Tveimur dögum fyrir síðustu kosningar skrifaði Bjarni Benediktsson, sem hefur meira og minna verið fjármálaráðherra síðastliðinn áratug, tvær greinar í fjölmiðla sem kjörnuðu tóninn í kosningabaráttu flokks hans.
Önnur birtist í Fréttablaðinu og bar yfirskriftina: „Tveir kostir“. Hin birtist í Morgunblaðinu og kallaðist „Stöðugleiki eða óvissuferð“. Í báðum var klifað á stöðugleika og ábyrgð, sem einungis Sjálfstæðisflokkurinn gæti fært landsmönnum.
Í fyrri greininni skrifaði Bjarni orðrétt: „Tugþúsundir Íslendinga njóta þess að afborganir af lánum hafa lækkað eftir endurfjármögnun. Þetta var hægt vegna þess að vextir eru lágir. Það er ekki tilviljun. [...] Íslensk heimili finna að við erum á réttri leið. Það er auðveldara að láta mánaðamótin ganga upp. Fólk fær meira fyrir launin sín, skattarnir hafa lækkað og verðbólgan verið hófleg. [...] Þetta getur allt breyst hratt ef ný ríkisstjórn setur verðbólguna af stað aftur. Reikningurinn fyrir loforðalistana birtist okkur öllum í hærra vöruverði.“
Í síðari greininni skrifaði Bjarni: „Íslensk heimili finna að við erum á réttri leið. Skattarnir hafa lækkað, verðbólgan er lág. [...] Fólk fær meira fyrir launin sín. Þetta mun breytast ef ný ríkisstjórn setur verðbólguna af stað aftur. Við borgum fyrir loforðalistana með hærra vöruverði. Tugþúsundir Íslendinga eru nú með lægri afborganir af lánum eftir endurfjármögnun vegna þess að vextir eru lágir. Útgjaldalistinn mun hækka vextina og verðbólguna aftur. Afborganirnar hækka með.“
Sú nýja ríkisstjórn sem hann vísaði til í greinunum var ríkisstjórn sem innihéldi ekki Sjálfstæðisflokkinn. Ríkisstjórn þar sem Bjarni héldi ekki um veskið. Af ábyrgð. Til að tryggja stöðugleika.
Sami Bjarni afgreiddi, ásamt ríkisstjórn sinni, fjárlög með 120 milljarða króna halla í desember í fyrra. Fjárlög þar sem gjaldskrárhækkanir voru innleiddar sem bitnuðu verst á þeim sem hafa minnst milli handanna en breiðu bökunum var hlíft við allri sértækri skattheimtu þrátt fyrir að fjármagnseigendur væru að raka til sín metupphæðum.
Ný ríkisstjórn setti verðbólguna af stað
Þegar Bjarni skrifaði greinarnar sínar var verðbólga á Íslandi 4,4 prósent. Stýrivextir voru 1,25 prósent. Á þeim rúmu 16 mánuðum sem liðnir eru hefur verðbólgan aukist í að vera 9,9 prósent og nýjasta spá Seðlabankans gerir ekki ráð fyrir að hún fari neðar en 5,8 prósent á þessu ári.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur fyrir vikið hækkað stýrivexti, til að reyna að hemja verðbólguna, ellefu sinnum í röð. Vextirnir eru nú komnir í 6,5 prósent eftir að verðbólgan jókst í janúar þrátt fyrir árlegar vetrarútsölur. Hún jókst vegna áðurnefndra gjaldskrárhækkana og hækkunar á mjólkurvörum vegna ákvörðunar verðlagsnefndar búvara. Þetta var þó ekki meginástæða stýrivaxtahækkunarinnar, heldur versnandi verðbólguhorfur út árið 2023.
Á sama tíma hefur verðbólga verið að lækka víða annars staðar í heiminum. Í Bandaríkjunum lækkaði hún til að mynda sex mánuði í röð í lok síðasta árs. Hjá evrulöndunum er hún komin niður í 8,5 prósent eftir að hafa verið 10,6 prósent í október. Verðbólgan er meira að segja á niðurleið í Bretlandi, þrátt fyrir að landið sé í ein skonar efnahagslegu svartholi eftir Brexit.
Íslandsmet í ábyrgðarlausum yfirlýsingum
Í Seðlabankanum ræður ríkjum Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Hann hefur skapað sér orðspor fyrir að vera afar yfirlýsingaglaður af manni í hans stöðu.
