Að bera saman yfirlýsingar og gjörðir Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur í samgöngu- og loftslagsmálum, fyrir og eftir kosningar, er líkt og að anda djúpt að sér á lygnum vetrarmorgni í Reykjavík - ekki eins hreint og hressandi og ætla mætti.
Það sem verra er, við vitum hvert leiðin liggur og allir ættu að geta séð að það er ekki besta leiðin.
U-beygja eftir kosningar
Eftir áramót hækkar sex milljóna króna rafbíll upp í um sjö milljónir króna, að mestu vegna skattahækkana ríkisstjórnarinnar undir forsæti Katrínar og í fjármálastjórn Bjarna. Um leið verður hlutfallslega hagstæðara að kaupa mengandi bíla.
Á sama tíma sendir helsta almenningssamgöngufélag landsins, Strætó BS, út neyðarkall, vegna þess að íslenska ríkið, ólíkt öðrum Norðurlöndum, hefur ekki komið félaginu til hjálpar eftir Covid-faraldurinn.
Skilaboðin til okkar allra voru skýr. Í kosningastefnu sinni í fyrra sögðu Vinstri græn að það þyrfti að „efla almenningssamgöngur um land allt og gera þær að raunhæfum valkosti.“
Og Sjálfstæðisflokkurinn sagðist sammála í sinni kosningastefnu: „Efla þarf almenningssamgöngur og gera þjónustuvænni svo að þær verði raunhæfur valkostur fyrir fleiri.“
Niðurstaðan nú er að framkvæmdastjóri Strætó hefur „aldrei séð það svartara“, sem er andstæðan við eflingu, og kallar eftir því, ásamt sjálfstæðismönnum í stjórn Strætó, að setja vagnana í einkarekstur. Helmingur vagnanna eru nú þegar í eigu einkaaðila, eins og Hópbíla og Kynnisferða, sem eru að stórum hluta í eigu fjölskyldu mannsins sem leggur fram fjárlagafrumvarpið.
Efling varð kefling
Um 55% þeirra sem þekkja til Strætó vilja tíðari ferðir, fleiri en vilja lægra fargjald. 40% þeirra sem taka ekki strætó segja „of tímafrekt“ að ferðast með strætó og stærsti hópurinn, tæpur helmingur, segist af ótilgreindum ástæðum „kjósa aðra ferðamáta“.
Það er því vitað að „efling almenningssamgangna“, sem flokkar Bjarna og Katrínar hafa boðað, liggur í því að auka þjónustuna frekar en að velja að horfa sérstaklega fram hjá Strætó þegar kemur að stuðningi vegna ytri aðstæðna eins og Covid og olíuverðhækkana.
Margt hefur breyst á síðustu árum til að auka tækifæri Strætó. Sumt fólk getur unnið heima og sleppt bíl. Það getur séð staðsetningu strætó í símanum og reiknað út ferðir. Það getur notað símann í strætó í vinnu eða afþreyingu. Það getur borgað með símanum, þegar greiðsluappið Klappið virkar. Fólk getur síðan tekið rafskutlur samhliða strætó, eða sem varaleið þegar Klappið virkar ekki.
Líklega hafa aldrei verið betri aðstæður til að efla Strætó en einmitt núna. Samhliða þéttingu byggðar og vaxandi kostnaði við einkabíla koma stöðugt fleiri ferðamenn til landsins sem gætu nýtt strætó, en birst hafa hörmungarsögur ferðamanna sem hafa reynt það, ekki síst vegna þess að þeir geta ekki borgað. Þeim er því ýtt út í bílaleigu og leigurnar eru enn að flytja inn bensín- og díselbíla.
Það hjálpar ekki að tekin var sérstök ákvörðun um að hafa strætó sem mest torfundinn hjá Keflavíkurflugvelli og veita rútufyrirtæki, sem vill til að er að miklu leyti í eigu náfrænda, föður og bróður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, forgang við flugstöðina eftir útboð.
Glötuð tækifæri
Þegar eldsneytisverð hækkar og þrengir að fjárhag fólks er einstakt tækifæri og sérstök þörf á því að efla almenningssamgöngur og ýta þannig undir vistvænni og hagkvæmari lífsstíl. En í staðinn er verið að ræða um að færa Strætó í einkarekstur vegna bágrar fjárhagsstöðu sem er afleiðing af ákvörðunum sömu stjórnmálamanna og lofuðu öllu fögru til að vera kosin.
