Fréttir af þeim gjöfum og matarboðum sem starfsmenn Bankasýslu ríkisins þáðu af hendi þeirra sem starfsmennirnir voru einmitt að sýsla um, þær þykja kannski í aðra röndina fyndnar en eru það í rauninni alls ekki – heldur grafalvarlegar. Menn geta vissulega skemmt sér við að reyna að átta sig á hvað var í matinn og hvað var drukkið fyrir þær 48 þúsund krónur sem annað matarboðið til starfsmannanna kostaði, en þetta er þó fyrst og fremst óskemmtilegt dæmi um „menningu“ sem ég er smeykur um að tíðkist mjög hjá ríka fólkinu í landinu og heitir auðvitað spilling réttu nafni.
Hve mörg bindi Spillingarsögu Íslands?
Einu sinni göntuðumst við Þorvaldur Gylfason með að það þyrfti að skrifa Spillingarsögu Íslands og við vorum helst að spekúlera í hvort bindin þyrftu að vera 10 eða 12. Þetta var í gamni en þó ekki, og mér finnst í rauninni að það sé full ástæða til að skrifa þessa sögu – þótt ég sé ekki nógu talnaglöggur til að takast það verk á hendur, því miður. Spillingin í þessu landi er nefnilega miklu meiri og alvarlegri en flestir gera sér grein fyrir.
Ástæðan fyrir því að við trúum því ekki hve spillingin er útbreidd er alveg áreiðanlega fyrst og fremst sú að þeir sem njóta góðs af spillingunni hafa í afar mörgum tilfellum komið sér fyrir einmitt í þeim kimum þjóðfélagsins þar sem má hafa áhrif á bæði skoðanir almennings og framgang rannsókna gegn þeirri sömu spillingu.
Barátta gegn spillingu ekki ofarlega á blaði
Þegar boðað er til kosninga á nokkurra ára fresti, þá setja stjórnmálaflokkar fram stefnumál sín eins og lög gera ráð fyrir – áherslur sínar í peningamálum, atvinnumálum, heilbrigðismálum og svo framvegis. En man einhver til þess að það hafi nýlega verið mikilvægt stefnumál hjá einhverjum flokki að vinna bug á spillingu? Jú, líklega má nefna til Pírata, en hjá öðrum flokkum er baráttan gegn spillingu ekki efst á blaði.
Hjá einum stjórnmálaflokki er það til dæmis miklu meira forgangsmál að ríka fólkið geti fengið skattaafslátt fyrir að koma sér upp stétt þjónustufólks, a la Downton Abbey.
Þó mun hægðarleikur að færa rök fyrir því að milljarðar og aftur milljarðar hverfi úr sameiginlegum sjóðum okkar á hverju ári vegna spillingar – sem opinberir aðilar þykjast þó sem minnst um vita.
Lögreglan og hinn stjórnlyndi hluti stjórnkerfisins fer nú mikinn í baráttu sinni fyrir því að lögreglan fái svokallaðar framvirkar rannsóknarheimildir, en í því felst í raun og veru að lögreglumenn mega njósna um fólk sem þá grunar á einhvern hátt um græsku, og það má þá líka njósna um fólk sem ef til vill hugsanlega kannski gæti framið lögbrot í framtíðinni. Þessu á að beina, segir lögreglan, gegn skipulagðri glæpastarfsemi, eiturlyfjasölu, mansali og þess háttar.
Framvirkar spillingaraðferðir?
Vissulega er brýnt að vinna gegn glæpum af því tagi sem ég nefndi, en svona heimildir til njósna eru þó ærið vafasamar – svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það mætti hins vegar spyrja lögregluna hvort hún hafi líka hugsað sér að beita svona „framvirkum rannsóknarheimildum“ gegn spillingu í landinu. Mætti beita þeim til að ráðast gegn mútugreiðslum í þessu landi – og þá meina ég af alvarlegra tagi en málsverðir og „gjafir“ til starfsmanna Bankasýslunnar eru til marks um?
Við vitum öll að peningabúnt í pappírspokum tíðkast ekki síður á Íslandi en í öðrum löndum.
Ég hef samt einhvern veginn ekki trú á að það sé ofarlega á blaði hjá löggunni að rannsaka þetta. Þó gæti ég – ótalnaglöggur maðurinn! – sem hægast bent löggunni á ýmis fyrirtæki sem mér þykir afar sennilegt að beiti í starfsemi sinni framvirkum spillingaraðferðum – og ég sé það núna, að líklega þurfa bindin að verða að minnsta kosti 20.
Uhmmm... Flokkur fólksins!
En eins og alvöruleyniþjónustur gætu frætt þá á eru einfaldar aðferðir sem skipulögð glæpastarfsemi getur beitt til að fela samskifti sín. Það er kallað að Ghosting og eina sem þú þarft er nettengingu og tæki sem getur nettengst... símakort eru óþörf. Og þá situr lögreglan í súpunni með "forvirku aðgerðirnar" sínar.
Og forrit sem gera þér kleyft að hijacka síma annarra og gögnin þar hafa verið til í áraraðir... ísraelar voru ekki þeir fyrstu sem notuðu slíkt... en það kallar sem betur fer á smá þekkingu og aðgengi að slíkum öppum sem svo má kalla... ég rakst á eitt fyrir mörgum árum sem kallaðist ef ég man rétt x-21.
Lögregluna vantar aðhald, afleiðingar af ábyrgðarleysi og að hreinsa til í spillingunni og lélegum vinnubrögðum ekki óútfylltan vixil til að gera það sem henni sýnist án ábyrgðar.
Óvönduð vinnubrögð, huliðshjálmar og spilling einkennir íslensku lögregluna... ekkert annað. Og það skrifast ekki á hinn almenna lögregluþjón sem hlýtur að svíða það sárlega að sjá yfirmenn sína eyðileggja fórnfýsni þeirra og þeirra góða framlag.