Þessi grein birtist fyrir meira en 2 árum.

Efling boðar til atkvæðagreiðslu um verkfall hjá Íslandshótelum

Samn­inga­nefnd Efl­ing­ar fund­aði með starfs­fólki Ís­lands­hót­ela í gær og sam­þykkti í kjöl­far­ið verk­falls­boð­un. Verði hún sam­þykkt í at­kvæða­greiðslu þeirra sem hún tek­ur til mun verk­fall hefjast 7. fe­brú­ar.

Efling boðar til atkvæðagreiðslu um verkfall hjá Íslandshótelum
Verkfall Samninganefnd Eflingar fundaði með fjölmennum hópi starfsfólks Íslandshótela í gærkvöldi, áður en að verkfallsboðunin var samþykkt Mynd: Efling

Samninganefnd Eflingar samþykkti verkfallsboðun á fundi sínum í gær. Hún tekur til starfsstöðva Íslandshótela á félagssvæði Eflingar, alls sjö hótela. Félagsfólk sem verkfallsboðunin nær til mun nú kjósa um hvort það vilji að ráðist verði aðgerðirnar eða ekki en um er að ræða starfsfólk sem sinnir þrifum á herbergjum og í sameiginlegum rýmum, störfum í eldhúsi, við framleiðslu veitinga, þvott og fleira. 

Atkvæðagreiðslan opnar á hádegi á morgun og stendur fram á mánudagskvöld. Verði verkfall samþykkt mun ótímabundin vinnustöðvun hefjast á hádegi 7. febrúar næstkomandi. Hún mun ná til allra starfa undir kjarasamningi Eflingar við Samtök atvinnulífsins um vinnu í veitinga- og gistihúsum sem starfa á eftirfarandi sjö hótelum: 

  • Fosshotel Reykjavík…………….. Þórunnartún 1, 105 Reykjavík
  • Hotel Reykjavík Grand………… Sigtún 28, 105 Reykjavík
  • Hotel Reykjavík Saga…………… Lækjargata 12, 101 Reykjavík
  • Hotel Reykjavík Centrum…….. Aðalstræti 16, 101 Reykjavík
  • Fosshotel Baron…………………… Barónsstígur 2-4, 101 Reykjavík
  • Fosshotel Lind…………………….. Rauðarárstígur 18, 105 Reykjavík
  • Fosshotel Rauðará……………….. Rauðarárstígur 37, 105 Reykjavík

Efling sleit viðræðum við Samtök atvinnulífsins 10. janúar síðastliðinn og tilkynnti samhliða að undirbúningur verkfallsaðgerða væri hafinn. 

Yfirgnæfandi hluti konur af erlendum uppruna

Í tilkynningu sem Efling sendi frá sér síðdegis í dag segir að samninganefndin hafi fundað með fjölmennum hópi starfsfólks Íslandshótela í gærkvöldi, áður en að verkfallsboðunin var samþykkt. „Meðlimir samninganefndar Eflingar hafa jafnframt heimsótt allar starfsstöðvar Íslandshótela og rætt við félagsfólk. Viðhengdar myndir eru af þessum heimsóknum og af fundinum í gær. Í síðasta tilboði til SA krafðist samninganefnd Eflingar þess að hótelstörf yrðu hækkuð um launaflokk. Töfluhækkun tilboðs Eflingar myndi skila almennum hótelstarfsmanni með eins árs starfsaldur rúmlega 55 þúsund króna hækkun grunnlauna, til viðbótar við framfærsluuppbót að upphæð 15 þúsund á mánuði vegna hás framfærslukostnaðar á höfuðborgarsvæðinu.“

Þar er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, að hótelstarfsfólk sé með lægst launaða fólki á íslenskum vinnumarkaði og að yfirgnæfandi hluti þess séu konur af erlendum uppruna. „Þessi sami hópur samþykkti sögulegar verkfallsaðgerðir vorið 2019 sem áttu mikinn þátt í að ljúka góðum kjarasamningum þá. Eftir þessu man félagsfólk. Hjá þeim skynja ég sama hugrekki, sömu reisn og sömu staðfestu og árið 2019.“

Í mánudagsmolum Samtaka atvinnulífsins, sem birtir voru fyrr í dag, segir að þau hafi hafnað kröfum Eflingar um að samið verði um hækkanir launa umfram þann kjarasamning sem undirritaður var við Starfsgreinasamband Íslands (SGS) 3. desember síðastliðinn. 