Kannski geta faðir, bróðir og dulmagn venslanna komið Bjarna Benediktssyni til góða enn á ný, þegar Strætóreksturinn hefur verið færður í einkarekstur vegna vanefnda kjörinna stjórnvalda og tækifærin í landi tækifæranna skipta um hendur.
Gera betra að kaupa mengandi bíla
„Við lækkum skatta,“ var fyrirsögnin á grein Bjarna Benediktssonar fyrir kosningarnar í fyrra. Árið eftir lagði hann fram fjárlagafrumvarp sem felur í sér 5% ný vörugjöld á rafbíla og lægri skattaafslátt, úr 1.560.000 kr. í 1.320.000 krónur.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar verður um áramótin gert hlutfallslega hagstæðara að flytja inn mengandi bíla frekar en rafmagnsbíla.
Margir hafa lýst undrun sinni á þessu, en þó ekki formaður umhverfisverndarflokks Vinstri grænna. Formaður Bílgreinasambandsins, María Jóna Magnúsdóttir, sem gætir hagsmuna bruna- og hreinorkubíla, hefur sagt að með breytingunni hækki rafbílar um tæp 8% í verði, en díseljeppar um 2,3%. „Við erum að sjá miklu minni hlutfallslega hækkun á meira mengandi ökutæki. Þetta finnst okkur mjög öfugsnúið miðað við þau skilaboð sem stjórnvöld eru að boða,“ sagði hún.
Núna eru aðeins 15,8% bíla á Íslandi hreinorkubílar, þrátt fyrir aðgengi okkar að ódýrri orku og hreint okur olíufélaganna, sem hafa ekki lækkað verð í samræmi við fallandi heimsmarkaðsverð, þótt eldsneytisverð í Bandaríkjunum sé lægra núna en fyrir sléttu ári.
Skattahækkun á græna bíla er bersýnilega í ósamræmi við markmið og orð stjórnvalda, en til viðbótar er hún hættuleg og heimskuleg á mörgum stigum:
1. Innflutningur á dísel og bensíni veikir krónuna og viðskiptajöfnuð.
2. Olíukaup styrkja sérstaklega helstu einræðisríki heims, allt frá Sádi-Arabíu til Rússlands.
3. Sjálfstæði og sjálfbærni Íslands veikist við að vera háð innfluttu eldsneyti.
4. Loftmengun er meiri með útblæstri bíla og þar af leiðandi neikvæð áhrif á heilsu fólks í borgum, ásamt því að leikskólabörnum er oft haldið inni í logni.
5. Eldsneytiskaup veikja fjárhagsstöðu einstaklinga sem fyrirtækja.
6. Íslensku olíufélögin eru mun seinni en annars staðar til að lækka verð.
7. Bensínstöðvar taka upp stóran hluta af borgarlandslaginu.
8. Spáð er hamfarahlýnun vegna bruna eldsneytis.
Jafnvel þótt við litum eingöngu til þess að heiminum stafar ógn af bruna jarðefnaeldsneytis ættum við ekki, hvað sem Bjarna Benediktssyni finnst af einhverjum ástæðum, að auka hvata til að flytja inn bensín- og díselbíla algerlega að óþörfu.
Þríþætti vandinn við Bjarna og Katrínu
Vandamálið með Bjarna og Katrínu er þríþætt í þessu samhengi. Annars vegar virðist skorta upp á að þau fylgi eftir eigin stefnu sem boðuð var fyrir kosningar, þar af leiðandi heilindavandi.
Í öðru lagi virðast þau skorta kerfishugsun til þess að átta sig á margþættum afleiðingum þess að nýta ekki einstakt tækifæri Íslands til örra orkuskipta, sem felur í sér hæfnisvanda. Í þriðja lagi mætti skoða annan heilindavanda, sem er að sjá ekki siðferðislegu skylduna til þess að stuðla að minnkun óþarfra olíukaupa út frá mannhelgi og forsendum loftslags, öryggis og efnahags.
„Það skiptir máli hver stjórnar,“ sagði í yfirskrift kosningastefnu Vinstri grænna í fyrra.
