„Sú kjaradeila sem við stöndum frammi fyrir snýst um heildarsamhengi hlutanna. Sú hugmyndafræði sem Efling beitir hér er úrelt og snýst um átök átakanna vegna. Þegar farið er af stað með það að leiðarljósi er ekki von á góðri niðurstöðu.“
Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Kjaramál hafa verið ofarlega á baugi í umræðunni síðustu vikur og hafa deilur Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA) verið hvað mest áberandi. Heimildin rekur atburðarásina í umfjöllun sinni í dag.
Vonbrigði að ekki tókust samningar á milli SA og Eflingar
Rifjaði þingmaðurinn upp á Alþingi í dag að í desember hefðu fréttir borist af því að kjarasamningar hefðu náðst við meirihluta launafólks á almennum vinnumarkaði.
„Við höfðum ríka ástæðu til að ætla að nú tækist með samstilltu átaki að ná skynsamlegri lendingu á vinnumarkaðnum í heild og þannig vinna okkur hægt en örugglega í átt að því að ná niður verðbólgu og vöxtum. Heildarhagsmunir voru í forgangi, hagsmunir sem skipta máli við að reka hér samfélag á skynsamlegan og heilbrigðan hátt.
Það urðu því mikil vonbrigði að ekki tókust samningar á milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar. Þar með sátu liðlega 20.000 félagsmenn Eflingar eftir og þeir hafa ekki notið kjarabóta til jafns við aðra á almennum vinnumarkaði, kjarabóta sem félagsmenn þurfa á að halda,“ sagði Guðrún.
„Einföld og úrelt mynd“ dregin upp varðandi samband launafólks og atvinnurekenda
Þá sagðist Guðrún óhjákvæmilega leiða hugann að því hvort það hefði verið raunverulegur vilji forystu Eflingar að ná samningum fyrir sitt fólk.
„Ég get ekki betur séð en að hugmyndafræðin snúist um átök átakanna vegna. Einföld og úrelt mynd er dregin upp varðandi samband og samskipti launafólks og atvinnurekenda. Ég leyfi mér að fullyrða að sú orðræða sem Efling hefur uppi varðandi það samband sé í hrópandi andstöðu við raunveruleikann nema í algerum undantekningartilfellum, enda hafa kannanir sýnt að flest fólk ber mikið traust til sinna vinnuveitenda og nýir kjarasamningar í vetur voru alls staðar samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.
Sú kjaradeila sem við stöndum frammi fyrir snýst um heildarsamhengi hlutanna. Sú hugmyndafræði sem Efling beitir hér er úrelt og snýst um átök átakanna vegna. Þegar farið er af stað með það að leiðarljósi er ekki von á góðri niðurstöðu,“ sagði hún að lokum.
Efling enn engin svör fengið hjá sáttasemjara
Heimildin greindi frá því fyrr í dag að ríkissáttasemjari hefði fyrirskipað Eflingu að afhenda kjörskrá þegar hann kynnti stéttarfélaginu miðlunartillögu. Daginn eftir hefði hann hins vegar sagt að aðeins hefði verið um tilmæli að ræða. Áður en Efling gat brugðist við hafði ríkissáttasemjari svo stefnt félaginu fyrir dómstóla og krafist afhendingar kjörskrár.
Enn fremur kemur fram hjá Heimildinni að Efling hefði engin svör fengið frá ríkissáttasemjara við ítrekuðum kröfum sínum um að fá afhent þau gögn og yfirlit um samskipti ríkissáttasemjara í aðdraganda þess að hann lagði fram miðlunartillögu í deilu stéttarfélagsins við SA.
Hið sama væri að segja um ítrekuð erindi til félags- og vinnumarkaðsráðherra er lúta að stjórnsýslukæru Eflingar og þeirrar kröfu að réttaráhrifum miðlunartillögu ríkissáttasemjara verði frestað meðan stjórnsýslukæran er til meðferðar.
ì Frakklandi ,Thyskalandi,Englandi og fleirum löndum Evròpu eru I dag verkföll.
Verfall er thad eina sem mun vekja fòlkid.
Svipað uppi á teningnum hjá Konráði efnahagsráðgjafa SA í annarri grein.
Þetta er vísvitandi niðrandi og meiðandi orðræða og þessu fólki veitir ekki af að víkka aðeins sinn sjóndeildarhring.
Auðvitað finnst atvinnurekendum bara fínt að borga fólki laun undir framfærsluviðmiðum. Skilja bara ekkert hvaða vesen þetta er.