Samtökin segjast tilbúin að ræða aðlögun kjarasamnings SGS að stöðu Eflingarfólks, innan kostnaðarramma og meginlína kjarasamnings SGS, en að þau hafi hins vegar ekki séð „málefnalegar forsendur fyrir greiðslu sérstaks framfærsluálags á félagssvæði Eflingar á höfuðborgarsvæðinu, Kjós, Hveragerði, Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.“

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • SIB
    Sigurður I Björnsson skrifaði
    Ég er ekki að saka neinn um óeðlilega hagsmunagæslu eða óeðlilegar spurningar, Mér hefur bara alltaf fundist nafnleysi vera angi af þeim gamla leiða sið að pískra,nöldra og nagga undir húsveggjum eða bak við horn en þagna svo um leið og sá sem talað er um birtist. Annars varðandi Eflingu, það að kjarasamningar losnuðu á síðasta ári er ekkert sem að datt af himnum ofan skyndilega,það var vitað lengi. Það var líka vitað að Sólveig og hennar hópur eru herská og vígdjörf. Á síðasta ári stóð félagsmönnum það til boða að kjósa hana eða hafna. Hver var þátttaka félagsmanna? Hún var altént ekki þau cirka 20000 sem eru í félaginu. Lýðræði er hlutur sem að lifir ekki nema vera ástundaður. Þessvegna finnst mér ódýrt að fara að nöldra eftirá, því þáttökuleysi er sama og samþykki. Segjum sem svo að það sé almenn óánægja meðal félagsmanna nú, þá spyr ég hvar var fólkið þá. Það væri óskandi að fólk færi að kannast við það að við berum ábyrgð sjálf hverjir ráða í stéttarfélögum, í sveitarstjórnum og á alþingi. Við fáum því bara þær stjórnir sem við eigum skilið. Annars óska ég Eflingarfólki alls hins besta.
    0
  • Hvað er þetta stór prósenta Eflingarfélaga sem fær að kjósa á meðan allir aðrir fá að bíða? Af hverju máttu almennir Eflingarfélagar ekki bara kjósa um SGS samninginn?
    -1
    • SIB
      Sigurður I Björnsson skrifaði
      Sérstakt að vilja ekki koma undir nafni. Viðkomandi gæti þessvegna heitið Halldór Benjamín.
      -1
    • Jóhannes Ragnarsson skrifaði
      Af því einfaldlega að Efling var ekki aðili að kjarasamningi Starfsgreinasambandsins.
      0
    • Jóhannes, er Efling ekki í SGS? Ég bara skil ekkert tilganginn með þessu öllu.

      Sigurður, eru þessar spurningar svo vondar eða hættulegar að aðeins væri hægt að spyrja þær í annarlegum tilgangi? Eða heldur þú að öll nafnleynd sé í raun leynileg hagsmunagæsla? Ég skil ekki athugasemdina þína. Ég vona samt að þú getir ímyndað þér að til séu aðrar og fleiri ástæður fyrir því að kjósa sér nafnleynd. Svo er margt sinnið sem skinnið eins og amma sagði einu sinni.
      0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Kjaradeila Eflingar og SA

Mest lesið

Íslendingar þurfi að ákveða hvar þeir staðsetja sig: „Þetta eru mjög válegir tímar“
2
ViðtalBandaríki Trumps

Ís­lend­ing­ar þurfi að ákveða hvar þeir stað­setja sig: „Þetta eru mjög vá­leg­ir tím­ar“

Pól­skipti hafa átt sér stað í vest­rænu varn­ar­sam­starfi með skyndi­legri stefnu­breyt­ingu Banda­ríkj­anna í ut­an­rík­is­mál­um, seg­ir Erl­ing­ur Erl­ings­son hern­að­ar­sagn­fræð­ing­ur. Hætta geti steðj­að að Ís­landi en Banda­rík­in hafi sýnt að þau séu óút­reikn­an­leg og beri ekki virð­ingu fyr­ir leik­regl­um al­þjóða­kerf­is­ins.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
3
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár