Ekkert ríki hefur á síðustu árum aukið afskipti sín af alþjóðamálum jafn mikið og Tyrkland. Tyrkir hafa á síðustu misserum beitt hervaldi í Sýrlandi, Líbýu og Írak, tryggt sigur Azera í stríði við Armeníu, þjálfað her Sómalíu og opnað herstöð í Qatar. Tyrkland hefur líka orðið fullur þátttakandi í flóknu valdatafli Mið-Austurlanda og á í útistöðum og pólitískri valdabaráttu við ríki allt frá Balkanskaga og Norður-Afríku til Persaflóa og Mið-Asíu. Stríðið í Úkraínu hefur einnig komið Tyrklandi í lykilstöðu gagnvart bæði Vesturlöndum og Rússlandi.
Fimm milljónir flóttamanna eru í Tyrklandi og á svæðum sem Tyrkir stjórna í Sýrlandi. Tyrkir meina þeim för til vesturs og forða þannig miklum pólitískum vandræðum í Evrópu. Þetta er tromp Tyrkja í togstreitu við ESB.
Evrópuríki?
Teljist Tyrkland til Evrópu er það mannflesta land álfunnar á eftir Rússlandi, ívið fjölmennara en Þýskaland. Lífskjör almennings eru ekki ósvipuð og í fátækari ríkjum Evrópu. Þau eru þó betri en víða á Balkanskaga og í Rússlandi eftir mikinn uppgang á fyrri hluta valdatíma Erdogans forseta.
Spurningin um hvort Tyrkland sé Evrópuríki hefur í raun verið stærsta spurning tyrkneskra stjórnmála í áratugi þótt hennar sé oftast spurt með öðrum orðum. Hún snýr í senn að stjórnmálum, efnahagsmálum, menningarmálum og afstöðu til alþjóðamála.
Kosið um framtíðina
Vaxandi mikilvægi Tyrklands í alþjóðapólitík og flóttamannavandinn hefur þrýst ESB í óþægilegt faðmlag við Erdogan forseta. Framtíð hans á valdastóli getur líka skipt verulegu máli fyrir Rússland og mörg ríki í Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku og víðar. Hann sýnir æ meiri einræðistilburði heima fyrir en hefur misst tökin á efnahagsmálum, þótt hagur af viðskiptabanni Vesturlanda á Rússa hjálpi í bili verulega til.
Í vor verður kosið um framtíð Tyrklands. Kosningarnar sjálfar verða frjálsar en þó ekki lýðræðislegar því afli ríkisins er beitt gegn stjórnarandstöðunni. Þúsundir sæta rannsóknum og fangelsun vegna gagnrýni á forsetann og helsti keppinautur hans kann að falla úr leik eftir að vera dæmdur fyrir orð sín. Erdogan sat raunar sjálfur í fangelsi á sínum tíma fyrir að lesa upp ljóð sem herforingjum þótti vondur kveðskapur. Þetta er því ekki nýtt en margir óttast að með sigri geti Erdogan unnið hervirki á sjálfstæðum stofnunum landsins.
Styrkur og stríð
Staðsetning Tyrklands á mótum ólíkra heima er í senn styrkur þess og veikleiki. Hún gefur Tyrklandi efnahagslega, pólitíska og menningarlega fjölbreytni en um leið veldur hún átökum um ídentitet þjóðarinnar og samskipti við umheiminn.
Tyrkneski herinn er vel búinn og sá næstfjölmennasti í Nató. Hann ræður yfir fleiri Leopard 2 skriðdrekum en þýski herinn, auk þúsunda eldri brynvagna, og yfir tvöfalt fleiri háþróuðum orustuþotum en breski flugherinn.
Tyrkir hafa hernumið stór landsvæði í Sýrlandi og eru í lykilstöðu í borgarastríðinu. Í Írak er tyrkneskum her beitt reglulega. Tugir þúsunda tyrkneskra hermanna eru í þessum tveimur löndum, einkum þó vegna átaka Tyrkja við Kúrda. Átök um réttindi Kúrda eru jafnframt hættulegasta innanlandsmál Tyrklands. Tugþúsundir hermanna eru einnig á Norður-Kýpur sem Tyrkir stjórna. Í stríðinu í Líbýu hafa Tyrkir leikið lykilhlutverk.
