Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, hefur aðstoðað þýska jarðefnafyrirtækið Heidelberg og íslenskt fyrirtæki í eigu Einars Sigurðssonar, útgerðarmanns í Þorlákshöfn, við að að reyna að kaupa sér velvild félagasamtaka í sveitarfélaginu.
Heidelberg, og fyrirtæki sem er í sameiginlegri eigu þess og Einars og annarra fjárfesta, Eignarhaldsfélagið Hornsteinn ehf., hafa haft samband við félagasamtök í Þorlákshöfn og boðið þeim peninga í formi fjárstyrkja.
Þýska fyrirtækið hefur fengið úthlutað lóðum í Þorlákshöfn þar sem til stendur að byggja mölunarverksmiðju sem á að geta framleitt 1 til 1,5 milljónir tonna af íblöndunarefni fyrir sement. Eitt af því sem Heidelberg vill gera er að vinna móberg úr Litla-Sandfelli í Þrengslum sem og úr Lambafelli þar sem náma er fyrirhuguð.
Verksmiðja Heidelberg er umdeild í Þorlákshöfn en hún að vera við höfnina í bænum og verður sýnileg langt að. Sumir íbúar eru hlynntir henni en aðrir ekki. „Mér finnst þetta ömurlegt. Á að gera Þorlákshöfn að einhvers konar þungaiðnaðarbæ?“ spurði einn íbúi á Facebook. Sumir eru hins vegar jákvæðir: „Þetta lítur nú nokkuð vel út og skapar vinnu og tekjur,“ sagði annar.
Bæjarstjórinn sendi lista með nöfnum
Fulltrúi Heidelberg og Hornsteins hafði meðal annars samband við lúðrasveitina í Þorlákshöfn bréfleiðis fyrir jól, þann 22. desember, og bauð henni 500 þúsund króna fjárstyrk. Í tölvupóstinum kom fram að Elliði Vignisson hefði bent fyrirtækjunum á að setja sig í samband við lúðrasveitina til að bjóða henni peningana. „Ég fékk nafn og netfangið þitt sent til mín frá honum Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Ölfusi,“ segir í bréfinu frá Heidelberg og Hornsteini.
„Þetta var mjög óþægilegt og maður vill hreinlega ekki trúa því að þetta séu einhverjar mútur“
Elliði segir í samtali við Heimildina að Heidelberg hafi haft samband við hann og beðið um lista með nöfnum félagasamtaka og líknarfélaga sem gætu verið mögulegir styrkþegar. Bæjarstjórinn segir að þetta gerist stundum og þá verði hann við þessari beiðni. Þetta hafi meðal annars gerst nú fyrir jólin. „Heidelberg leitaði eftir upplýsingum um félagasamtök, íþróttafélög og líknarfélög. Við sendum þeim lista með nöfnum og þá styrkja þessi fyrirtæki félögin í kjölfarið,“ segir Elliði.
Aldrei fengið slíkt boð áður
Tölvubréfið var stílað á Ágústu Ragnarsdóttur, formann stjórnar lúðrasveitarinnar. Hún segir við Heimildina: „Þetta var mjög óþægilegt og maður vill hreinlega ekki trúa því að þetta séu einhverjar mútur. Mér fannst þetta mjög, mjög skrítið. Við höfum aldrei lent í því áður að vera boðinn peningur fyrir ekki neitt.“
Í póstinum var lúðrasveitinni bent á að stíla reikninginn annað hvort á Heidelberg eða á Eignarhaldsfélagið Hornstein. Fyrirtækið Jarðefni, sem á 47 prósenta hlut í Hornsteini, er meðal annars í eigu fyrirtækisins Jarðefnaiðnaðar sem flytur út vikur úr Heklu frá Þorlákshöfn. Jarðefnaiðnaður er að stærstu leyti í eigu áðurnefnds Einars Sigurðssonar og Hrólfs Ölvissonar. Þetta fyrirtæki hefur verið að kaupa upp jarðir í Ölfusi sem eiga námuréttindi í sveitarfélaginu.
Elliði býr í húsi í eigu Jarðefnaiðnaðar
Ein af jörðunum sem Jarðaefnaiðnaður ehf. hefur keypt, í gegnum dótturfélag sitt Leðurbrún ehf., er Hjalli við Þorlákshafnarveg. Eins og Heimildin greindi frá fyrir helgi hefur Elliði Vignisson búið í húsi á jörðinni Hjalla sem er þá í eigu Jarðefnaiðnaðar og þeirra Einars Sigurðssonar og Hrólfs Ölvissonar. Þegar félag Einars og Hrólfs keypti jörðina Hjalla fylgdu með henni námuréttindi í Lambafelli. Fyrirtæki þeirra hefur einnig keypt fleiri jarðir sem eiga námuréttindi í Ölfusi.
Eitt af því sem vekur athygli er að félag Einars og Hrólfs, Jarðefnaiðnaður ehf., hefur einmitt verið að tryggja sér námuréttindi í Lambafelli. Þar stendur til að byggja námu en móbergið sem Heidelberg vill vinna í mölunarverksmiðjunni á einmitt meðal annars að koma þaðan, eins og Kjarninn hefur fjallað um.