Þar eru þrír möguleikar. Annaðhvort er enginn við stjórn, einhver annar en Vinstri græn eða Katrínu Jakobsdóttur er ekki eins umhugað um loftslagið og almenningssamgöngur eins og hún hefur haldið fram. Þetta áttu að vera aðalmálin þeirra, endanleg ástæða til að kjósa Vinstri græn: Siðferði og umhverfisvernd.
Við gætum ímyndað okkur að vandinn liggi í Framsóknarflokknum, undir forystu samgönguráðherrans Sigurðar Inga Jóhannssonar, en þau sögðu nokkurn veginn það sama og hinir tveir. Beita ætti „skattalegum hvötum“, „til að hvetja til að ökutæki séu knúin vistvænum og innlendum orkugjöfum“. Og auðvitað „styðja öfluga uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, í dreifbýli og á milli landshluta“ því „almenningssamgöngur þurfa að vera raunverulegur valkostur fyrir íbúa um allt land“.
Umbyltingin
TIl að bera í bakkafullan lækinn er hægt að vitna til samhljóða stefnu VG og Sjálfstæðisflokks í loftslagsmálum. „Ísland þarf að sýna forystu og frumkvæði í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ seldi VG. „Draga skal úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda með samdrætti í bruna,“ seldi xD.
Þetta er í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda um loftslagsmál, það þurfi hraðar og „stórfelldar aðgerðir“.
„Víða er kerfisbreytinga þörf og þar þurfa stjórnvöld að draga vagninn. Við þurfum til dæmis kerfisbreytingu í samgöngum – umbyltingu á þeim orkugjöfum sem samfélög nota til að knýja farartæki áfram, sem og stórfelldar aðgerðir sem gera fólki kleift að breyta ferðavenjum sínum og neysluvenjum,“ segir þar.
Eitt er vangeta, en annað er að vinna beinlínis á móti yfirlýstu markmiði. Stjórnvöld eru að draga vagn, en þau draga hann núna í öfuga átt á milli þess sem þau draga lappirnar.
Óvinir Strætó
Strætó logar og við getum beðið eftir að einhver komi stökkvandi til bjargar, eins og hugrakki dagdrykkjumaðurinn af Benzin Café á Grensásveginum í síðasta mánuði. En það er enginn sjáanlegur.
Katrín Jakobsdóttir sá þetta svo vel fyrir sextán árum, þegar hún, sem varaformaður VG, skrifaði greinina: Óvinir Strætó? Um Sjálfstæðismenn, síðari tíma samherja:
„Ef markmið stjórnvalda væri að hjálpa almenningi að minnka skuldirnar (en sívaxandi skuldir íslenskra heimila eru mikið áhyggjuefni) væri nær að efla þjónustu Strætós bs. verulega enda hagkvæmur ferðamáti, bæði fyrir einstaklinga og samfélag, svo að ekki sé minnst á umhverfisáhrifin af því að draga úr útblæstri bifreiða. Það er dýrt að reka bíl, hvað þá tvo, og margir myndu vilja nýta þjónustu almenningsvagna til að sleppa a.m.k. öðrum bílnum. Til þess þarf þjónustan vitaskuld að vera boðleg, ferðir á tíu mínútna fresti og leiðir um alla borg. Að verja fé í strætó og fjölga þannig farþegum myndi spara kostnað við gatnagerð, spara einstaklingum fé og bæta umhverfi borgaranna.“
Einhvern tímann kemst þessi manneskja í áhrifastöðu og breytir þessu, hafa eflaust margir hugsað, því það skiptir máli hver stjórnar.
Litla-Hraun was founded on March 8, 1929, as a single building. Inside the fence is a football field as well as some basketball facilities. Work programs include the making of license plates and car washing. Inmates get paid for their work according to a fixed rate set by the Prison and probation administration of Iceland.
Rútuferðin kostar 7000 krónur báðar leiðir og með leigubílum til og frá rútunni verður kostnaðurinn mun meiri en þau rúm 11000 sem ég greiddi fyrir geymslu á bílnum í viku. Bensínkostnaðurinn reiknast innan við 1500 krónur (hybrid bíll).
Hafa þessar rútuferðir verið boðnar út? Er virkilega ekki hægt að fá hagstæðara verð? Er ekki rútufyrirtækið í eigu fjölskyldu Bjarna Ben?
Ef við gætum keyrt á kjaftæðinu þá værum við í mjög góðum málum!