Samtök atvinnulífsins hafa hafnað tilboði Eflingar til lausnar á yfirstandandi kjaradeilu, en fundur á milli aðila fór fram í hádeginu. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði við fjölmiðla eftir fundinn að viðræðum hefði verið slitið og að nú færi samninganefnd Eflingar að undirbúa verkfallsboðanir.
Efling opinberaði tilboð sitt til Samtaka atvinnulífsins á sunnudag, en þær hækkanir launatöflu sem lagðar voru til af hálfu Eflingar námu á bilinu 40-59 þúsund, auk þess sem Eflingarfélagar fengju sérstaka 15 þúsund króna framfærsluuppbót, sem yrði utan grunnlauna.
Sólveig Anna sagði við fjölmiðla að Eflingarfólki þætti miður að Samtök atvinnulífsins hefðu ekki getað fallist á kröfur félagsins, sem hún sagði hófstilltar, sanngjarnar og jarðbundnar.
Kröfur félagsins eru þó umfram það sem önnur félög Starfsgreinasambandsins sömdu um við Samtök atvinnulífsins í desember og hafa Samtök atvinnulífsins staðið fast við það að Efling gæti ekki fengið frekari hækkanir en önnur félög hefðu áður samið um.
Forsvarsmenn Eflingar hafa fært rök fyrir því að þeir samningar sem náðst hafa á almennum markaði til þessa komi ekki nægilega til móts við verka- og láglaunafólk á höfuðborgarsvæðinu, sem búi við hærri framfærslukostnað, ekki síst hátt húsnæðis- og leiguverð. Þeirri röksemdafærslu hefur verið tekið fálega af sumum verkalýðsleiðtogum utan höfuðborgarsvæðisins.
Athugasemdir