Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur frestað framlagningu frumvarps um endurskoðaðar og einfaldari reglur um reiknað endurgjald í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi aðila í eigin rekstri. Í desember síðastliðnum var frumvarpinu bætt inn á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og sagt að það myndi verða lagt fram í apríl 2023. Í liðinni viku var það fellt út af henni.
Í svari við fyrirspurn Heimildarinnar segir ráðuneytið að starfshópur sem skipaður var í september til að vinna að afla upplýsinga og gagna um úrlausnarefnið, ásamt því að leggja mat á það hvaða leiðir eru færar til frekari skilvirkni og jafnræði og til að stemma stigu við misnotkun á skattkerfinu, muni ekki skila af sér tillögum eða drögum að frumvarpi fyrr en í júní 2023. „Af þeirri ástæðu hefur fjármála- og efnahagsráðherra fellt niður á þingmálaskrá frumvarp[...] sem til stóð að leggja fram á yfirstandandi þingi. Til stendur að frumvarpið verði hluti af þingmálaskrá næsta löggjafarþings.“
Í úttekt sem Heimildin birti á mánudag var haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að hún vonaðist til þess að frumvarpið yrði lagt fram á yfirstandandi þingi, en því er meðal annars ætlað að tryggja að þau sem eingöngu hafa fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar til sveitarfélaga. Í svari fyrir fyrirspurn Heimildarinnar í gær sagði forsætisráðherra að nú væri ljóst að ekki náist að leggja frumvarpið fram á vorþingi. „Samkvæmt mínum er reiknað með að starfshópur sem vinnur tillögur skili þeim til fjármála- og efnahagsráðherra í júní og að frumvarpið verði lagt fram í haust.“
Kominn tími á aðgerðir
Málið er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2021. Þar segir að skattmatsreglur verði endurskoðaðar og að komið verði í veg fyrir „óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga“.
Þeir óeðlilegu og óeðlilegu hvatar fela í sér að þeir sem eiga eignarhaldsfélög utan um einhverskonar rekstur geta reiknað sér afar lág fyrir þá vinnu sem felst í rekstrinum. Þess í stað telja þeir fram meginþorra tekna sem fjármagnstekjur. Þetta getur sparað þeim umtalsverðar skattgreiðslur, enda er hæsta skattþrepið í almennum tekjuskatti er 46,25 prósent en samanlagður skattur á hagnað og arðgreiðslur er talsvert lægri, eða 37,6 prósent.
Katrín gerði það að umtalsefni á flokksráðsfundi Vinstri grænna í ágúst í fyrra. í ræðu sinni þar sagði hún: „Nú er kominn tími til að breyta skattlagningu þeirra sem fyrst og fremst hafa fjármagnstekjur og tryggja að þau greiði sanngjarnan hlut í útsvar til sveitarfélaganna til að fjármagna þau mikilvægu verkefni sem þau sinna ekki síst í félags- og velferðarþjónustu. Um það hefur verið talað í tuttugu ár en nú er kominn tími aðgerða.“
Gæti skilað átta milljörðum á ári
Í grein sem Arnaldur Sölvi Kristjánsson og Róbert Farestveit, hagfræðingar hjá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), skrifuðu í Vísbendingu í september 2021 kom fram að skattasniðganga í formi tekjutilflutnings, sem feli í sér að fólk skrái launatekjur sínar ranglega sem fjármagnstekjur, komi í veg fyrir að þeir greiði útsvar og heildarskattprósenta þeirra verður fyrir mikið miklu lægri en ella. Þetta á sér aðallega stað á meðal atvinnurekenda með háar tekjur sem taka þær í gegnum einkahlutafélög.
Hagfræðingarnir tveir sögðu að með því að takmarka slíkan tilflutning myndu árlegar skatttekjur aukast um allt að átta milljarða króna á ári miðað við stöðu mála 2021, styrkja tekjuöflun sveitarfélaga og auka skattbyrði þeirra sem eru tekjuhærri.
Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði áðurnefndan starfshóp 1. september í fyrra sem átti að vinna að nýjum leiðum til að varna mismunun í skattlagningu ásamt því að endurskoða og einfalda reglur um reiknað endurgjald í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi aðila í eigin rekstri og samspilið við skattlagningu á hagnað og arð sem og skattmat vegna hlunninda og úttekta eigenda úr félögum. Í hópnum sitja fimm einstaklingar, tveir frá ráðuneytinu, tveir frá Skattinum og einn sem tilnefndur var af KPMG. Formaður hópsins er Ingibjörg Helgadóttir, sérfræðingur á skrifstofu skattamála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
2. Útsvar greiðist af fjármagnstekjum, samkvæmt gildandi skattalögum (þrepaskiptur skattur með frítekjumarki sem nemur að hámarki núgildandi persónuafslætti. Ps. Afhverju er enginn frá verkalýðshreyfingunni í þessum hóp sem fjármálaráðherra skipar ? T.d. einhver af forsetum ASÍ.