Horft til vesturs
Tyrkland hefur ítrekað sótt um aðild að Evrópusambandinu. Það var í samræmi við pólitíska og efnahagslega drauma leiðandi stétta og afla í landinu í áratugi. Á fyrri áratug Erdogans við völd gerði hann víðtækar umbætur í efnahagslífinu sem leiddu til mikils uppgangs í atvinnulífi Tyrklands og örrar uppbyggingar á innviðum landsins. Hann þrengdi líka að áhrifum hersins í stjórnmálum. Erdogan ítrekaði umsókn um aðild að ESB og fékk loforð um alvöru viðræður enda virtist Tyrkland á leið til evrópskra hátta.
Mörg ríki ESB reyndust þó treg gagnvart aðild Tyrkja. Eitt af slagorðum Brexit sinna var að Tyrkland væri á leið í ESB innan örfárra ára. Aðild Tyrklands að ESB hefur hins vegar orðið ólíkleg. Þversögnin er sú að um leið hefur Tyrkland farið að skipta Evrópu sífellt meira máli.
Arfurinn úr austri
Menningarlegar rætur Tyrkja liggja til austurs. Þeir réðu Mið-Austurlöndum fram á síðustu öld og miklum svæðum í Asíu og Afríku og á Balkanskaga um aldir. Þegar Kemal Ataturk, sem enn er opinberlega dýrkaður í Tyrklandi, stofnaði tyrkneska ríkið á rústum kalífadæmis Ottómanveldisins varð aðskilnaður trúar og stjórnmála að grundvelli þess. Þjóðin átti að snúa sér til vesturs.
Pólitísk snilli Erdogans kom í ljós þegar honum tókst eftir margar tilraunir og harða andstöðu hersins að búa til stjórnmálaflokk sem höfðaði í senn til trúaðra múslima, þjóðernissinna og verkalýðs.
Draumar og veikleikar
Erdogan, sem byrjaði lífið sem götusali og síðar leikmaður fyrir frekar lélegt fótboltalið, lét byggja yfir sig þúsund herbergja forsetahöll. Þetta er dæmi um þörf hans til að sýna vald og glæsileika landsins og leiðtogans. Sífellt algengari tilvísanir til liðinna stórveldistíma Tyrkja og vaxandi auður og völd fólks úr fjölskyldu forsetans og innsta vinahópi sýna um leið veikleika Tyrklands.
Draumar Erdogans eru um hann sjálfan og Tyrkland sem leiðtoga heims múslima. Afskipti Tyrkja af Líbýu má sjá í þessu ljósi, þótt þar komi einnig til kapphlaup um orkulindir. Eins er með sumt af deilunum við Sádi-Arabíu og Sameinuðu furstadæmin. Stuðningur Tyrkja við Azerbajan í stríðinu við Armeníu snýst líka að hluta til um endurreisn tyrkneskra áhrifa í Kákasus og Mið-Asíu þar sem trú, menning og tungumál eru víða af tyrkneskum rótum. Útrásin til Afríku er líka hluti af stórveldisdraumum þótt hún hafi raunar komið sér vel fyrir Afríkulönd sem valkostur á móti Kína, Rússlandi og gömlu evrópsku nýlenduveldunum.
Valið í vor
Tyrkland hefur í áratugi leitað til Nató með öryggi og til ESB með fjárfestingar og markaði. Þetta voru forsendur vaxtar og nútímavæðingar Tyrklands. Sambúðin við Evrópu hefur versnað vegna þess að þrátt fyrir bættan efnahag stefnir Tyrkland í átt frá evrópskum gildum í innanlandsstjórnmálum. Samstarfið við Tyrkland um flóttamenn frá Sýrlandi hefur um leið skipt sköpum fyrir ESB ríki. Mikilvægi Tyrklands í stríðinu um Úkraínu og áhrif landsins á mörgum viðkvæmum átakasvæðum knýr ESB til að treysta sem mest sambandið við Tyrkland.
ESB ríki vilja ekki veikara Tyrkland eins og Erdogan heldur fram. Þvert á móti myndi aukinn innri styrkur Tyrklands greiða götu lýðræðis og mannréttinda og auka jafnrétti minnihlutahópa eins og Kúrda. Evrópuríki vilja að Tyrkland sé öflugt lykilríki frekar en púðurtunna á viðkvæmasta stað. Völd Erdogans eru hins vegar orðin of mikil til að lýðræði þrífist undir hans stjórn.
Athugasemdir (3)