Þótt miklar framfarir hafi orðið í baráttu við krabbamein á síðustu árum og áratugum veldur þó enn mjög miklum vanda hve seint og illa getur gengið að greina krabbann — jafnvel eftir að hann er farinn að vinna veruleg hervirki í líkama manna. Margar tegundir krabbameins finnast vart nema sérstaklega sé leitað að einmitt því, og liggi sjúkdómsgreining því ekki fyrir getur meinið fengið góðan tíma til að dreifa sér og skemma allt í kringum sig.
Nú vonast franskir vísindamenn hins vegar til þess að vera á spor einfalds, ódýrs og áreiðanlegs greiningartækis sem gæti hjálpað læknum að finna krabbamein mjög snemma.
Ef tæki skyldi þá kalla, því hér er um að ræða lifandi verur.
Maura.
Maurar eru mjög vefvísir, það hafa menn lengi vitað. En nú á að kanna hvort hægt sé að nota þefvísi þessara litlu skordýra nægir til að greina frumubreytingar í þvagsýnum sem ella þyrfti mjög dýr og flókin tæki til að finna.
Maurarnir hafa þegar sýnt og sannað að þeir geta greint krabbamein í músum með því einu að hnusa af þvagsýnum músanna.
Franski dýrahátternisfræðingurinn Baptiste Piqueret og félagar hans við Sorbonne-háskóla í París birtu fyrir skemmstu niðurstöður sínar um þetta.
„Maurar gætu orðið fljótvirk, árangursrík, ódýr og skaðlaus [non-invasive] leið til að greina æxli í mönnum,“ segja þau.
Vísindamenn hafa þegar reynt að nota ýmis dýr til að þefa uppi krabbamein, allt frá hundum til músa, en maurarnir þeirra í Sorbonne virðast vera sérlega efnilegir. Vísindamennirnir birtu ritgerð um málið á vefsíðu The Royal Society, sjá hér.
Og Science Alert sagði frá málinu.
Frakkarnir kenndu 35 silkimaurum að tengja þvag heilbrigðra músa við gómsætt sykurvatn og öðrum 35 maurum að tengja sykurvatnið við mýs sem krabbameinsfrumur úr mönnum höfðu verið græddar í. Það tók maurana aðeins þrjá þjálfunartíma að greina milli sýnanna með krabbafrumurnar og hinna sem ekkert krabbamein höfðu. Á síðu Science Alert kemur fram að maurar þessir séu einkar námfúsir og hægt sé að prófa þá níu sinnum áður en viðbrögðum þeirra fer að hnigna, jafnvel þó þeir fái engin verðlaun eins og sykurvatnið.
Maurarnir eyða hins vegar 20 prósentum meiri tíma við krabbameinssýkta þvagið en hitt í von um fá sykurvatn að launum og hafa reynst vera næsta óskeikulir. Þeir geta m.a.s. greint milli mismunandi tegunda krabbameins. Og þótt vísindamennirnir legðu ýmsar þrautir fyrir maurana og blönduðu til dæmis ýmsum efnum út í þvagsýnin í von um að villa um fyrir þeim gilti það einu — maurarnir þefuðu á augabragði upp allan þann krabba sem nokkurs staðar var að finna.
Vísindamennirnir benda þó á að ekki sé víst að jafn vel tækist til þegar tilraunir til að nota maurana úti á vettvangi hefjast því þar muni þeir standa frammi fyrir miklu flóknari viðfangsefni en inni á rannsóknarstofunni. Alls konar þættir, svo sem aldur fólks, mataræði, almennt líkamsástand, stress og margt fleira gætu hafa áhrif á hæfni mauranna til að greina lyktina af mismunandi tegundum sýna, en full ástæða sé þó frekari rannsókna og svo gæti farið að kassi af hressum silkimaurum verði yrr eða síðar í verkfæratösku hvers krabbameinslæknis.
Athugasemdir