Í framhaldi af pistli sem ég skrifaði og birtist á þessum miðli síðasta mánudag og vegna góðra ábendinga frá efnahagsráðunaut SA um að kjarasamningar verði óhjákvæmilega að hanga saman langar mig að útskýra aðeins betur nokkur atriði sem komu fram í pistli mínum.
Víxlverkun hækkandi launa og verðlags er engum til framdráttar og blessunarlega hafa slíkar aðstæður ekki einkennt innlendan vinnumarkað í áratugi. Þá er ólíklegt að slíkt ófriðarbál verði kveikt jafnvel þó Efling fái sérmeðhöndlun að þessu sinni ef rökstuðningur þeirra er byggður á traustum grunni.
Almenn og sjálfsögð krafa er að sömu laun séu greidd fyrir álíka störf og er það eitt af leiðarstefum í allri kjarabaráttu – hérlendis sem erlendis. Um það verður ekki deilt enda segir í pistli SA: „Það er skýr afstaða SA að draga landsmenn ekki í dilka eftir búsetu, aldri, þjóðerni eða öðrum þáttum. Í kjarasamningum er samið um kjör, skyldur og réttindi tiltekinna starfa óháð þessum þáttum.“
Spurningin hér er hvort laun eru greidd í krónum eða kaupmætti. Er krafan sú að launþegar sem sinna álíka störfum hafi sömu krónutölu í umslagi eða sama kaupmátt. Um það snýst kjarni máls. Ef húsnæðiskostnaður á höfuðborgarsvæði er mun hærri en á Ísafirði, Egilsstöðum eða Akureyri þá kaupa sömu krónur minna af húsnæði, kaupmáttur er minni. Það er því ekki vitlaus hugmynd að þeir sem sem búa á höfuðborgarsvæðinu fái fleiri krónur í umslagið svo að kaupmáttur sé ekki eins mikið lægri en hann væri ef krónufjöldinn væri sá sami. Breytist þetta ef tekið er tillit til fleiri útgjaldaliða? Eru sumar stéttir að fara ver út úr þessu en aðrar? Efling vill meina að þetta eigi við um þeirra félagsmenn og því eðlilegt að leitað sé efnislegra svara við þessum spurningum. Þetta skiptir máli fyrir samfélagið því að félagsmenn í Eflingu gegna lykilstörfum á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og öðrum samfélagslega mikilvægum stofnunum sem eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og þjóna í mörgum tilvikum einnig landsbyggðarfólki.
Hin spurningin sem finna þarf svar við er að í könnun Gallup á kjörum félagsmanna Eflingar (höfuðborgarsvæðið) og Iðju (Akureyri) kemur í ljós að heildarlaun Iðjufélaga eru um 21 þúsund krónum hærri á mánuði þrátt fyrir um 2 stunda styttri vinnuviku (ég hef ekki kynnt mér sérstaklega þá aðferðafræði sem þar er að finna en gef mér að hún standist ítarlega skoðun). Gróflega má því reikna með – eftir leiðréttingu á vinnutíma – að þessi mismunur sé um 50 þúsund á mánuði. Á þessu geta verið nokkrar en eðlilegar skýringar; i) Iðjufélagar raðast almennt í hærri launaflokka, ii) starfsaldur er almennt mun hærri hjá Iðjufélögum en Eflingarfélögum og iii) að baki þessum mismun liggja aðrar ástæður.
Bæði þessi atriði sem hér eru nefnd að ofan hefðu átt að mynda góðan grunn að samtali SA og Eflingar. Niðurstaða þess samtals hefði gert almenningi kleyft að mynda sér hlutlæga og ekki huglæga afstöðu til málsins. Af hverju gerðist það ekki?
Athugasemdir (5)