Í samtali við Heimildina sagði Elliði að hann væri að ganga frá því að kaupa húsið, sem hefði skemmst í vatnstjóni. „Ég er að kaupa af þeim íbúðarhúsið sem var metið ónýtt eftir vatnstjón. Ég er að koma mér fyrir þarna og hef búið í bílskúrnum á meðan húsið hefur verið gert upp. Það varð allsherjartjón á húsinu. Þetta er allt í undirbúningi og hefur tekið lengri tíma en við ætluðum.“
„Í raun og veru spara þeir sér kostnað við að rífa húsið með því að ég kaupi það af þeim“
Á meðan, sagði Elliði, byggi hann í húsinu án þess að greiða leigu þar sem litið væri svo á að peningarnir sem hann greiddi fyrir endurbætur hússins væru ígildi leigu. „Leigan verður bara endurbæturnar á húsinu. Þeir hefðu þurft að rífa húsið og í raun og veru spara þeir sér kostnað við að rífa húsið með því að ég kaupi það af þeim.“
Elliði sagði, þrátt fyrir að fyrirtæki Einars og Hrólfs séu stórir hagsmunaaðilar í sveitarfélaginu, að hann teldi ekki að neinir hagsmunaárekstrar væru á milli leigu og kaupa hans á húsinu og starfs hans sem bæjarstjóra. „Ég man ekki eftir neinum samþykktum eða vinnu sem ég hef gert sem tengist þeim. Lambafellið er ekki í eigu okkar, það tilheyrir bara þeim jörðum sem þeir hafa verið að kaupa. Það hefur bara ekki reynt á það. Við höfum enga samninga gert við þá og ekkert keypt af þeim. Námuvinnsla þeirra tengist sveitarfélaginu ekki neitt. [...] Allar embættisfærslur starfsmanna hér þola alla rýni.“
Óskaði lúðrasveitinni til hamingju með styrkinn
Í bréfinu frá Heidelberg til lúðrasveitarinnar óskaði sementsfyrirtækið hljómsveitinni til hamingju með að hafa verið valið til að fá styrkinn, í kjölfarið á ábendingu Elliða Vignissonar. „Þannig er mál með vexti að Heidelberg Materials er að veita fjárstyrk til félagasamtaka í Þorlákshöfn. Ykkar félagasamtök er eitt af þeim félögum sem hljóta fjárstyrkinn í ár og óska á ég ykkur til hamingju með það.“
Svo var beðið um að reikningur upp á 500 þúsund yrði annað hvort sendur beint til Heidelberg eða til Eignarhaldsfélagsins Hornsteins.
Styrkveitingunni var hafnað af félagsmönnum
Ágústa Ragnarsdóttir, stjórnarformaður lúðrasveitarinnar, segir að styrkveitingin hafi verið borin undir félagsmenn í lúðrasveitinni í Þorlákshöfn í lýðræðislegri kosningu. „Ég velti þessu styrktarboði fyrir mér í sólarhring áður en ég bar þetta upp við stjórnina. Allir stjórnarmenn voru á því að þiggja ekki styrkinn. Það sem gerist eftir að við tókum þetta fyrir á stjórnarfundi var að bera þetta boð undir félagsmenn með könnun. Það var svo lýðræðislegur meirihluti fyrir því að hafna þessum styrk,“ segir Ágústa en 30 félagsmenn tóku þátt í kosningunni.
Stjórnarformaðurinn segir að það sem stjórn lúðrasveitarinnar þótti óþægilegt var að verið væri að draga hana inn í „hringiðu pólitískrar umræðu“ með þessu styrktarboði. „Þetta er algjört einsdæmi í okkar sögu.“
Heidelberg ábyrgist skuldir Hornsteins
Tengsl þýska félagsins Heidelbergs og Eignarhaldsfélagsins Hornsteins eru mjög mikil. Norskt dótturfélag þýska sementsrisans, Norcem AS, á fyrirtæki á Íslandi sem heitir Heidelberg Materials Iceland ehf. Þetta fyrirtæki á svo 53 prósenta hlut í Hornsteini á móti 47 prósenta hluts Íslenskra jarðefna ehf. Fyrirtæki Einars Sigurðssonar og Hrólfs Ölvissonar, Jarðefnaiðnaður ehf., er svo stærsti hluthafi Íslenska jarðefna ehf. með tæpan fjórðungshlut.
Í ársreikningi Eignarhaldsfélagsins Hornsteins fyrir árið 2021 kemur fram að tengsl Heidelberg við eignarhaldsfélagið séu einnig þau að þýska sementsfyrirtækið sé í ábyrgð fyrir skuldum þess. „Þann 12. febrúar 2019 gaf Heidelberg Cement AG út ábyrgð að andvirði 900 millj.kr. til tryggingar á öllum skuldum Eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf. við viðskiptabanka félagsins. Engar veðsetningar eiga að hvíla á eignum félagsins skv. ákvæðum lánasamnings við viðskiptabanka félagsins,“ segir í ársreikningnum.
Þegar horft er til þessara miklu tengsla þessara tveggja félaga er kannski ekki skrítið að Heidelberg geri ekki sérstakan greinarmun á því í bréfinu til lúðrasveitarinnar í Þorlákshöfn hvort félagið muni greiða henni styrkinn. Lúðrasveitin geti einfaldlega valið hvort félagið fái reikninginn.
Athugasemdir (3)