Efling lagði í dag fram stjórnsýslukæru til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna miðlunartillögunnar sem Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði fram í deilu stéttarfélagsins og Samtaka atvinnulífsins fyrir helgi.
Krafa Eflingar er að miðlunartillagan verði felld úr gildi, meðal annars vegna skorts á samráði við Eflingu. Í kærunni segir að ljóst sé að ríkissáttasemjari hafi þegar verið búinn að taka ákvörðun um að leggja miðlunartillöguna fram áður en hann fundaði með samninganefndum deiluaðila síðasta fimmtudagsmorgun kl. 9:30. Þá hafi einnig verið búið að boða til blaðamannafundar þann sama dag kl. 11 til þess að kynna miðlunartillöguna. Því liggi fyrir að samráðið við Eflingu hafi ekki verið neitt.
Í kæru Eflingar kemur einnig fram að skort hafi á réttmæti, meðalhóf og jafnræði við töku ákvörðunarinnar og í þeim efnum er vísað bæði til stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.
Til viðbótar er í kærunni vikið að „vanhæfi ríkissáttasemjara“ og vísað til þess að í lögum sé eitt hæfisskilyrða sáttasemjara það að „afstaða hans sé slík að telja megi hann óvilhallann í málum launafólks og atvinnurekenda“. Í kæru Eflingar eru svo færð rök fyrir því að framlagning miðlunartillögunnar í síðustu viku hafi verið með þeim hætti „draga megi óhlutdrægni“ ríkissáttasemjara og annars starfsfólks embættisins „í efa með réttu“.
Efling gerir kröfu um að réttaráhrifum miðlunartillögunnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá ráðuneytinu.
Kennarar í löngu verkfalli síðastir til að fella miðlunartillögu
Frá því að embætti ríkissáttasemjara var stofnað árið 1980 hafa ríkissáttasemjarar hvers tíma alls lagt fram 35 miðlunartillögur.
Miðlunartillagan umdeilda sem ríkissáttasemjari lagði fram í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins er því sú 36. í röðinni.
Samkvæmt samantekt sem Heimildin fékk frá embætti ríkissáttasemjara hafa tíu af þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram verið felldar, þar af ein einungis hjá hluta stéttarfélaga sem um hana greiddu atkvæði.
Ljóst er að í öll þau skipti hefur þurft mun færri atkvæði til en í yfirstandandi kjaradeilu Eflingar, en ef og þegar gengið verður til atkvæða um miðlunartillöguna verða yfir 20 þúsund manns á kjörskránni. Það þýðir að rúmlega fimm þúsund manns þurfa að greiða atkvæði gegn samþykkt tillögunnar, svo hún teljist felld.
Kennarar þeir einu sem hafa fellt miðlunartillögu frá aldamótum
Einungis ein miðlunartillaga frá Ríkissáttasemjara hefur verið felld frá aldamótum, en það var miðlunartillaga í hinu harðvítuga kennaraverkfalli sem lamaði skólastarf í landinu á haustmánuðum ársins 2004.
Þar voru alls 4.984 kennarar á kjörskrá og tóku 92,64 prósent þeirra þátt í atkvæðagreiðslunni. Tæp 93 prósent kennara sögðu nei. Í kjölfarið settu stjórnvöld lög á sjö vikna langt verkfall kennara og vísuðu deilunni til gerðardóms.
Aðrar tillögur sem lagðar hafa verið fram á þessari öld hafa talist samþykktar eftir atkvæðagreiðslu, síðast miðlunartillaga í deilu hjúkrunarfræðinga við ríkið sem samþykkt var í lok júní árið 2020.
Athugasemdir