Í nóvember 2019 hélt Ásgeir ræðu á peningamálafundi Viðskiptaráðs. Þar gaf hann sterklega til kynna að lágvaxtaumhverfi væri komið til að vera á Íslandi. Sumarið 2020 fór hann í viðtal við Fréttablaðið og sagði: „Núna eru tímarnir breyttir. Í fyrsta sinn er það raunverulegur valkostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti og þannig afnema verðtrygginguna að eigin frumkvæði af sínum lánum. Þetta eru mikil tímamót og fela í sér að verðtryggingin mun deyja út.“
Á þessum tíma naut Ásgeir mikilla vinsælda. Milli 2019, ársins sem hann tók við, og 2021 tvöfaldaðist traust almennings í garð bankans og fór í 61 prósent. Helsta ástæðan var Ásgeir. Fólk trúði því sem hann var að segja. Það flykktist í óverðtryggð lán.
Þegar verðbólga fór að láta á sér kræla og vextir að hækka féllu vinsældir Seðlabankans samhliða. Í febrúar 2022 mældust þær samt sem áður 52 prósent, sem var miklu meira en þær höfðu mælst frá því að mælingar hófust 2009, að árinu 2021 undanskildu.
Tal um Tene …
Eftir miklar vaxtahækkanir framan af síðasta ári, til að takast á við síhækkandi verðbólgu, lét Ásgeir ítrekað í það skína að neyslu almennings væri um að kenna. Fólk, almennt og óháð stöðu, þyrfti að hætta að eyða peningum. Fólk sem væri ekki þegar búið að koma sér inn á íbúðamarkað þyrfti bara að bíta í það súra epli, fyrir þjóðarhag, að búa lengur heima hjá foreldrum sínum.
Boltalíkingar af ýmsum toga flugu svo reglulega á fundum þar sem fólki var tilkynnt að mánaðarleg greiðslubyrði þeirra hækkaði umtalsvert. Mesta athygli vakti svo þráhyggja seðlabankastjóra fyrir ferðum til Tenerife. „Það voru allir að taka myndir af tánum á sér á Tene eða eitthvað álíka í sólbaði,“ sagði hann á einum fundinum. „Þegar þjóðin er að fara á Tene, það kostar gjaldeyri,“ sagði hann á öðrum og bætti svo við að Seðlabankinn gæti „ekki fjármagnað Tene-ferðir úr forðanum“.
… og toppa
Í október, þegar stýrivextir voru hækkaðir í 5,75 prósent, lét Ásgeir hafa eftir sér að toppnum á vaxtahækkunarferlinu væri mögulega náð. Mánuði síðar voru vextirnir samt hækkaðir aftur, nú upp í sex prósent. Þá sagði Ásgeir að sú hækkun ætti að vera nægjanleg til að ná verðbólgu aftur niður á ásættanlegum tíma.
Þegar fyrstu kjarasamningarnir sem gerðir voru við almenna vinnumarkaðinn lágu fyrir í byrjun desember – samningar sem urðu leiðandi stef fyrir þá sem eftir fylgdu – sagði Ásgeir á kynningarfundi fjármálastöðugleika að þeir væru „mjög jákvæð tíðindi“ og að þeir myndu auka fjármálastöðugleika.
Á miðvikudag hækkaði peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, sem Ásgeir leiðir, stýrivexti upp í 6,5 prósent. Þeir hafa ekki verið hærri í 13 ár. Í yfirlýsingu sagðist nefndin telja líklegt að „auka þurfi aðhaldið enn frekar á næstunni til þess að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma“. Á mannamáli þýðir það að vextir verða hækkaðir enn meira.
Á kynningarfundi í kjölfarið sagði Ásgeir að allt hafi lagst gegn bankanum. Kjarasamningarnir, sem nokkrum mánuðum áður áttu að auka fjármálastöðugleika, voru nú orðnir allt of dýrir. Krónan, sem Seðlabankinn ber ábyrgð á og getur gripið inn í viðskipti með, hafði lækkað allt of mikið og aðhaldið í ríkisfjármálunum var nú allt of lítið. Seðlabankinn hafi dregi „stutta stráið“. Allir sem bera ábyrgð á fjármálastöðugleika, nema Seðlabankinn, hefðu skorað sjálfsmark.
