Lögreglu bárust tilkynningar um 125 nauðganir á fyrstu sex mánuðum ársins. Það er 25 prósent fjölgun í tilkynningum frá árinu 2021. Að jafnaði var tilkynnt um 21 nauðgun á mánuði á tímabilinu. Þá hefur orðið mikil aukning á tilkynningum um kynferðislega áreitni og brot gegn kynferðislegri friðhelgi.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot. Þar kemur fram að ef tilkynningar til lögreglunnar fyrstu sex mánuði yfirstandandi árs eru bornar saman við síðustu þrjú ár þar á undan þá fjölgar skráðum nauðgunum um 30 prósent.
Af þeim 125 tilkynningum sem um ræðir áttu 83 þeirra sér stað á umræddu sex mánaða tímabili. Það jafngildir því að tilkynnt hafi verið um 14 nauðganir á mánuði og samsvarar það 1 prósents fækkun frá sama tíma í fyrra. Fjöldi grunaðra í nauðgunarmálum var 148, þar af 143 karlmenn og 5 konur.
Í heild var tilkynnt um 328 kynferðisbrot á tímabilinu sem er nokkru minna en á sama tímabili í fyrra en þá var tilkynnt um 358 kynferðisbrot á sama tímabili. Það jafngildir um 9 prósenta fækkun tilkynninga milli ára. Hins vegar er það um 5 prósenta fjölgun á skráningum ef miðað er við meðaltal síðustu þriggja ára á undan.
Tilkynningum um kynferðislega áreitni og brot gegn kynferðislegri friðhelgi fjölgaði milli ára og voru þau 64 á tímabilinu. Að jafnaði var tilkynnt um 36 slík brot á sama tímabili síðustu þrjú ár þar á undan og er aukningin á tilkynningum því um 78 prósent.
Tilkynnt var um 63 kynferðisbrot gegn börnum á fyrri hluta ársins, sem er nokkru færra en árið 2021 þegar tilkynnt var um 84 slík brot. Að meðaltali var tilkynnt um 68 slík brot á þriggja ára tímabili þar á undan.
Fjöldi grunaðra í öllum kynferðisbrotum á fyrstu sex mánuðum ársins var 272, 95 prósent þeirra karlmenn. Þriðjungur þeirra var undir 25 ára aldri.
Athugasemdir