Í forsíðuviðtali Stundarinnar sem kom út í morgun segir Sigurlaug Hreinsdóttir frá því hvers vegna hún ákvað að kvarta til sérstakrar eftirlitsnefndar undan störfum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og samskiptum lögreglu við hana, í tengslum við hvarf og andlát dóttur Sigurlaugar í ársbyrjun 2017.
Sigurlaug taldi margt í störfum lögreglu í málinu aðfinnsluvert og ekki síst varðandi samskipti lögreglu við aðstandendur dóttur hennar annars vegar og fjölmiðla hins vegar. Sigurlaug lýsti því hvernig henni hafi þótt skorta á að lögregla brygðist nógu snemma við og hæfi leit að dóttur hennar. Hún hafi upplifað ónærgætni í samskiptum við lögreglu og sárnað yfirlýsingar lögreglu í fjölmiðlum.
Nefnd um eftirlit með lögreglu tók málið fyrir í byrjun árs og komst að niðurstöðu þann 31. maí síðastliðinn. Nefndin sagði þar að jafnvel þótt hún telji að lögregla hafi ffarið eftir gildandi verklagsreglum, og strax sinnt tilkynningu um hvarf dóttur Sigurlaugar, séu verklagreglurnar bæði gamlar og annmörkum háðar.
Þær taki hvorki tillit til tækniframfara né heldur séu í þeim neinar leiðbeiningar um hvernig haga skuli samskiptum við aðstandendur þeirra sem taldir eru týndir. Þá telur nefndin aðfinnsluvert að Sigurlaugu hafi verið stillt upp til viðtals á blaðamannafundi lögreglu á fyrstu dögum leitarinnar að dóttur hennar, og látin svara spurningum fjölmiðla; sem sumar hverjar hafi reynst henni þungbærar og erfiðar.
Sú staðreynd að Grímur Grímsson, stjórnandi rannsóknarinnar á hvarfi og andláti dóttur Sigurlaugar, hafi í svari til nefndarinnar beðið Sigurlaugu afsökunar á framgöngu sinni í fjölmiðlum og að hafa ekki sýnt henni nægilega nærgætni, varð til þess að nefndin taldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna kvörtunar um þann þátt málsins.
Reglum breytt og fjölmiðlasamskipti metin
Meginniðurstaða í ákvörðun eftirlitsnefndarinar er sú að endurskoða þurfi verklagsreglur um leit að týndu fólki, sem gilt hafa frá árinu 2004, einkum og sér í lagi þann hluta sem snúi að handleiðslu við aðstandendur í alvarlegri málum.
Eins þurfi að meta hvort samskipti lögreglu við fjölmiðla hafi verið með eðlilegum hætti og hvort lögreglan hafi átt að setja ákveðin mörk með tilliti til hagsmuna aðstandenda Birnu og eins rannsóknarhagsmuna. Eins er því velt upp í ákvörðuninni hvort taka ætti til skoðunar túlkun á einni grein í siðareglum lögreglumanna, þó ekki séu um það bein tilmæli eða fyrirmæli af hálfu nefndarinnar.
Ríkislögreglustjóri meti eigin verk
Í báðum þeim atriðum sem fjallað er um í niðurstöðum ákvörðunarinnar er tilmælum beint til ríkislögreglustjóra. Þar situr nú Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sem á þeim tíma sem til skoðunar var af nefndinni, var lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Yfirmaður þess embættis sem kvörtun Sigurlaugar beindist að og beinn aðili að málinu.
Ekki er að sjá að nefndin geri ráð fyrir því að með því að fela ríkislögreglustjóra að breyta reglum eða leggjast í skoðun á samskiptum hennar sjálfra og undirmanna hennar við fjölmiðla, felist mögulega einhverjir hagsmunaárekstrar. Enda virðist ekki hafa reynt á það ennþá, þar sem vinna við hvort tveggja er ekki hafin nú hálfu ári seinna.
Ríkislögreglustjóri virðist einhverra hluta vegna ekki hafa fengið ákvörðunina á sitt borð, jafnvel þó embættinu hafi borist hún í byrjun júní. Þetta kom í ljós þegar Stundin hugðist leita viðbragða við ákvörðun nefndarinnar hjá ríkislögreglustjóra í gær og hvernig brugðist hefði verið við tilmælum nefndarinnar.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hafði hins vegar ekki séð álitið þegar Stundin ræddi við hana í gær. Í ljós kom að erindið hefði borist embættinu í sumarbyrjun, á meðan ríkislögreglustjóri var í sumarfríi og einhverra hluta vegna farist fyrir að kynna henni efni þess. Sigríður Björk kvaðst því ætla að kynna sér ákvörðunina áður en hún tjáði sig frekar um málið.
Til hvers er þá nefndin?
„Mér finnst mjög sjokkerandi að heyra að ríkislögreglustjóri opni ekki tölvupóst frá nefnd um eftirlit með lögreglu,“ segir Sigurlaug Hreinsdóttir í samtali við Stundina og kvaðst vera vonsvikinn að heyra að svo virtist sem ekkert væri farið að gera með tilmæli nefndarinnar í kjölfar kvörtunar hennar.
„Til hvers er þessi nefnd ef það liggja frá henni ákvarðanir í póstum óopnaðir hjá æðstu stofnunum? Nefndin er eini farvegur borgara sem hafa orðið fyrir skaða af völdum lögreglu til að leggja inn kvörtun og þess vegna mjög alvarlegt ef nefndin getur sent frá sér ákvörðun sem inniheldur tilmæli, til viðeigandi stofnana án þess að hafa hugmynd um hvort tölvupósturinn sé opnaður og lesinn,“ sagði Sigurlaug í samtali við Stundina í gær.
Athugasemdir