Stærsti eigandi og hagsmunaðili í íslensku laxeldi, Norðmaðurinn Gustav Magnar Witzøe, mun í framtíðinni ekki koma að því að stýra fjölskyldufyrirtækinu Salmar AS. Þetta fyrirtæki er stærsti hluthafi laxeldisfyrirtækisins Arnarlax á Bíldudal og er Gustav Magnar stærsti eigandi Salmar AS.
Norskir fjölmiðlar greina frá þessum tíðindum í dag og þykja þau stór en Gustav Magnar er ríkasti maður Noregs vegna eignarhalds síns á Salmar.
Stærst á Íslandi, næststærst í heimi
Salmar er næst stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi á eftir norska félaginu Mowi sem nýlega eignaðist Arctic Fish á Ísafirði. Gustav Magnar Witzøe á nærri helmingshlut í fyrirtækinu í gegnum fjárfestingarfélagið Kverva AS. Faðir hans færði hlutinn í Salmar til hans árið 2006, þegar hann var einungis 12 ára gamall.
„Með auðlindskattinum og þeim aðstæðum sem eru hér núna, þá er hagstæðara að fara til annarra landa“
Fjölmiðlar í Noregi hafa lengi haft mikinn áhuga á Gustav Magnar Witzøe og lífi hans enda hefur hann verið á listanum yfir auðugustu Norðmennina um árabil. Einkalíf hans hefur einnig vakið athygli en hann hefur kosið að starfa sem módel frekar en að vinna í laxeldisfyrirtæki fjölskyldunnar þó svo að hann hafi sannarlega reynt fyrir sér þar.
Í fyrra framleiddi Arnarlax, sem kallast Icelandic Salmon 11.563 tonn af eldislaxi í sjókvíum. Þetta var tæplega 26 prósent af heildarframleiðslunni í sjókvíaeldi á Íslandi en hún var 44.504 tonn hér á landi í fyrra.
Sonurinn ætlar bara að vera eigandi en ekki stjórnandi
Það er faðir hans og nafni, sem jafnframt er stofnandi Salmar, sem segir frá þessari ákvörðun í dag. Norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv segir frá málinu undir fyrirsögninni: „Gustav Witzøe skipuleggur framtíð Salmar án sonarins í stjórnendahlutverki hjá laxeldisfyrirtækinu,“ og vísar til viðtals sem birtist við hann í sjávarútvegsblaðinu Intrafish í dag. „Ég á son sem hefur verið alveg skýr með það að til framtíðar sér hann sjálfan sig í virku eigendahlutverki, frekar en að vera þátttakandi í framleiðslunni, líkt og ég hef verið. Svo erum við með frábært starfsfólk. Það mun þá bara fá sín tækifæri,“ segir Gustav Witzøe við Intrafish sem hreykir sér af því að hafa náð viðtali við hann þar sem veiti þau sjaldan. Hann var lengi forstjóri Salmar en er nú stjórnarformaður félagsins.
Í viðtali við Intrafish staðfestir Gustav Magnar að hann muni ekki starfa sem stjórnandi hjá Salmar í framtíðinni. „Dagleg stjórnun á Salmar er í góðum höndum hjá því dugmikla fólki sem stýrir félaginu. Ég hef notið þess mjög að fá að reyna mig í verkefnum í allri virðiskeðjunni, meðal annars bæði við að slátra fiski og reykja hann, en framtíðarhlutverk mitt verður að vera eigandi í gegnum fjölskyldufyrirtækið Kverva AS.“
Gustav Magnar Witzøe býr í Þrándheimi í dag og starfar sem módel samhliða því að halda utan um eignir sem gera hann að ríkasta manni Noregs.
Samkvæmt þessu mun Gustav Magnar því ekki verða einn af stjórnendum eiganda stærsta laxeldisfyrirtækis á Íslandi í náinni framtíð. Salmar er hins vegar komið til að vera á Íslandi.
Faðirinn segir hagstæðara að fara til Íslands
Faðir Gustav Magnar Witzøe segir í viðtalinu við Intrafish að það sé mögulega hagstæðara fyrir laxeldisfyrirtæki eins og Salmar As að stunda laxeldi í öðrum löndum en í Noregi. Ástæðan er sá hái auðlindaskattur sem verið hefur innleiddur á sjókvíaeldi í Noregi. Þessi skattur hefur verið harðlega gagnrýndur af norskum laxeldisfyrirtækjum síðastliðna mánuði.
Í viðtalinu segir Gustav Witzøe um þetta að aðstæður fyrir laxeldi í sjókvíum í Noregi séu einfaldlega ekki hagstæðir greininni: „Með auðlindskattinum og þeim aðstæðum sem eru hér núna, þá er hagstæðara að fara til annarra landa [...] Skotland er land sem liggur nálægt. Við erum með starfsemi í Skotlandi og eigum 50 prósent í næst stærsta laxeldisfyrirtækinu þar og einnig á Íslandi. En við vitum auðvitað ekki hvernig þetta endar.“
Athugasemdir