Norska laxeldisfyrirtækið Salmar, eigandi Arnarlax á Bíldudal, segir að samruni fyrirtækisins við Norway Royal Salmon, eiganda Arctic Fish á Ísafirði, muni tefjast þar sem það hafi tekið lengri tíma að afla samþykkis samkeppnisyfirvalda fyrir samrunanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Salmar til norsku kauphallarinnar í dag. Samruninn er til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu á Íslandi sem og hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Norsk samkeppnisyfirvöld hafa samþykkt samrunann fyrir sett leyti.
Í tilkynningunni segir: „Það ferli að fá nauðsynlegt samþykki eftirlitsaðila fyrir samrunanum hefur tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir þega samrunaáætlunin var gerð. Af þessum ástæðum telur Salmar að félagið þurfi að boða til hluthafafundar til að lengja tímafrestinn sem félagið ætlar sér til að ganga frá samrunanum.“
Hefur áhrif á Íslandi
Umræddur samruni norsku félaganna myndi leiða til þess að tvö stærstu laxeldisfyrirtæki Íslands yrðu í eiga sama aðila. Þetta myndi að öllum líkindum leiða til samruna þeirra þar sem Salmar hefur talað um að veruleg samlegðaráhrif séu í rekstri fyrirtækjanna tveggja. Samanlagt framleiða þessi tvö laxeldisfyrirtæki rúmlega 50 prósent af þeim eldislaxi sem framleiddur er á Íslandi. Þetta gæti haft ýmis konar afleiðingar í för með sér á Vestfjörðum, meðal annars fækkun starfa vegna samlegðaráhrifa.
Svipaðir frestir hjá báðum stofnunum
Í svörum til Stundarinnar segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, að stofnunin sé ennþá með samrunann til skoðunar sín megin. „Eins og fram kom í frétt á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins í síðasta mánuði er samruninn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu og hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.“
„Tilkynningar til norsku kauphallarinnar gefa til kynna að samrunaaðilar hafi gert ráð fyrir að rannsókn samkeppnisyfirvalda tæki skemmri tíma en reyndin er“
Páll Gunnar segir að rannsóknin á samrunanum sé hins vegar styttra á veg kominn hjá framkvæmdastjórninni: „Rannsóknin er nú á svokölluðum II. fasa hér á landi, en er enn á I. fasa hjá framkvæmdastjórninni, sbr. upplýsingar á heimasíðu hennar hér. Lögbundnir tímafrestir samkeppnisyfirvaldanna tveggja eru áþekkir. Ástæða þess að samruninn var tilkynntur síðar til framkvæmdastjórnarinnar var að ítarlegar forviðræður áttu sér stað milli samrunaaðila og framkvæmdastjórnarinnar. Tilkynningar til norsku kauphallarinnar gefa til kynna að samrunaaðilar hafi gert ráð fyrir að rannsókn samkeppnisyfirvalda tæki skemmri tíma en reyndin er.“
Athugasemdir