um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi yrði umfangsmeira, kostnaðarsamara og tímafrekara en samkvæmt eldri ákvæðum laganna.“
Lögin sem Jóhann lét fresta birtingu á voru samþykkt á Alþingi þann 20. júní árið 2019 og hefðu átt að vera birt í Stjórnartíðindum sem fyrst eftir það. Afskipti Jóhanns af birtingu laganna leiddu hins vegar til þess að lögin voru ekki birt í Stjórnartíðindum fyrr en þann 19. júlí. Degi áður, þann 18. júlí, skilaði Arnarlax inn frummatsskýrslu sinni um laxeldisáform sín.
Ríkisendurskoðun telur þetta mál Jóhanns vera það „alvarlegt“, eins og stofnunin orðar það, að hún fjallar um það í niðurstöðukafla sínum í skýrslunni. Þar segir hún að með afskiptunum af lagasetningu hafi verið „grafið undan tiltrú almennings“ á íslenskri stjórnsýslu. „Þegar umræddar breytingar voru lögfestar með breytingu á fiskeldislöggjöfinni, sbr. lög 101/2019, var grafið undan tiltrú almennings og annarra hagsmunaaðila á að jafnræðis og gagnsæis væri gætt af hálfu stjórnvalda þegar birtingu og þar með gildistöku laganna var slegið á frest af hálfu starfsmanns þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Ásýndin var sú að tiltekin fyrirtæki hefðu fengið óeðlilegt svigrúm til að uppfylla bráðabirgðaákvæði laganna og þar með tryggt að umsóknir þeirra um rekstrarleyfi þyrftu ekki að sæta málsmeðferð í samræmi við ný ákvæði laganna.“
Ekki vísað beint til kærunnar í skýrslunni
Fjallað er um kæruna frá ráðuneytinu út af máli Jóhanns Guðmundssonar í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í skýrslunni kemur fram að mál Jóhanns hafi verið sent til lögreglunnar og síðar héraðssaksóknara. Hins vegar er ekki fjallað um það af hverju eða fyrir hvern Jóhann lét fresta birtingu nýju laganna um fiskeldi og ekki er vísað beint í kæru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í skýrslunni. Þar af leiðandi kemur ekki fram á hvaða forsendum Jóhann var talinn hafa brotið af sér í starfi.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir um kæruna vegna máls Jóhanns Guðmundssonar: „Í október 2020 beindi ráðuneytið erindi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til að meta hvort skilyrði væru til að taka umræddar embættisfærslur til rannsóknar með vísan til XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Málið var framsent til héraðssaksóknara sem hóf rannsókn þess í júní 2021. Í september 2022 tilkynnti embættið matvælaráðuneyti að rannsóknin hefði ekki leitt í ljós að þáverandi starfsmaður hefði ásett sér að misnota stöðu sína sér eða öðrum til ávinnings eða til nokkurs sem hallaði réttindum einstakra manna eða hins opinbera. Ásetningur af þeim toga væri nauðsynlegt skilyrði refsiábyrgðar ...“
Stundin, annar af fyrirrennurum Heimildarinnar, greindi fyrst frá máli Jóhanns Guðmundssonar árið 2020. Þá reyndi blaðið ítrekað að ná tali af honum til að spyrja hann að því hvað honum hafði gengið til. Jóhann gaf hins vegar aldrei færi á viðtali um afskipti sín af lagasetningunni.
Jóhann höfðaði mál gegn ríkinu
Eftir að upp komst um inngrip Jóhanns við birtingu laganna var hann sendur í leyfi frá störfum. Honum var síðar sagt upp störfum í skipulagsbreytingum í ráðuneytinu.
Í kjölfarið á þessu höfðaði Jóhann skaðabótamál gegn íslenska ríkinu fyrir ólögmæta uppsögn. Hann tapaði málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2021, en embætti ríkislögmanns tók til varna fyrir hönd íslenska ríkisins. Jóhann áfrýjaði hins vegar niðurstöðunni til Landsréttar í fyrra þar sem málið er komið á dagskrá.
Athugasemdir (5)