Raunveruleikinn án bolta
Þegar boltalíkingum sleppir blasir við raunverulegt fólk af holdi og blóði. Um þriðjungur landsmanna nær annaðhvort ekki endum saman eða er í erfiðleikum með það. Sá hópur mun stækka hratt á næstu mánuðum.
Þau heimili sem búa við mestan skort eiga ekki eigið húsnæði. Það fólk þarf að leigja. Vaxtahækkun hefur þau áhrif að reiknuð húsaleiga hækkar, sem á móti hækkar verðbólgu. Vítahringur myndast sem étur upp virði þeirra fáu króna sem lenda í vösum þessa hóps.
Þetta er hópur sem líklegastur er til að vera með lægstu launin, ná ekki endum saman og eiga afar takmarkaðan hlut í sterkustu einkaneyslu íslenskrar hagsögu á undanförnum árum, en situr samt uppi með reikninginn, með auknum álögum og kaupmáttarrýrnun.
Líkurnar á því að þessi heimili geti keypt sér húsnæði til að losna úr þessum vítahring eru nær engar, enda mánaðarleg greiðslubyrði 80 prósenta óverðtryggðs láns af venjulegri íbúð á höfuðborgarsvæðinu nú yfir 400 þúsund krónur á mánuði. Það er sannarlega ekki á allra færi.
Þá er hægt að flýja í verðtryggð lán, og sætta sig við að verðbætur leggist ofan á höfuðstól.
Hann hækkar því hratt á sama tíma og íbúðarverð mun sennilega lækka umtalsvert. Ekki er útilokað, ef spár um lækkun á raunvirði húsnæðis ganga eftir, að margir sem velja þessa leið muni sitja eftir með neikvætt eigið fé í húsnæði sínu. Þ.e. geti ekki selt það nema borga með því.
Ekki er staða margra þeirra sem trúðu því að lágir vextir og verðbólguleysið væru komin til að vera betri. Um fjórðungur allra íbúðarlána eru nú óverðtryggð og á breytilegum vöxtum. Ellefu vaxtahækkanir í röð hafa stökkbreytt greiðslubyrði þess hóps og hann tekur á sig þessar hækkanir af fullum þunga. Í mörgum tilvikum hefur mánaðarleg greiðslubyrði af íbúðarláni hækkað um vel á annað hundrað þúsund krónur á mánuði.
Til viðbótar eru þúsundir heimila með óverðtryggð lán upp á næstum 600 milljarða króna á föstum vöxtum sem koma til endurskoðunar á næstu þremur árum, með tilheyrandi vaxtabyrði.
Þetta er veruleikinn.
Hin óábyrga hegðun
Þegar ofangreind ummæli Bjarna og Ásgeirs eru skoðuð, og þau mátuð við stöðuna sem er uppi á Íslandi í dag, er vart hægt að komast að annarri niðurstöðu en að þeir hafi sýnt af sér gríðarlega óábyrga hegðun með því að láta þau falla. Skapað óraunhæfar væntingar.
Sá munur er á að Bjarni er stjórnmálamaður, og það er hluti af hans veruleika að selja sig reglulega til valda með misgáfulegum loforðaflaumi. Alvarleikinn í atferli Bjarna felst mun frekar í aðgerðarleysi. Hann stóð í vegi fyrir því að hið opinbera tæki til sín stærri hlutdeild í sögulegum methagnaði margra íslenskra fyrirtækja á árunum 2021 og 2022, til dæmis með hvalrekaskatti. Þeir fjármunir hefðu getað nýst til að brúa hallann á rekstri ríkissjóðs, í stað þess að reka hann í 120 milljarða króna halla og ákveða að hella olíu á verðbólgubálið með gjaldskrárhækkunum, aðallega til að hlífa breiðu bökunum í samfélaginu.
Hvað drífur Ásgeir áfram í sinni framsetningu er meiri ráðgáta. Kannski fær hann slæma ráðgjöf. Kannski er hann með lítið sjálfstraust og þráir viðurkenningu. Kannski er hann bara ekkert sérstaklega hæfur.
Eitt liggur þó skýrt fyrir. Afleiðingarnar af tækifærismennsku þessara tveggja manna, sem hafa mest áhrif allra á íslenskan efnahag, bera heimilin í landinu.
Þau draga á endanum alltaf stutta stráið.
Athugasemdir (15)